22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5578 í B-deild Alþingistíðinda. (4825)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Ég fagna því að við hv. 12. þm. Reykv. Pétur Sigurðsson erum í meginatriðum sammála um það, að rétt hefði verið að gera mun róttækari breytingar á þeim verðlagsráðslögum sem verið er að fjalla um en raun ber vitni. En niðurstaða frv. er sú að í meginatriðum verði haldið þeim háttum sem ríkt hafa um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Að vísu er þar nokkuð fækkað fulltrúum, en það breytir náttúrlega litlu um eðli og niðurstöðu málsins. Á meðan þetta kerfi ríkir er alls ekkert óeðlilegt að aðilar eins og þeir sem stunda skelfisk- og rækjuveiðar og vinnslu eigi hlut að máli þegar verið er að ákveða verð á því hráefni sem þeir hafa með að gera.

Þess vegna er það alls ekki óeðlileg krafa og tekið undir hana í brtt. sjútvn. Ed. að þeir eigi þarna hlut að máli. Að mínum dómi væri það fjarstæðukennt að af hálfu kaupenda væru einungis fulltrúar Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar. Og álíka fráleitt væri það að það væri fulltrúi frá saltfiskframleiðendum í landinu sem ætti þarna aðild að verðlagningu á rækju og hörpudiski. Vitaskuld væri þessi háttur alveg fráleitur. Meðan við höfum þetta kerfi verðum við því miður að búa við það, búa við þessa fjölgun í ráðinu. Við það verður ekki ráðið. Annað er alveg fullkomlega óeðlilegt. Sé okkur alvara með að vilja hverfa frá þessu verðum við að taka skrefið stærra sem byrjað er að stíga þarna í 6. gr. Öðruvísi leysum við ekki þetta mál, svo einfalt er það.