21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5530 í B-deild Alþingistíðinda. (4773)

484. mál, friðarfræðsla

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem er 484. mál þessa þings á þskj. 858 og er till. um friðarfræðslu. Flm. auk mín eru hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Halldórsdóttir, Kristín S. Kvaran, Páll Pétursson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að hefja undirbúning að frekari fræðslu um friðarmál á dagvistarheimilum, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Markmið fræðslunnar verði að glæða skilning á mikilvægi friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða.“

Þessi till. var reyndar flutt á síðasta þingi og þá af þm. allra flokka og samtaka en er nú endurflutt. Ég vil með leyfi forseta lesa nokkuð upp úr grg. og hafa nokkur orð um þessa till.:

Æ fleiri þjóðir hafa tekið upp friðarfræðslu í skólum sínum í anda samþykktar Sameinuðu þjóðanna um friðarfræðslu. Þessi samþykkt var gerð árið 1974 og eiga Íslendingar aðild að henni eins og aðrar Norðurlandaþjóðir. Það er því full ástæða til þess að vekja athygli á því sem þegar hefur verið gert í þessum efnum, styðja það og efla þannig að kennurum sé gert kleift að sinna þessu verkefni svo sem þeim ber skylda til, en á markvissari hátt en áður.

Stöðugt fleiri einstaklingar gera sér grein fyrir því að sú leið ofbeldis, hernaðar og ógnarjafnvægis, sem þjóðir heimsins hafa farið til að ná fram vilja sínum og staðfesta mátt sinn, er óviðunandi. Tortímingargeta þeirra vopna, sem herveldin hafa nú yfir að ráða, er svo mikil að þau ógna öllu lífi á jörðinni. Hungur og sjúkdómar hrjá meiri hluta mannkyns meðan gífurlegt fjármagn rennur til vaxandi vígbúnaðar.

Samkeppni og valdbeiting til að tryggja eigin afkomu hefur einkennt hegðun mannanna frá alda öðli. Við skiptumst í þjóðir, stéttir, kynþætti og kyn. Við höfum lært að einstaklingurinn verður að berjast fyrir sjálfan sig, að það er nauðsynlegt að vera persónulega metnaðargjarn og að árásargirni á eigin vegum eða hópsins er nauðsyn til að lifa af. En í lok 20. aldar eru þessar aldagömlu lífsaðferðir orðnar stærsta ógn okkar.

Skilgreining á einstaklingshyggju er m. a. þróun á persónulegum réttindum og frelsi. Slíkt eru auðvitað afar mikilvæg markmið fyrir þroska hverrar manneskju. En ef uppeldið leggur of einhliða áherslu á einstaklingshyggju er ólíklegt að deilur milli mannanna minnki og ólíklegt að hæfileikar til samstarfs aukist. Það er nauðsynlegt að viðurkenna réttindi og frelsi einstaklingsins í samhengi við samsvarandi skyldur hans og sérhver einstaklingur, sem hefur réttindi og frelsi, hefur á sama hátt skyldur til að nota frelsi sitt til að vinna fyrir aðra menn og réttindi þeirra á eins víðtækan hátt og frelsi hans leyfir.

Skyldur hljóta að ráða miklu um það hvernig maður getur neytt réttar síns. Okkur er nauðsyn að efla skilning og virðingu fyrir framandi þjóðum og menningu þeirra í stað þess að ala á fordómum og þröngsýni og taka að arfi gamlar venjur og viðhorf, mótuð af löngu liðnum stríðum eða deilum. Þó að eðlilegt sé að glæða með börnum ást og virðingu fyrir átthögum sínum og ættjörð þá ber að forðast að efla þrönga einangrunarsinnaða þjóðerniskennd eða þjóðarrembu. Okkur er lífsnauðsyn að víkka út og stækka hugtakið „við“. Heimili okkar er jörðin og sú staðreynd verður æ raunverulegri með auknum ferðalögum og samskiptum. Við verðum því að vera samábyrg fyrir henni sem einingu. Hún er far okkar á siglingu okkar um tímann og við erum öll í sama báti. Hollusta okkar verður því að beinast að mannkyninu sem heild jafnframt því sem hún eðlilega beinist að þeirri lífheild þar sem við eigum rætur. Við verðum því að meta samhjálp ofar samkeppni, frið ofar ofbeldi. Við verðum að læra að gefa fremur en að taka og við verðum að stunda mannrækt fremur en manndráp.

„Ein vænlegasta leið til friðar er að tryggja honum sess í hugum og atferli þeirra sem erfa löndin og efla hæfileika þeirra til þess að leysa deilur sínar á friðsamlegan hátt. Þar sem stríð eiga upptök sín í hugum manna þá er það í mannshuganum sem við þurfum að treysta varnir friðarins,“ stendur í formála UNESCO.

Þegar á árinu 1947, í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, hafði UNESCO, menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna, frumkvæði að alþjóðaráðstefnu til að leggja grundvöll að uppeldi sem aukið gæti skilning á milli þjóða. Ráðstefnan var grundvölluð á hugsjónum Þjóðabandalagsins og viðfangsefni hennar voru tillögur að alþjóðasamvinnu, gerðar af Albert Einstein, Thomas Mann, Marie Curie o. fl. Einn árangur þessarar ráðstefnu var gerð námsefnis fyrir skóla.

Þessar og aðrar seinni hugmyndir og samþykktir um friðaruppeldi fengu aukinn byr eftir aðalfund UNESCO í París 1974 þar sem samþykkt var að mæla með því að aðildarlöndin beittu sér fyrir fræðslu til eflingar skilnings þjóða í milli, samvinnu og friðar, svo og fræðslu um grundvallarmannréttindi. Þessi fræðsla skyldi ná til allra stiga og gerða uppeldis- og fræðslustofnana. Aðalfundinum lauk með svohljóðandi ályktun:

„Stríð og valdbeiting eru útilokuð á okkar tímum. Sérhver einstaklingur verður að læra að taka persónulega ábyrgð til að tryggja frið.“

Það er úr þessum jarðvegi sem viðleitni til friðaruppeldis á s. l. áratug er sprottinn. Þann 1. júlí 1983 höfðu 1650 skólar í 81 þjóðlandi tekið þátt í samvinnuverkefni til að efla alþjóðlega samvinnu og frið. Á ensku heitir þetta: Associated Schools' Project in Education for International Cooperation and Peace, skammstafað ASPRO. Þarna er um að ræða skóla allt frá forskóla til háskólastigs sem leggja sérstaka áherslu á fræðslu til að efla skilning og samvinnu við önnur lönd. Allir skólar geta tekið þátt í þessu verkefni. Bæði Bandaríkin og Sovétríkin eru aðilar að þessu samstarfi.

Friðarfræðsla í skólum erlendis, t. d. í þeim löndum sem við höfum mest menningartengsl við, eins og á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum, er sjaldnast aðskilin námsgrein en er öllu heldur aðlöguð sem ný vídd eða viðurkenning þess að í hverri námsgrein þurfum við stöðugt að standa frammi fyrir málefnum friðar og deilna. Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á að friðarfræðsla er ekki endilega hugsuð sem ný námsgrein sem skjóta þurfi inn í námsefnið á kostnað einhverrar annarrar námsgreinar. Markmiðið er miklu fremur að tryggja það að innan almennrar námsstefnu skóla sé skýr stefna um friðarfræðslu.

Segja má að enn sé ekki til nein alþjóðlega viðurkennd skilgreining á hugtakinu friðarfræðsla. Þær þjóðir, sem hafa tekið upp friðarfræðslu, hafa sjálfar skilgreint hugtakið í samræmi við þær samþykktir Sameinuðu þjóðanna sem þær styðja. Anatole Pikas, dósent í uppeldisfræði við Uppsalaháskóla, sem hefur stjórnað kennslu í friðaruppeldi við þá stofnun, gefur þessa skilgreiningu:

„Friðaruppeldi er að móta gerðir og viðhorf manna í þá veru að þau minnki hættu á stríði. Þessi áhrif mega ekki skerða þjóðernislega eða pólitíska vitund manna eða mannréttindi þeirra. Markmiðum friðaruppeldis er unnt að ná með auknum skilningi milli þjóða sem vígbúast af ótta hver við aðra. Mikilvægasta tæki friðaruppeldis er aukning á þekkingu og hæfni til að leysa deilur með viðræðum deiluaðila á jöfnum grundvelli.“

Pikas skýrir skilgreiningu sína nánar:

„Viðleitni til aukinna gagnkvæmra friðarviðræðna milli ríkja og þjóða má ekki stefna pólitískri og þjóðernislegri vitund manna í hættu. Þetta þýðir að friðaruppeldi í einu landi má ekki hafa það að markmiði að breyta þjóðfélagsskipan annars lands.“

Stefanie Duckzek hefur skilgreint markmið friðarfræðslu á eftirfarandi hátt:

„Friðarfræðsla leitast við að dýpka vitund, vitneskju og skilning á deilum milli einstaklinga, innan þjóðfélags og milli þjóða. Hún rannsakar deilur og orsakir þess að deilur leiða til átaka eða ofbeldis, en þessar orsakir eru samofnar skynjunum, verðmætamati og viðhorfum einstaklinga. Enn fremur má finna orsakirnar í félagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins. Friðárfræðsla hvetur til þess að leita annarra leiða sem fela í sér lausnir á deilum án ofbeldis og hvetur jafnframt til þroskunar þeirra hæfileika sem nauðsynlegir eru til að beita slíkum lausnum.“

Markmið friðarfræðslu eru því skv. framangreindum skilgreiningum að skilja þýðingu og hlutverk friðar og rækta hæfileikann til að leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða; að glæða ábyrgðartilfinningu fyrir eigin ákvörðunum og gerðum, að þroska skilning á því hve einstaklingar, hópar og þjóðir eru háð hvert öðru; að skilja eðli og orsakir deilna og athuga, skilja, meta og nýta aðferðir til að leysa deilur; að þekkja ýmsa líffræðilega og félagslega þætti sem hafa áhrif á mannlega hegðun; að rækta skilning á réttlæti og velferð meðal einstaklinga og þjóðfélaga; að glæða virðingu og ábyrgðartilfinningu einstaklinga fyrir frelsi einstaklingsins og mannréttindum, menningarlegum fjölbreytileika, umhverfinu, samvinnu, bæði innan bekkjarins og utan, hugsun sem skírskotar til viðmiðunar við heiminn, þjóðareiningu, bæjarsamfélag eða smærri hópa; að þróa sjálfsvitund, skilning á öðrum og þá hæfileika sem nauðsynlegir eru til að gera einstaklingunum kleift að taka virkan þátt í að mynda réttlát og friðsamleg tengsl við aðra; að þróa kennsluaðferðir sem byggjast á samvinnu og hlutdeild í samræmi við það sem áður greinir.

Markmið friðarfræðslu falla mjög vel að þeim markmiðum sem lýst er í aðalnámsskrá grunnskóla. Í aðalnámsskrá grunnskóla í samfélagsfræðum stendur, með leyfi forseta:

„Í samfélagsfræði er m. a. stefnt að því að nemendur

— séu færir um að setja sig í annarra spor og geti þannig gert sér grein fyrir eigin viðhorfum og annarra þótt þau séu ólík,

— geri sér grein fyrir eigin gildismati og annarra,

— viðurkenni ólík sjónarmið og rétt hvers manns til að hafa sjálfstæða skoðun,

— hafi áhuga á að kynnast vandamálum í samskiptum manna og leita lausna á þeim,

— viðurkenni gildi samstarfs og nauðsyn samhjálpar í samskiptum manna,

— öðlist nægilegt sjálfstraust til að geta snurðulaust tekið þátt í gagnkvæmum skoðanakynnum og umborið gagnrýni,

— öðlist það viðhorf að þeir þurfi stöðugt að afla sér nýrrar þekkingar og skoða hana gagnrýnum augum.

Um framkvæmd friðarfræðslu gilda sömu lögmál og um annað nám. Það verður að sníða eftir getu og aldri og vera í samræmi við skilning og þroskastig barnsins eða unglingsins. Meginkennsluaðferð í friðarfræðslu, sem hefur tíðkast hjá yngri börnum, er að beina huga barnsins að því að skilja eigin viðbrögð og samskipti við aðra. Barninu er kennt að kljást við eigin vandamál, eðlileg ágreiningsmál og deilur sem koma upp í nánasta umhverfi. Þegar barnið skilur orsakir og mögulegt ferli sinna eigin deilna við aðra getur það smám saman eftir því sem það eldist yfirfært þennan skilning á nærtækum dæmum yfir á fjarlægari ágreiningsmál, bæði innan eigin þjóðfélags og milli þjóða. Jafnframt er lögð áhersla á að rækta hæfileika barna til að leysa ágreining og deilur sín á milli á friðsamlegan hátt án ofbeldis.

Eftir því sem börnin eldast er auðveldara fyrir þau að takast á við þau vandamál sem óhjákvæmilega mæta þeim er út í lífið kemur. Eins og stendur í grunnskólalögunum er það hlutverk skóla m. a. að búa börn undir þátttöku í því margbreytilega og flókna þjóðfélagi sem bíður þeirra. Því varðar miklu að þeim séu ljósar meginstaðreyndir í meiri háttar málefnum. Enn fremur að þau heyri röksemdir um allar hliðar mála og geti síðan myndað sér skoðanir. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja það að nemendur fái yfirvegaða mynd af hverju máli þar sem fyllsta jafnvægis er gætt við kynningu málsins. Um viðkvæm málefni, hvort sem þau eru stjórnmálalegs, félagslegs eða persónulegs eðlis þarf að sjálfsögðu að fjalla af nærgætni.

Vitanlega eru skiptar skoðanir um mörg málefni er varða daglegt líf okkar og framtíð. Oft eru þetta sterkar skoðanir og andstæðar. En röksemdir þeirra þurfa unglingar engu að síður að þekkja ef menntun þeirra á að stuðla að því að þeir geti beitt lýðræðislegum réttindum sínum til að skapa samfélag og veröld án ófriðar.

Um friðarfræðslu í framhaldsskólum má segja að hana má tengja ýmsum námsgreinum. Eitt af tilgreindum markmiðum friðarfræðslu, sem áður kom fram, er að skilja þýðingu og hlutverk friðar og rækta hæfileika til að leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða. Í sambandi við þetta markmið ætla ég að taka dæmi úr námsefni sem sniðið var fyrir skóla í Nottingham-héraði í Englandi, með leyfi forseta. Þar er spurt:

„1. Fá nemendur tækifæri til að kanna merkingu og hin ýmsu skilyrði þess að friðarástand geti ríkt á mismunandi sviðum samfélagsins?

2. Er skólinn stofnun sem ræktar friðsamlegt samstarf og anda persónulegrar ábyrgðar?

3. Eru nemendur hvattir til að sviðsetja og leika atriði sem skipta máli fyrir friðsamlega sambúð, t. d. ýmsar mögulegar úrlausnir deilna?

Hugsanlegt námsefni til að nálgast þetta markmið gæti verið:

a. Tungumálakennsla, annaðhvort eigið mál eða erlent. Skilgreining hugtaka á því máli, t. d. grundvallarhugtaka eins og friður, ofbeldi, sjálfsagi, frelsi, lýðræði, jafnrétti, þróun, mannréttindi o. s. frv.

b. Athugun á stofnunum sem hafa það verkefni að leita friðar og leysa deilur innan fjölskyldna, í persónulegu lífi einstaklingsins, á vinnumarkaðnum, á þjóðar- og alþjóðamælikvarða.

c. Rannsaka hina ýmsu þætti deilna og leika hlutverk málsaðila, prófa ýmsar lausnir á þessum dellum.

d. Skoða mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna.

e. Gera sögulega athugun á þeirri staðreynd að ekki hefur tekist að varðveita frið í heiminum.

f. Athugun á hlutverki hinna ýmsu trúarbragða heimsins við að leita friðar.

Annað markmið friðarfræðslu er tilgreint: að glæða ábyrgðartilfinningu fyrir eigin ákvörðunum og gerðum. Í þessu sambandi mætti spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða tækifæri er nemendum boðið upp á til að bera persónulega ábyrgð?

2. Hvaða stefnu tekur skólinn gagnvart árásarhvöt, kúgun og öðrum tegundum ofbeldis eða andfélagslegrar hegðunar?

3. Að hve miklu leyti geta nemendur valið um námsferil sinn?

Viðeigandi námsefni til að ná þessu markmiði gæti verið:

a. Athugun á fjölskyldulífi til að koma auga á ábyrgðarhlutverk og hvernig á að skilgreina þau.

b. Athuga hvaða tækifæri gefast til að stunda lýðræði eða framkvæma lýðræði innan skólans, t. d. stofnun nemendaráðs sem tæki virkan þátt í málefnum skólans.

c. Athugun á friðarsinnum og afdrifum einstakra friðarsinna, þar með talin dæmi úr mannkynssögunni.

d. Athugun á hugmyndum um lagalegan rétt og ábyrgð og siðferðislegan rétt og ábyrgð.

e. Athuga hlutverk og ábyrgð vísindamannsins við þróun nýrra vopnakerfa.“

Ég ætla ekki að fara út í fleiri dæmi þó ég gæti tekið þau. Þetta finnst mér varpa nægilega skýru ljósi á það hvernig mögulegt væri að standa að slíkri fræðslu. Þessi dæmi, sem ég tók af ensku námsefni, gefa hugmynd um það hvernig mætti framkvæma friðarfræðslu í framhaldsskólum. Auðvitað mundu kennarar og aðrir þeir sem að námsefnisgerð standa hérlendis sjá um að útbúa það námsefni sem best þætti henta íslenskum aðstæðum í samræmi við viðurkennd markmið fræðslunnar. Erlendis hefur þessi fræðsla oft verið í nánum tengslum við kirkjur, enda á siðfræði og friðarboðskapur kristinnar trúar samleið með markmiðum og viðleitni friðarfræðslunnar. Foreldrar hafa einnig tengst þessari fræðslu á virkan hátt og er þarna kjörinn vettvangur til þess að auka tengsl fjölskyldu og skóla.

Orðið friðarfræðsla er gildishlaðið og e. t. v. óheppilegt orð þar sem það býður upp á vissa möguleika til misskilnings. Sumir hafa látið í ljósi ótta um að friðarfræðsla verði vettvangur einhliða áróðurs. Nokkrir hafa látið sér detta í hug að nú ætti að fara að kenna stóra sannleik um alþjóðastjórnmál á dagvistarheimilum eða þá að spilla ætti saklausri bernsku með því að fylla börn af ótta. Enn aðrir hafa haldið því fram að skólarnir geti alls ekki kennt um slík mál, til þess séu þau allt of pólitísk.

Ég tel það alveg ljóst af því sem ég hef þegar sagt að ekki er það ætlunin að kenna um alþjóðastjórnmál á dagvistarheimilum né heldur að vekja ótta með litlum börnum gagnvart einhverju sem þau skilja ekki og ráða ekki við. En því má ekki gleyma að hversu vel sem við vildum geta verndað börnin okkar þá kemur óttinn til þeirra úr umhverfinu fyrr en síðar. Sjónvarp, myndbönd og kvikmyndir flytja ofbeldi í auknum mæli að augum og gljúpum hugum barna og unglinga. Það er bæði í fréttum af átökum og styrjöldum sem lýst er á sífellt óvægnari hátt og einnig í leiknum myndum þar sem einstaklingar beita hvor annan grófu ofbeldi í návígi. Og ég vil minna á þegar gerðar voru upptækar fjölmargar ofbeldiskvikmyndir úr myndbandaleigum hér á s. l. vetri.

Vitneskjan um tortímingargetu kjarnorkuvopna skilar sér líka fyrr en síðar og henni fylgir ótti, vonleysi, vanmáttur og reiði gagnvart foreldrum og hinum fullorðnu sem búa barninu svo brothættan og ótryggan heim. Og ég ætta að vitna í mín eigin orð úr umræðu um frystingu kjarnorkuvopna í okt. s. 1. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þessi ótti, sem ég minntist áðan á, vonleysi og kvíði sem grefur um sig í huga og sál þeirra barna sem nú eru að alast upp, hann liggur á bak við áhyggjulítið dagfar en mótar viðhorf og val barna og unglinga til framtíðarverkefna.“

Og ég vil vitna í grein í breska blaðinu Sunday Times frá 21. okt. s. l., með leyfi forseta. Þar er greint frá könnun sem gerð var meðal 11—15 ára barna í framhaldsskólum í Bristol á Englandi. Þar segir að fjöldi barna sé haldinn kvíða og finnist þau vera hjálparvana andspænis möguleikanum á kjarnorkustyrjöld. 91% barnanna halda að þau muni ekki lifa af slíkan hildarleik og 30% halda að slík styrjöld geti orðið á þeirra æviskeiði. Flest börnin segjast hafa fengið vitneskju um kjarnorkuvopn með því að horfa á sjónvarp og 78% þeirra finnst að það ætti að ræða þessi málefni í skólunum. Að dómi 80% barnanna gera stjórnvöld ekki nægilega mikið til þess að minnka hættuna á kjarnorkustríði. Tólf ára gamalt barn skrifaði t. d.:

„Ég hugsa um kjarnorkustyrjöld á hverjum degi. T. d. þegar hlýtt. er úti og himinninn heiður og blár þá hugsa ég hve hræðilegt það væri ef kjarnorkustyrjöld brytist út núna.“

Og barnið skrifar áfram:

„Hvað viðkemur því að eignast börn þá mundi mig að vissu leyti langa til að sjá nýtt líf vaxa upp. En ef barnið yrði sprengt í loft upp, til hvers væri þá að hafa eignast það?“

Í öðrum löndum þar sem slíkar kannanir hafa verið gerðar meðal barna og þær eru reyndar orðnar allmargar, bæði vestanhafs og eins í Evrópu — þá hafa svipaðar skoðanir og tilfinningar komið í ljós. Og ég spyr: Friður hvers er sá friður sem við teljum okkur hafa núna? Við sem erum fullorðin, við getum ekki firrt okkur ábyrgð, við erum hluti þess samtíma sem er sekur. Og e. t. v. er stærsti óvinurinn í þessum efnum okkar eigið andvaraleysi og afskiptaleysi.

Besta vörnin gegn óttanum er þekkingin og það er einmitt henni sem þarf að miðla í samræmi við þroska og getu barnanna til að skilja. Hvað varðar hættu á einhliða áróðri vil ég benda á að áðurnefnd markmið friðarfræðslu ættu einmitt að koma í veg fyrir að einstaklingar verði einhliða áróðri að bráð. Friðarfræðsla miðar að því að auka víðsýni, umburðarlyndi, skilning og þekkingu. Það er miklu fremur þegar skilningur og þekking á málefni er fyrir hendi að hægt er að draga sjálfstæðar ályktanir og mynda sér skoðanir óháð áróðri.

Sú fullyrðing að skólar geti ekki kennt þetta efni vegna þess að það sé of pólitískt finnst mér lýsa ósanngjörnu mati á kennurum. Að þessari kennslu hlýtur að verða staðið eins og annarri sem við treystum kennurum fyrir að miðla til barna okkar og unglinga. Hvað með þá kennslu í mannkynssögu, hagfræði, stjórnmálasögu, heimspeki og trúarbrögðum sem þegar er stunduð í framhaldsskólum landsins? Þar hlýtur að vera óhjákvæmilegt að fjalla um ágreiningsmál, mál sem eru í eðli sínu pólitísk. Munur er þó talsverður á því hvort slíkt er gert af flokkspólitískri þröngsýni eða hvort gætt er víðsýnis og hlutleysis til að tryggja það að nemendur fái yfirvegaða mynd af hverju máli.

Hitt er annað að það er stórpólitískt mál fyrir nútímamanninn að takast á við sjálfan sig í því einvígi við eðli sitt sem tæknihyggja hans hefur þvingað hann til. Hið sama verða börn framtíðarinnar að gera og það hlýtur að vera öllum foreldrum og uppalendum sameiginlegt að vilja búa börnum sínum sem best veganesti til lífsgöngunnar. Þess vegna getum við ekki stungið höfðinu í sandinn í þeirri von að sá ógnarvandi, sem hlýst af óbreyttri stefnu okkar, fari sjálfkrafa hjá. Skólinn hlýtur ásamt foreldrum og öðrum uppalendum að þurfa að mæta því hlutverki að búa einstaklingana undir lífið, undir það að takast á við þau vandamál sem blasa við og bíða þeirra.

Af þessu má sjá að friðarfræðsla er nánast tvíþætt í framkvæmd sinni. Jafnframt því sem hún stundar mannrækt stuðlar hún að umhverfisvernd. Hjá ungum börnum miðar hún fyrst og fremst að því að vernda, efla og rækta frið í hinu innra umhverfi barnsins. Hjá þeim sem eldri eru leitast hún við að styrkja einstaklinginn til þess að varðveita frið í ytra umhverfi sínu. Friðarhugsunin og friðurinn gerist ekki án fyrirhafnar, sagði einn hv. þm. í umræðum um þetta mál á Alþingi á s. l. ári.

Þó að oft hafi verið þörf er nú meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að efla frið milli manna og þjóða. Þess vegna verðum við að halda áfram á hinni fyrirhafnarsömu leið okkar til friðsamlegra samskipta með öllum tiltækum ráðum og friðarfræðsla er að mínu mati eitt af vænlegum ráðum til að ná þessu marki.

Að loknum þessum umr. vil ég leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn. Sþ.