01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vil ég láta það koma skýrt fram að það hefur ekkert verið óeðlilegt að taka þetta mál á dagskrá þegar það var gert. Hins vegar hefur forseti eða einstakir þm. ekki vald til þess að fyrirskipa mönnum að hlýða á umr.

Það er ekkert óeðlilegt að umr. standi til kl. 7 eða jafnvel til 8, ef ekki er kvöldfundur. Og það er sérstök ástæða til þess að nýta þennan tíma sem við höfum í dag til umr. um þáltill. vegna þess að það líða tvær vikur án þess að við getum tekið þessi mál á dagskrá í Alþingi. Það er vegna þess að á næsta þriðjudegi verður 1. umr. fjárlaga og ekki annað. Það er vegna þess að næsta fimmtudag fer fram útvarpsumr. um vantraust á ríkisstj. Það verður ekkert annað til umr. í Sþ. Það er vegna þess að það er gert ráð fyrir að í næstu viku þar á eftir verði ekkert annað en fsp. á þriðjudag og á fimmtudaginn í þeirri viku verði stefnuræða forsrh. sem verður útvarpað.

Ég hygg að þegar þetta er haft í huga sjái menn að það er ekkert athugavert við það þó að við höfum haldið þessari umr. áfram á þessum fundi. Þetta er aðeins sagt að gefnu tilefni, en ekki í ásökunarskyni við einn eða neinn. Það er forseta jafnmikið áhyggjuefni og öðrum ef fáir eru á fundum. En við það verður ekki ráðið og það er ekkert óeðlilegt við þennan fund sem hér er nú.