21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5523 í B-deild Alþingistíðinda. (4764)

468. mál, ferðaþjónusta

Árni Johnsen:

Herra forseti. Þrátt fyrir ágæta grg. með þessari þáltill. og ágæta ræðu 1. flm., hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, verð ég að segja að mér finnst tillgr. sjálf flaustursleg og yfirborðskennd. Ég skal útskýra hvers vegna. Það er látið að því liggja að nóg sé til af peningum og loksins hafi komið fram einhver sem datt í hug að það þyrfti að kanna hvað mætti gera og það á að gerast á þrem mánuðum. Og það á að gerast, að því er virðist, samkv. tillgr., eingöngu í gegnum ferðamálaráð á þessum stutta tíma og á þeim gögnum sem ferðamálaráð hlýtur þá að hafa aflað sér því ekki er ætlast til samkv. tillgr. að ferðamálaráð hafi nokkurn tíma til að afla sér slíkra gagna víðs vegar að um landið. Þess vegna er þessi till., því miður, sýndarmennska að mínu mati, sett upp í fljótræði, þrátt fyrir grg. sem er mjög góð.

Það er ljóst, eins og kom fram í máli hv. 1. flm., að það þarf að taka mjög tökum í ferðamálum og ferðaþjónustu á Íslandi, en með þessari tillgr. tel ég að það sé ekki byrjað á réttum enda, þ. e. ekki á byrjuninni. Áður en ferðamálaráð ákveður á nokkrum vikum hvar eigi að sefja fjármagn sem Alþingi á þá að tilreiða við gerð fjárlaga næsta haust samkv. tillgr. þarf að gera, að mínu mati, ítarlega könnun á því um allt land hver hugur manna er á hinum ýmsu stöðum landsins, í hinum ýmsu plássum landsins. Það kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Helga Seljan, að margir staðir á landinu byðu upp á mikla möguleika, nefndi Borgarfjörð eystri. Það eru fjölmargir staðir sem eru mikilvægir fyrir framtíð Íslands í ferðamálum, staðir sem ferðamálaráð hefur ekkert kannað og engin gögn fengið um. Og það er annað sem er í ferðamálaþjónustunni í dag, að henni er í rauninni miðstýrt mjög fast og ákveðið frá Reykjavík. Henni er úthlutað frá Reykjavík. Það er augljóst. Ef það á að gera könnun eins og tillgr. segir til um þýðir það þrjú ca. hundrað herbergja hótel á Akureyri, hótel hér og hótel þar. En það eru hinir ýmsu staðir á landinu, sem hafa ekki verið mikið inni í myndinni enn þá, austanlands, á Vestfjörðum og víðar, sem þarf að taka tillit til og verða að vera inni í dæminu ef taka á því taki sem talað er um í þessari þáltill.

Þeir aðilar úti á landsbyggðinni sem stunda ferðamál hafa sumir hverjir, sem hafa verið mjög dugmiklir, náð miklum árangri, jafnvel náð að fullbóka sín hótel fimm mánuði ársins án þess þó að fara í gegnum kerfið í Reykjavík. Þar er vel að verki staðið. Það má taka sem dæmi að á Suðurlandi var gerð könnun fyrir tveimur til þremur árum sem sýndi að ferðamenn skiluðu þar meiri veltu en Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkurbú Flóamanna er stórt og mikið fyrirtæki á Suðurlandi, þannig að þarna er vissulega verið að fjalla um mál sem skiptir miklu máli og mun skipta miklu máli í framtíðinni. En að því leyti er það ótryggt að ferðamál og ferðaþjónusta eru eins konar veiðimennska, háð veðri og vindum, háð margs konar ytri aðstæðum sem verður að taka tillit til. Þess vegna er þetta ekki eins einfalt og sjálfsagt og tillgr. segir til um. Þess vegna kalla ég hana sýndarmennsku. Þetta er merkilegt mál, en það er ekki til í landinu stefna í ferðamálum. Í uppbyggingu ferðaþjónustu vítt og breitt um landið eru ákveðnir kjarnar sem sitja í fyrirrúmi þar sem straumurinn er að vísu mestur, en það eru mörg svæði sem hafa orðið út undan. Eins og ég nefndi Austfirði og Vestfirði, þá má alveg eins nefna líka Vesturland og Norðurland vestra, hryggmikil svæði sem bjóða upp á marga möguleika fyrir ferðamenn, en eru aftarlega á merinni í öllu er að því lýtur.

Ég tel ekki skynsamlegt að þetta sé unnið eins og tillgr. gerir ráð fyrir, eftir þeim gögnum sem ferðamálaráð býr yfir. Að sjálfsögðu eru forsvarsmenn ferðamála í landinu hlynntir slíku. Mér finnst óþarfi að vera að geta þess í slíkum ræðum að þeir taki ekki undir svona till. Það er allt jákvætt, en það skiptir miklu að byrja á réttum enda og ná fram þannig möguleikum til þess að byggja upp fast og ákveðið og taka tillit til landsins alls.