22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5577 í B-deild Alþingistíðinda. (4824)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ekki treysti ég mér til að eiga orðastað við hv. síðasta ræðumann um Brynjólf eða BÚR-karfa sem ekki virðist þekkjast vestra. En ég held samt sem áður að ýmis fyrirtæki mættu gjarnan taka sér til fyrirmyndar það framtak sem gert var hjá stjórnanda Bæjarútgerðar Reykjavíkur í sambandi við aukna neyslu innanlands á þeirri ágætu vöru, karfanum. Það þarf ekki að nota þau orð í niðrandi merkingu, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði um það framtak, enda læt ég máli mínu við hann lokið að sinni.

Hv. 1. þm. Vestf. talaði lengi vel skynsamlega um þetta mál og benti réttilega á að það hefði verið gerð mikils háttar breyting við 6. gr. sem að mínu viti er meginbreytingin einfaldlega vegna þess að þar er í fyrsta sinn um áratuga skeið snúið að því sem margir aðilar í endurskoðunarnefndinni töldu að ætti að fara frekar inn á, þ. e. frjálsa verðmyndunarleið í sambandi við fiskverðið eða frjálsari en verið hefur, sem hún hefur ekki verið jafnlengi og þetta Verðlagsráð hefur verið ráðandi, við skulum ekki gleyma því. Síðan taldi hann réttilega að það væri mjög erfitt að fá einhliða samstöðu um að fara slíka leið í Verðlagsráðinu en mælir samt sem áður með að fjölga í því aftur sem hlýtur að gera það enn ómögulegra að ná samkomulagi. Ef við ætlum að fara að fjölga vegna þessara tegunda þá spyr ég: Því þá ekki að fjölga enn meir svo hver fisktegund eigi sinn fulltrúa í ráðinu, að það séu ekki bara kaupendur og seljendur heldur séu það fisktegundirnar sem fái ráðið hverjir sitji í þessu ágæta ráði? Þá veit ég að hv. 5. þm. Vestf. ætti þar að vera og hverra hagsmuna hann ætti að gæta, það er allavega ljóst. En ef þessi brtt. verður felld geri ég mér fulla grein fyrir því að gamla frv., gömlu lögin, muni áfram verða við lýði eins og þau eru nú, óbreytt. Ég held að það sé miklu betri aðferð en að vera að þessu. Menn voru búnir að ná samkomulagi um ákveðnar breytingar sem ganga í ákveðna átt. Nú á að hrinda því samkomulagi og snúa til baka og láta þetta verk ógert, eins og það hafi aldrei verið unnið. Þetta segi ég hafandi í huga að kaupendur og útgerðarmenn eru sami aðilinn í þessu máli hjá okkur í dag.

Seljendur hafa ekki beðið um þessa breytingu að mér er kunnugt um. Ég held að það muni enda með því að upp komi háværar kröfur um afnám þessa kerfis og er það í sambandi við önnur kjör á fiskiskipum. Einnig að það verði ekki eingöngu útgerðarmenn sem geta ráðið hvenær flotinn stöðvast í sambandi við kvótaveiðarnar sem við höfum tekið upp, heldur geti líka verið að fulltrúar sjómannastéttarinnar í heild vilji nokkru þar um ráða líka — og þá í sambandi við sín kjör — hvenær flotinn stoppar. Vera má að þetta verði til þess að það verði ein af meginkröfunum á næstunni að leggja þetta verðmyndunarkerfi algjörlega niður. Þá vitum við í hvert stefnir þegar samið verður á hverju krummaskuði landsins um verð á fisktegundum.