22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5574 í B-deild Alþingistíðinda. (4820)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er verið að afgreiða sama frv. í annað sinn með næstum því sama meiri hl. Hefur miklum meiri hl. hv. sjútvn. tekist að sameinast um það að vera bæði með og á móti sömu greininni á örfáum dögum. Að vísu hef ég grun um — svo vægt sé að orði komist — að hv. nm. hafi ekki haft æði mikla sannfæringu fyrir breytingunni enda nýbúnir að samþykkja að láta þetta vera. Það var gert til að halda friðinn og eiginlega alveg sama hvað í lögunum kemur til með að standa. En friðinn skal halda, það er út af fyrir sig gott.

Þetta frv., sem lagt var fram hér af hæstv. sjútvrh. í haust, var fólgið í því í stuttu máli að fækka nokkuð í stóru og miklu Verðlagsráði til þess að gera það starfhæfara m. a. Ef eitthvað er hefði þurft að fækka miklu meira, en um það náðist ekki samkomulag. Hins vegar náðist samkomulag um nokkra fækkun í ráðinu hjá þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Í þeirri nefnd voru allir helstu fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi alveg sammála, sumir vildu gera meira, aðrir minna, en þetta var sem sagt niðurstaðan, samkomulag, og það var samþykki hér einróma í hv. Nd. Svo er frv. tekið fyrir í Ed. og þá bregður svo við að það rísa einhverjir hv. alþm. gegn afgreiðslu úr þessari deild. Í raun og veru er afstaða þeirra fólgin í því að engu megi breyta í þessu kerfi öllu saman. Sú afstaða er ekki afstaða eins stjórnmálaflokks, fylgismenn þessarar breytingar voru bara þessir rótföstu kerfiskarlar sem ekki geta með nokkru móti hugsað sér að breyta einu eða neinu. Jafnvel þó að það sé hagkvæmara og jafnvel þó að það sé ódýrara þurfa þeir að bregðast svona við.

Ég held mig auðvitað fast við þá afstöðu sem ég tók hér fyrr. En út af fyrir sig má segja að þessi breyting sé ekki stórvægileg á neinn máta, þetta eru í raun og veru smámunir og þess vegna er varla ástæða til að hafa um þetta miklu fleiri orð.

Herra forseti. Það er ekkert nál. gefið út nú í seinni meðferð málsins en það er bókað að ég lagðist gegn því að breyta þessu aftur. Vonandi tekst það næst þegar fjallað verður um verðlagsráðsmálin að breyta þessu aftur og helst mörgu fleiru því að það litla, sem tókst að ná fram í þessari nefnd, var þó heldur í áttina. En þvergirðingarnir mega ekki hugsa til þess að nokkrum hlut sé breytt.