21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5524 í B-deild Alþingistíðinda. (4765)

468. mál, ferðaþjónusta

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þm. sem hafa tekið til máls hér. Ég átta mig nú ekki alveg á því en ég held að við hv. 3. þm. Suðurl. séum reyndar sammála um að átaks sé þörf í uppbyggingu ferðaþjónustu. Mér fannst þó eins og hann teldi að orð mín hefðu á einhvern hátt beinst gegn uppbyggingu ferðaþjónustu úti á landi. Það er kannske misskilningur, en telji hann að svo sé þá er það vitaskuld ekki raunin. Ef lesin er grg. þá kemur það í ljós. Hvað orð hans varðar um sýndarmennsku og að þessi till. sé flaustursleg og yfirborðskennd þá eru það önnur viðbrögð sem við flm. höfum fengið frá þeim sem best þekkja til ferðamála og ég skil ekki að viðbrögð þeirra séu marklaus á einn eða neinn hátt. Þeir sem best þekkja til í atvinnugreininni hafa einmitt brugðist mjög jákvætt við. Þar sem ég sit í þeirri nefnd sem fjallar um frv. til ferðamála hitti ég síðast í dag menn sem vinna að þessum málum. Þeir komu að máli við mig um þessa till. og fögnuðu henni mjög. Þeir hafa einmitt kvartað undan því að alþm. hafi ekki sýnt þessum málum nægilegan skilning og stuðning og fögnuðu mjög þessari till. og töldu hana jákvæða. Vissulega er hér farið fram á að brugðist sé mjög hart við, en eins og sagt er hér í grg. þá er þegar til faglega unnin skýrsla, sem gerð var að frumkvæði ferðamálaráðs en á vegum rn., svo að ekki er hægt að segja að þetta sé einungis ferðamálaráð, án þess að ég sjái nú hvað er neikvætt við það. Ferðamálaráði var þó einu sinni komið á fót til að fjalla um þessi mál. Á þessari skýrslu er vissulega töluvert hægt að byggja og það eru til mjög miklar upplýsingar um bæði þróun og áform einmitt víðs vegar út um land þar sem áhugi og starfsemi í ferðamálum hefur verið mjög að aukast og hljóta allir að fagna því. Ég held sem sagt að það sé ekki nem gífurleg ofætlan að fara fram á að þarna verði brugðið mjög skjótt við, svo að tækifærið renni okkur ekki úr greipum, því að þetta er vaxandi atvinnugrein sem getur fært okkur mikla björg í bú ef við bregðumst við á réttan hátt.