21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5510 í B-deild Alþingistíðinda. (4749)

476. mál, fiskeldismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég get tekið almennt undir efni þeirrar þáltill. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson flytur hér ásamt fleiri þm. Alþfl. um aðgerðir í fiskeldismálum. Það eru fleiri hv. þm. sem hreyft hafa þessum málum hér á þingi og ég hygg að mælt hafi verið fyrir till. sem hv. þm. Stefán Valgeirsson ásamt fleirum er flm. að, um fiskeldismál einnig. Þessi tillöguflutningur ber vott um að að þm. geri sér ljóst að úrbóta er þörf í sambandi við stefnumótun á þessu sviði, svo og varðandi fjármögnun, rannsóknir og marga fleiri þætti. Ég beindi fsp. til hæstv. landbrh. og sjútvrh. um þessi mál hér í Sþ. sem þeir svöruðu báðir, líklega í marsmánuði s. l., og í tengslum við það hef ég minnt á að á síðasta þingi, raunar á árinu 1983, þ. e. fyrri hluta síðasta löggjafarþings, þá flutti ég ásamt þremur öðrum þm. Alþb. till. um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra. Í þessari till. var tekið á nánast öllum þeim þáttum með einhverjum hætti sem vikið er að í þessari till. og raunar í till. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sem áður er fram komin á þessu þingi.

Ég tel ástæðu til þess, án þess að taka mikinn tíma í umr. um þetta mál nú, að rifja upp efni þáltill. sem ég flutti og hver var afgreiðsla hennar af hálfu meiri hl. atvmn. á síðasta þingi. Með leyfi forseta var efnið svofellt:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa áætlun um eflingu fiskeldis með það að markmiði að eldi og ræktun sjávar- og vatnadýra geti sem fyrst orðið gildur liður í þjóðarbúskap og atvinnulífi á Íslandi.

Við gerð áætlunarinnar verður m. a. haft samráð við Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Rannsóknaráð ríkisins og Háskóla Íslands.

Sérstök áhersla verður lögð á þá þætti sem skilað geti arði sem fyrst, svo sem eldi á ungfiski úr sjó, en jafnhliða verði sköpuð aðstaða til víðtækra rannsókna og tilrauna með aðra þætti, svo sem klak og seiðaeldi við íslenskar aðstæður.

Fyrstu aðgerðir á þessu sviði verði m. a. í því fólgnar:

1. að undirbúa heildarlöggjöf um fiskeldi þar sem m. a. verði ákveðin yfirstjórn þessara mála og stuðningur af hálfu hins opinbera,

2. að koma upp tilraunaaðstöðu vegna fiskeldis og klaks á vegum Hafrannsóknastofnunar sem jafnframt geri tilraunir um öflun á ungfiski til eldis svo og með fóðuröflun,

3. að undirbúa fjármögnun til framkvæmda á þessu sviði,

4. að kanna almennar forsendur fyrir fiskeldi hérlendis, m. a. varðandi fisktegundir, markað og arðsemi,

5. að meta gildi jarðvarma og aðrar staðbundnar forsendur fyrir fiskeldi,

6. að draga saman vitneskju um rannsóknir og reynslu hérlendis og erlendis í ræktun vatna- og sjávardýra.

Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi ásamt frv. til l. um fiskeldi eigi síðar en í þingbyrjun 1984.“

Þetta var efni þáltill. sjálfrar og með henni var allítarleg grg. um þessi efni. Ég mælti fyrir þessari þáltill. að ég hygg á fyrsta degi eftir jólahlé Alþingis, þ. e. síðasta þings, og ekki hlaut hún þar miklar . undirtektir í umræðum. Ég hygg að enginn hafi séð ástæðu til að ræða málið þá frekar, en till. var vísað til atvmn. og afgreiðsla meiri hl. atvmn. var sú að lagt var til, eftir að leitað hafði verið til m. a. Rannsóknaráðs ríkisins og sjútvrn., að till. yrði vísað til ríkisstj. og sú varð niðurstaðan. Einn af þeim sem að þessu áliti stóð var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi varaformaður Alþfl.

Ég hefði að sjálfsögðu talið eðlilegt að Alþingi hefði ályktað um þetta mál á því þingi, þannig að framkvæmdavaldinu væru falin ákveðin verkefni sem samkomulag gæti tekist um í meðferð þingsins á grundvelli þeirrar till. sem ég ásamt fleirum þarna flutti. En niðurstaðan varð sem sagt sú að till. var vísað til ríkisstj. og þar hvílir hún. Það var m. a. um aðgerðir í ljósi þessarar till. sem ég spurði þá hæstv. ráðh. sjávarútvegs og landbúnaðar nú ekki fyrir löngu. Þá kom það í ljós, sem reyndar hafði heyrst ávæningur af utan þings, að innan ríkisstj. og nefndra rn. hæstv. ráðh. hefur ríkt, nánast síðan ríkisstj. var mynduð eða a. m. k. kom það upp fljótlega á starfstíma hennar, veruleg togstreita um fiskeldis- og fiskiræktarmál og báðir aðilar hafa verið að búa sig í stakk til að semja löggjöf um þessi efni, en ekki tekist um það samstaða í ríkisstj. hverjum yrði falin forusta. Upplýst var í tilefni fsp.hæstv. forsrh. væri að höggva á þennan hnút milli rn. með því að skipa sérstaka nefnd í þessi verkefni. Það er það sem við síðast höfum heyrt frá framkvæmdavaldinu um þessi mál. Raunar upplýsti hæstv. landbrh. litlu seinna í tengslum við aðra fsp., sem hv. þm. Guðmundur Einarsson bar fram og sem hæstv. landbrh. svaraði, að nær fullbúin væru drög að sérstöku frv. um þessi mál á vegum landbrn., en ráðh. greindi frá því að um þetta hefði ekki tekist full samstaða.

Þetta tel ég eðlilegt að komi hér fram um leið og ég lýsi efnislega stuðningi við þennan tillöguflutning og tel það allt góðra gjalda vert sem hreyft er hér í þinginu um þessi mál. Ég vek hins vegar athygli á þessari afgreiðslu síðasta þings í málinu sem mér þótti ekki skynsamleg niðurstaða í því máli þá svo brýnt sem það sýnist vera að marka þarna ákveðna stefnu og það jafnt varðandi rannsóknir, fjármagn og meðferð innan stjórnkerfisins á þessari þýðingarmiklu grein.

Það var reyndar upplýst í tengslum við meðferð hv. atvmn. á nefndri till. á síðasta þingi af hálfu Rannsóknaráðs að þar væri að koma áætlun um svipaða þætti og óskað var eftir í minni tillögu. Sú áætlun er hins vegar ekki komin enn. Það var sagt að von væri á henni innan fárra vikna og átti það líklega þátt í þeirri niðurstöðu sem meiri hl. atvmn. komst að. Hins vegar hefur verið boðað að þessi áætlun verði kynnt á fundi Rannsóknaráðs ríkisins 7. júní n. k. Það er í rauninni ári eftir að ráðið gerði ráð fyrir að þetta álit mundi liggja fyrir sem varðaði ýmsa þá þætti sem ég hafði flutt till. um.

Ég vona sannarlega að það fáist skjótari og betri og jákvæðari afgreiðsla varðandi þá till. sem hv. Kjartan Jóhannsson hefur hér borið fram því að það er sannarlega þörf á því að ýta á framkvæmdavaldið í þessum efnum og það með skilmerkilegum hætti, eins og mér sýnist vera gerð tilraun til hér með flutningi þessarar till.