22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5575 í B-deild Alþingistíðinda. (4821)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég átti sæti í þeirri endurskoðunarnefnd sem fjallaði um lögin og átti þátt í smíði þess frv. sem hér var lagt fram snemma á þinginu. Ég er alfarið á móti þessari breytingu. Þetta gengur þvert á þá hugsun sem kom fram meðal aðila sem endurskoðuðu þetta frv. Mín spá er sú að ef þessi brtt. frá Ed. verður samþykkt þá sé þar með einn nagli rekinn í kistu þessa kerfis og þykir sumum orðið tímabært að svo verði gert. Satt að segja er ég einn þeirra og ég sé enga ástæðu til þess öllu lengur að láta þessa reikningsstofnun ríkisstj. á hverjum tíma vera til staðar til þess að ákveða og búa til verð sem ekki á neinn tilverurétt. Ef við höldum svona áfram vil ég að við fáum næst fulltrúa frá skötuselsveiðimönnum, steinbítsveiðimönnum og öðrum slíkum sem vilja fá sína fulltrúa inn í þetta ráð til þess að fá nokkuð reiknað út sér til hagsbóta eins og hefur verið á liðnum árum í sambandi við Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ég mun greiða atkvæði á móti þessari brtt.