22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5568 í B-deild Alþingistíðinda. (4799)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til upphafsumræðu og við höfðum lítinn tíma haft til að skoða það fór ég fram á það að umræðu yrði frestað til þess að það gæfist tími til að lesa frv. og átta sig á því hvaða helstu breytingar það væru sem hér væri verið að gera á fyrirkomulagi sjóða atvinnuveganna. Og til þess að hafa sem fæst orð um það þá held ég að við frekari lestur hafi komið í ljós að ekki er um stórvægilegar breytingar að ræða. Einhvern veginn finnst manni frekast að hér hafi menn verið kallaðir til starfa kannske fyrst og fremst til að eyða tímanum, en hér sé ekki að finna áþreifanlegar breytingar í uppbyggingu þessara sjóða.

Eins og ég nefndi hér í upphafi getur hér þó að líta nokkuð merkilega hluti í sambandi við stjórnun sjóðanna. Hv. ræðumaður sem talaði hér á undan mér sagði að til sjóðsstjórnarinnar væru nú kallaðir þeir sem greiddu til sjóðanna, eingöngu þeir sem borga í sjóðina. En þegar betur er gáð er það nú ekki nema hluti þeirra sem borga í sjóðina. Að vísu er það nú hártoganlegt hverjir það eru sem það gera. Ég vil ítreka það og á þá við Sjávarútvegssjóð, að ég tel óeðlilegt að sjóðsstjórnin sé byggð upp á þann máta sem hér er lagt til, að þar séu fulltrúar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og fisksölufyrirtækjunum og svo einn fulltrúi frá sjómönnum. Í fyrsta lagi tel ég að fulltrúi Landssambandsins sé alls ekki fulltrúi allra útvegsmanna. Ákveðinn hópur útvegsmanna hefur alls ekki verið vel séður innan þeirra samtaka. Þar á ég við smábátaeigendur. Þeir borga alveg eins í þennan sjóð og aðrir útvegsmenn og á sama máta. Fyrst verið er að hafa hagsmunaaðila sem stjórnendur sjóðsins liggur það beint við að fulltrúar frá fiskvinnslufólki eigi þar fulltrúa. Á sama máta vil ég ítreka það sem ég sagði hér fyrr að ég tel að fulltrúar fiskvinnslufólks og fulltrúar smábátaeigenda auk fulltrúa frjálsra útflytjenda, ef mætti orða það svo, eigi fulltrúa á þeim fundi sem til á að stofna, þ. e. ársfundi Sjávarútvegssjóðsins.

Mér finnst það svolítið merkilegt að frjálshyggjuflokkarnir skuli leggja fram frv. hér á Alþingi nú um uppbyggingu sjóða atvinnuveganna og tilnefna þar fyrst og fremst inn fulltrúa í stjórn frá þeim fyrirtækjum sem útmáluð hafa verið sem einokunarfyrirtæki. En þeir aðilar sem annast verslun eða sölu á afurðum sjávarútvegsins á frjálsum vettvangi eru ekki tilnefndir til stjórnunar þessara sjóða. Ef hinir eru taldir greiðendur í sjóðina eru þessir aðilar að mínu mati jafnt greiðendur sem hinir.

Svo er sá þátturinn að nú eru fulltrúar bankanna ekki lengur aðilar að stjórnun Sjávarútvegssjóðsins eða eins og nú er Fiskveiðasjóðs. Þáttur viðskiptabankanna í ákvarðanatöku Fiskveiðasjóðs um lánaafgreiðslur var m. a. sá að hagdeildir bankanna fóru yfir lánaumsóknir og voru umsagnaraðilar um hæfni lánaumsækjenda. Mér sýnist að við þessa endurskipulagningu, sem hér er lögð til, hljóti þessi sjóður — og hér á ég enn við Sjávarútvegssjóðinn — að verða að koma sér upp einni hagdeildinni enn til þess að yfirfara og meta stöðu þeirra umsókna sem að sjóðnum berast. Hélt maður þó að komið væri nóg af hagdeildum.

Það er ætlast til þess með þessu frv. að Fiskimálasjóður verði lagður undir Sjávarútvegssjóðinn. Mér finnst verkefni Fiskimálasjóðs vera það frábrugðin verkefnum fjárfestingarsjóðs eins og Fiskveiðasjóður hefur verið og reyndar Styrktar- og lánasjóður útvegsmanna líka — að þetta falli ekki saman og það sé ekki eðlilegt að sjóður, sem er fyrst og fremst þróunarsjóður og styrktarsjóður til nýrra verkefna, sé settur undir sömu stjórn og fjárfestingarsjóður. Þar er líka verið að færa ákveðið vald frá Alþingi. Alþingi hefur kosið stjórn Fiskveiðasjóðs og nú er verið að taka þennan þátt frá því og færa hann yfir til sjóðsstjórnar þessa fjárfestingarsjóðs sem hér er lagt til að stofnaður verði.

Ég hefði talið eðlilegt, jafnvel þó að hinar breytingarnar eigi sér stað, að Fiskveiðasjóður og Styrktar- og lánasjóður verði sameinaðir, að Fiskimálasjóður haldi áfram að starfa eins og hann gerir nú.

Ég endurtek svo að mér finnst að hér sé ekki verið að breyta miklu, þetta lagafrv. sem hér er lagt fram sé miklu meira sá pappír og prentsverta sem hér er lögð fram en að hér sé verið að breyta einhverjum stórum hlutum. Það starf, sem hér hefur verið lagt í af mönnum til að undirbúa þetta plagg, breytir a. m. k. ekki miklu í sambandi við uppbyggingu Sjávarútvegssjóðs. Ég vil í því sambandi taka fram að ef maður lítur á það að hætt var að greiða til Fiskveiðasjóðs skv. 3. lið sem hér er nefndur í sambandi við tekjur Fiskveiðasjóðs, þ. e. ríkissjóðsframlag á móti tekjum skv. útflutningsgjöldum þá á sér raunverulega ekki stað breyting þar sem þegar á síðustu fjárlögum var ekki veitt neitt skv. þeim tekjustofni Fiskveiðasjóðs og því raunverulega búið að fella það úr gildi.