15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 50, 50. máli deildarinnar, um ríkisábyrgð á launum. Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi á síðasta Alþingi, en hlaut ekki afgreiðslu og er þess vegna lagt hér fyrir á ný.

Ég vil geta þess að þá var frv. lagt fyrir hv. Nd. og vísað til nefndar, en mér er ekki kunnugt um að nefndin hafi gert tilraun til að senda frv. út til umsagnar, þannig að það er endurflutt hér og þarf þess vegna algjörlega nýja meðferð.

Þetta frv. um ríkisábyrgð á launum, sem hér er til umr., er samið af nefnd sem skipuð var í des. 1981 af þáv. félmrh. til að endurskoða gildandi lög um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot nr. 31 frá 28. mars 1944. Í þessari nefnd áttu sæti Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, deildarstjóri í félmrn., sem var formaður nefndarinnar, Egill Sigurgeirsson hæstaréttarlögmaður, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Einar Arnason lögfræðingur tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Gunnlaugur Claessen deildarstjóri í fjmrn. og Markús Sigurbjörnsson fulltrúi yfirborgarfógeta í Reykjavík.

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að láta endurskoða lögin var fyrst og fremst sú, að verulegir annmarkar höfðu komið fram á tilmælum gildandi laga um formlega meðferð greiðslukrafna á hendur ríkissjóði, auk þess sem í lögunum eru mörg ákvæði sem orðið höfðu tilefni til ágreinings um skýringu.

Ég er sammála þáv. félmrh. um annmarka laganna að þessu leyti og tel að það frv. sem hér liggur fyrir um þetta efni samræmist betur meginreglum réttarfars og réttarreglum um gjaldþrot en núgildandi lög gera og geri auk þess rétt þeirra launþega, sem eiga inni laun hjá gjaldþrota fyrirtækjum, gleggri, þannig að síður komi til ágreinings vegna þeirra krafna sem ábyrgð ríkissjóðs nái til.

Helstu breytingar sem frv. ráðgerir frá gildandi lögum nr. 31 1974, um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot, eru:

Í fyrsta lagi: Í III. kafla frv. eru reglur um meðferð greiðslukröfu á hendur ríkissjóði, en fyrirmæli þar um eru ekki ítarleg í gildandi lögum. Reglur þessar miða að því að hraða málsmeðferð og gera hana einfaldari í framkvæmd, auk þess sem þær samræma m.a. skiptameðferð bús betur en núgildandi lög gera.

Í þessu sambandi er rétt að benda á ákvæði 7. gr. frv., en þar er að finna upptalningu á þeim upplýsingum og gögnum sem launþegi þarf að láta fylgja kröfum sínum til ráðuneytisins.

Þá er í 8. gr. tilgreint hverra upplýsinga ráðuneytið þurfi að afla frá skiptaráðanda um kröfur.

Í 9. gr. er sérregla um gagnaöflun launþega og ráðuneytis í þeim tilvikum sem innköllun er ekki gefin út fyrir skiptameðferð á búi vinnuveitanda.

Í 11. gr. eru fyrirmæli um ákvarðanatöku í ráðuneyti um það hvort kröfur skuli greiða úr ríkissjóði og jafnframt fyrirmæli um hvernig leysa skuli úr ágreiningi um hvort krafa njóti ríkisábyrgðar.

Loks eru í 13. gr. fyrirmæli um tilkynningar og fleira varðandi yfirtöku ríkissjóðs á kröfum.

Í öðru lagi nær ríkisábyrgð samkvæmt 1. gr. frv. til kröfu launþega á hendur skuldafrágöngubúi látins vinnuveitanda, auk þess að ná til kröfu á hendur gjaldþrota vinnuveitanda eins og núgildandi lög mæla fyrir um.

Samkvæmt d-lið 4. gr. frv. er fjölgað þeim aðilum sem krafist geta ríkisábyrgðar vegna dauðsfalls launþega af völdum vinnuslyss.

Í b-lið 5. gr. frv. eru fyrirmæli um 5% hámarkshlutafjáreign launþega í gjaldþrota hlutafélagi til þess að hann njóti ríkisábyrgðar á kröfu sinni. Núgildandi reglugerðarákvæði þar um eru 2%.

8. gr. 2. málsgr. er heimild til þess að taka greiðslukröfu á hendur ríkissjóði til afgreiðslu fyrr en núgildandi lög mæla beinlínis fyrir um.

Í 2. málsgr. 11. gr. frv. er heimild til veitingar gjafsóknarleyfis til handa launþega í ágreiningsmálum um hvort ríkisábyrgð fylgi kröfu.

Í þriðja lagi gerir frv. í b-lið 4. gr. ráð fyrir að ríkisábyrgð nái ekki til orlofsfjárkrafna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir nema í þeim tilvikum sem launþegi fer sjálfur með fyrirsvar fyrir kröfu sinni.

Í a-lið 4. gr. er sett hámark á það tímabil sem launþegi getur fengið greiðslu fyrir með launakröfu í ríkissjóð. Það ákvæði kemur í staðinn fyrir 5. málsgr. 2. gr. núgildandi laga sem reynst hefur mjög óljós og torvelt að fylgja í framkvæmd.

Þá vil ég taka fram að í 3. gr. frv. eru skilgreind grundvallarhugtök varðandi framkvæmd laganna sem nær með öllu vantar í núgildandi lög. Á ég þar við hugtökin „vinnulaun“ og „launþegi“.

Að lokum vil ég geta þess að af hálfu Alþýðusambands Íslands hefur verið óskað eftir að launatengd gjöld yrðu látin falla innan ríkisábyrgðar, einkum iðgjöld til lífeyrissjóða, sjúkra- og orlofssjóða. En með því að núgildandi lög hafa verið túlkuð á þá leið að þau gjöld njóti ekki ríkisábyrgðar og eina dómsúrlausnin sem gengið hefur um það atriði byggir á þeirri túlkun hefur ekki þótt fært að verða við þeirri beiðni. Í því sambandi hefur verið höfð hliðsjón af því réttarfarshagræði sem lífeyrissjóðir njóta lögum samkv. við innheimtu iðgjalda og því að megintilgangur laganna sé sá að tryggja launþega gegn fjárhagslegum skakkaföllum en ekki aðra aðila.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi máls að hafa um frv. öllu fleiri orð. Ég vísa til umr. sem urðu í hv. Nd. þegar frv. var tekið til meðferðar á síðasta þingi, en það var 28. mars s.l. Ég vænti þess að það náist góð samvinna um það á þessu þingi og hér í hv. Ed. að hraða afgreiðslu þessa máls. Þetta ætti að geta verið samkomulagsmál. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir launþega, en einnig fyrir löggjafann því að það eru sífellt uppi deilur um túlkun á gildandi lögum. Allir sem nálægt því koma, skiptaráðendur og aðrir, hafa kvartað mjög yfir því og lagt mikla áherslu á að á því verði ráðin bót með útgáfu þessa frv.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.