22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5570 í B-deild Alþingistíðinda. (4800)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um uppstokkun á sjóðakerfinu. Hér er lagt til að settir verði upp þrír aðalatvinnuvegasjóðir. Ég ætla ekki að fjalla um þetta nema lítillega vegna þess að þetta mun koma til þeirrar n. sem ég á sæti í og þar gefst tækifæri til þess að ræða þetta nánar. Búnaðarsjóðnum og því sem honum tilheyrir er ég ekki nógu kunnugur til að fjalla um. Mér sýnist að hægast sé að breyta þessu í sambandi við Iðnaðarsjóðinn þar sem hann er yngstur og hægast að koma öllum breytingum fyrir.

Ég tel ýmis tormerki á Fiskveiðasjóðnum sem ræðumenn hafa hér fjallað nokkuð um núna. Það mál þarf að skoðast vel í þeirri n. sem fjallar um þetta vegna þeirra verulegu breytinga sem þarna eru þó að þær láti ekki mikið yfir sér. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað að það er ástæðulaust að vera að breyta um nafn á þessum sjóði. Þetta er okkar elsti atvinnuvegasjóður, ef ég man rétt, sem hefur starfað í gegnum áratugina. Ég tel að hann geti haldið sínu nafni og gegnt sínu hlutverki áfram — sem á nú að vera áfram meginmarkmiðið þó að hann geti lánað til annarrar starfsemi en áður er greint. Ég legg áherslu á að þessu nafni verði haldið á þessum sjóði þar sem hlutverk Fiskveiðasjóðs í dag er að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum og fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Þetta mun einnig verða aðalverkefni hins nýja Sjávarútvegssjóðs. Auk þess á hann að sinna lánum vegna viðhalds og viðgerða á fiskiskipum og nýsmíðum sem nú er bannorð. Ég held því að þessar atvinnugreinar gætu farið halloka í sínum lánamálum, þ. e. þá getur einhvers staðar staðið út af þegar til kemur að á að fara að afgreiða slík mál sem öll sömul eru skyld útgerð og fiskvinnslu.

Ég vil benda á hér að gert er ráð fyrir því í frv., ef að lögum verður, að þau taki gildi 1. september n. k. Nú lít ég svo á að í Fiskveiðasjóði sé fjölmennt starfslið og ég geri ráð fyrir að sama gildi um starfslið Búnaðarsjóðsins, sem er starfsfólk Útvegsbankans. Það fólk sem er í starfsmannafélagi með starfsfólki Útvegsbankans er í sama lífeyrissjóði sem er — það er ekkert launungarmál — illa staddur. Bankinn verður að styðja mjög verulega við þennan lífeyrissjóð svo að hann geti staðið við greiðslur á þeim rétti sem fólkið á að fá. Þarna verður því um verulega röskun að ræða ef á að taka þetta starfslið undan þeirri stjórnun sem þar hefur verið áður eða a. m. k. þessum sameiginlegu sjóðum sem þarna er um að ræða. Lágmarksuppsagnarfrestur hjá fólki hlýtur að vera þrír mánuðir. Þetta yrði þá að ske núna 1. júní ef það ætti að losa um þessi bönd öll, ef lögin tækju þá gildi.

Þetta er mál sem þyrfti að athuga alvarlega áður en gengið er til enda í þessum málum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé með svipuðu sniði í hinum sjóðunum. En ég tel þetta vera mikið vandamál sem þarna blasir við núna og að höfundar frv. hafi sennilega ekki farið eins djúpt ofan í það og þurft hefði þegar þetta er sett hér fram. Á sama hátt tek ég undir það með hv. 4. þm. Vesturl. að ég tel það mjög hæpið að vera að taka 5% af tekjum Sjávarútvegssjóðsins nýja til að láta í sérstaka deild sem flyst yfir frá fyrrverandi Fiskimálasjóði. Auðvitað er þörf á þeim verkefnum sem þar er um að ræða en þarna er búið að eyrnamerkja sérstakan stofn til þessarar starfsemi sem hefur notið nokkurra sérréttinda áður.

Ég lofaði að hafa hér aðeins fá orð um en vil benda á þetta. Ég ætla ekki að leggja neinn stein í götu þessara frv. heldur vil ég benda á að þó að tíminn sé naumur þarf að fara þarna með gát. Við eigum ekki að vera að breyta breytinganna vegna, við verðum að finna fyrir því ákveðin rök að við stöndum í slíkum breytingum.