21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5527 í B-deild Alþingistíðinda. (4769)

468. mál, ferðaþjónusta

Árni Johnsen:

Herra forseti. Aðeins til að tryggja það að þessari umr. ljúki ekki með misskilningi hjá hv. síðasta ræðumanni, þá sagði ég ekki að það væri æskilegast að þessi þáltill. væri með niðurstöðu. Ég sagði að hún gengi inn í dæmi mitt, en ekki upphafið, sem er stefnumörkun í ferðamálum, þar sem tekið væri tillit til landsbyggðarinnar allrar. Og þegar ræðumaður heldur því fram að það liggi fyrir mikið af gögnum um ferðamál á landsbyggðinni og landinu öllu, þá er það rangt. Það liggur ekki fyrir mikið af gögnum.

Ég hef kynnt mér ferðamál í öllum byggðum landsins og það er á þeim grunni sem ég byggi mína skoðun sem hér kom fram. Það ríkir stefnuleysi hér í ferðamálum og þess vegna þarf að byrja á því að marka stefnuna en ekki stilla dæminu upp eins og gert er í þessu tilviki, að það eigi að hringja út á land í hin ýmsu pláss og spyrja: Hvað viljið þið og hvað kostar það? Það finnst mér vera hálfgerð fyrirframniðurstaða eins og þáltill. er sett upp. (Gripið fram í.) Ja, það eru fimm vikur til stefnu. Það er ekki hægt að kanna þetta mál nema þá með einhverjum patentlausnum.