22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5580 í B-deild Alþingistíðinda. (4827)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er nú oft svo hér í hv. deild að þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson tekur hér til máls kemur hann víða við og er býsna íræðandi, upplýsandi, enda gamall kennari og vill ekki missa tækifærið að fræða hv. alþm. um hvað eina. Auðvitað gat hann farið að tala um karfa þegar málið snýst um skel og rækju, það er nú ekkert eðlilegra. En ég er ansi hræddur um að það sé ekki beint skynsamlegt af alþm. að vera að gantast með svo alvarlega hluti eins og karfann, karfaverð og möguleika til þess að ná í karfa. Ef við hefðum ekki gripið til þess að styrkja svolítið karfaverðið þá er ég ekki viss um að útgerðin hefði haft getu til þess að sækja í þann fisk. Hann er miklu verðminni, erfitt að sækja hann, mikill olíukostnaður og meiri en við veiðar á öðrum fiski, meira veiðarfæraslit o. s. frv. Um slík mál á auðvitað að ræða undir öðrum dagskrárliðum en þessum, en ég held það verði enginn betri af því að rugla um mál af þessu tagi.

Varðandi það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það væri ekkert sjálfsagðara en hafa sérstaka fulltrúa til þess að verðleggja skel og rækju, er ég raunar alveg viss um að hagsmuna sjómanna og útgerðarmanna og vinnslunnar er alveg jafn vel gætt þó að um það fjalli ekki fulltrúar sem standa í því sjálfir að veiða akkúrat þessi dýr. Í ráðinu eru ævinlega fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna og vinnslu og ég á bágt með að trúa því að þeir geti ekki séð hagsmunum þessara aðila borgið með sæmilegum hætti. Þess vegna er að mínum dómi engin nauðsyn að kalla til sérstaka fulltrúa fyrir hverja fisktegund.

Það er rétt að í 6. gr. er aðeins vísir að frjálsum fiskmarkaði. Sá vísir er auðvitað ákaflega veikur, vegna þess að til þess að grípa megi til þess þurfa allir í ráðinu að vera sammála. Okkur þótti rétt að hafa það þannig til þess að ekki væri hægt að misnota það á einn eða annan hátt. Við vitum að víða um land hagar svo til að aðeins eitt fyrirtæki kaupir fiskinn og enginn annar býður í og sjálfsagt erfitt að koma á frjálsum fiskmarkaði eins og ástandið er hjá okkur og hefur verið. En það væri auðvitað mjög æskilegt að þarna gæti verið samkeppni, mjög æskilegt, því að samkeppnin er í flestum tilfellum af hinu góða, eins og kunnugt er, en við treystum okkur ekki til að samþykkja neitt sem gengi lengra í þessum efnum, vegna þess að ég álít að við séum ekki undir það búnir að stofna til frjáls fiskmarkaðar eins og er.

Hitt er svo annað mál, að ég neita því að þessi ýjun að frjálsum fiskmarkaði í frv. sé aðeins upp á punt. Ég tel það mikilsvert að þetta skuli vera nefnt, án þess að ræða það nánar.