21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5537 í B-deild Alþingistíðinda. (4775)

484. mál, friðarfræðsla

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Það hefur nú heldur hlaupið á snærið hjá hv. 3. þm. Suðurl., krossfara sjálfstæðismanna, sem telur sig eiga heilögu hlutverki að gegna að berja á Kvennalistakonum ef þær bregða sér í ræðustól. (ÁJ: Ég hef aldrei barið á Kvennalistakonum.) Það sem mér finnst eftirtektarverðast í málflutningi hans eða réttara sagt það sem kemur mér mest á óvart er að hann skuli vera kennaramenntaður maður. Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi í raun lesið grunnskólalögin. Og ég velti því fyrir mér hvernig kennslan var í Kennaraskólanum, um hvað var rætt, eða hvort hv. þm. hefur í raun hlustað á mig þegar ég var að tala. Því hafi hann hlustað á mig og ef hann hefur gengið í gegnum Kennaraskólann og fengið svona venjulega kennaramenntun þá hlýtur þetta bara að vera tilraun til útúrsnúninga, ég get ekki séð annað.

Hann talaði um að höfðinu sé barið við steininn vegna þess að till. er endurflutt og hún hafi fengið talsverða umræðu á síðasta þingi. Nú hef ég orðið vör við það síðan ég kom á þennan vinnustað að hér eru flutt mál sem eiga sér langa sögu, margflutt í ýmsu formi, og gildir það jafnt um stjórnarliða og stjórnarandstöðuþm., enda sveiflast velgengni manna — ef velgengni má telja að vera í stjórn — þá sveiflast staða manna á þinginu til og frá eftir árum. En sömu málin eru flutt ár eftir ár eftir ár og þá er ekki mæld sú umr. sem málin fengu, hvort það sé réttlætanlegt að flytja þau á nýjan leik.

Það að þetta mál hlaut umræðu á síðasta þingi segir mér það eitt að málið var ágreiningsmál og um það voru skiptar skoðanir og margir vildu tjá sig um það. Ég tel málið eiga fullt erindi inn á þetta þing, ekki síður en áður.

Hv. þm. Árni Johnsen talaði um að hér sé verið að tala um að prófa fólk, að reyna fólk, að gera tilraunir á fólki. Ég skil ekki hvað hann á við. Ef hann er að tala um dæmi af námsefni sem ég tók þá var talað um að fólk reyndi að prófa lausnir á vandamálum, að það leitaði fyrir sér, það tæki upp þekkt eða jafnvel tilbúin deiluefni og það æfði sig í því að leysa vandamál. Ég held að hv. þm. hljóti að hafa misskilið þetta.

Hann talaði einnig um að ég hefði tekið dæmi sem ég teldi að ætti vel heima hér á Íslandi. Það var dæmið um að kanna afdrif friðarsinna. Ég sagði aldrei að þessi dæmi ættu endilega vel heima — ég tók það skýrt fram að það kennsluefni, sem hér yrði e. t. v. notað, yrði að sjálfsögðu bæði útbúið og valið með tilliti til þeirra markmiða sem yrðu skilgreind — (ÁJ: Gæti vel átt við hér, það var orðalagið.) Að ég hefði talið að það ætti vel við hér — það sagði ég ekki. Ég sagði einungis að ég tæki dæmi.

Ég vil enn fremur benda hv. þm. á að það kom skýrt fram í máli mínu að víða erlendis hefði friðarfræðsla verið í tengslum við kirkjur enda á siðfræði og friðarboðskapur kristinnar trúar vissulega samleið með markmiðum og viðleitni friðarfræðslunnar.

Þm. talaði einnig um að við ættum að sjálfsögðu að leggja megináherslu á það að eiga frið við okkar eigið fólk í okkar eigin landi en að vera ekki með — ég man ekki hvort hann sagði: heiminn í kokinu, hálfan eða allan heiminn í kokinu. (ÁJ: Allan.) Ef þm. hefði hlustað á mig þá hefði hann e. t. v. heyrt að ég talaði einmitt um að friðarfræðsla stuðlaði fyrst og fremst að mannrækt og umhverfisvernd, þ. e. að rækta frið hið innra og einnig í nánasta umhverfi.

Það er orðið áliðið kvölds og fáir í salnum. Ég held satt að segja að ég ætli ekki að eyða fleiri orðum að athugasemdum hv. þm. Árna Johnsen, mér finnst að hann sé fyrst og fremst að reyna að snúa út úr þessu efni en honum gangi ekki til einlægur, málefnalegur áhugi.