22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5582 í B-deild Alþingistíðinda. (4832)

86. mál, áfengislög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 956 flutt brtt. við frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem hér er tekið til 3. umr. Hljóða brtt. mínar í tveim tölul. þannig, með leyfi forseta — það eru brtt. við þskj. eins og það liggur fyrir prentað eftir 2. umr.:

„1. Við 2. gr. Greinin orðist svo:

7. gr. laganna orðist svo:

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einni skal heimil framleiðsla áfengra drykkja og bannað er öðrum að gera drykkjarhæft það áfengi sem er, eða gert hefur verið, óhæft til drykkjar. Þó skal dómsmrh. heimilt að leyfa framleiðslu áfengs öls hérlendis af þeim styrkleika sem leyfilegt er að flytja til landsins skv. 3. gr. Áfengt öl, sem framleitt er til útflutnings, er þó ekki háð slíkum takmörkunum.

2. Við 6. gr. bætist: 99% af fyrrgreindum tekjum skulu renna í Framkvæmdasjóð aldraðra til viðbótar framlögum skv. lögum nr. 91/1982.

Hér er, herra forseti, um að ræða tvær breytingar óskylds eðlis við frv. Hin fyrri er til að tryggja að dómsmrh. hafi ekki heimild til að leyfa framleiðslu eða bruggun sterkra drykkja einkaaðilum eins og gert er ráð fyrir í sambandi við áfengt öl. Eins og 2. gr. kom frá hv. n. á þskj. 933 og var samþykkt hér við 2. umr. er hún þannig — ég ætla að lesa hana hér, til að skýra þetta mál:

„7. gr. laganna orðist svo:

Bannað er án leyfis dómsmrh. að brugga á Íslandi eða búa til áfenga drykki eða áfengisvökva og gera drykkjarhæft það áfengi sem er, eða gert hefur verið, óhæft til drykkjar. Þó skal ekki heimilt að leyfa framleiðslu áfengs öls hérlendis af þeim styrkleika sem óheimilt er að flytja til landsins, skv. 3. gr., nema til útflutnings.“

Samkv. frv. eins og það er þarna eftir 2. umr. hefur dómsmrh. heimild til þess — eða þannig má túlka það — ekki aðeins að heimila bruggun á áfengu öli á Íslandi heldur einnig að leyfa öðrum en Áfengisversluninni að búa til áfenga drykki eða áfengisvökva og gera drykkjarhæft áfengi. Þetta var e. t. v. ekki hugsun þeirrar n. sem um þetta fjallaði og um það vil ég ekkert fullyrða. En ég tel óeðlilegt að slík heimild sé inni í lögunum varðandi annað en áfengt öl og því er þessi brtt. flutt.

Í áfengislögum nr. 82/1969 var þetta ótvírætt orðað og ég hef tekið upp orðalag úr þeim lögum í upphafi þar sem segir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einni sé heimilt að framleiða með þeirri undantekningu sem síðar greinir.

Ég vænti þess að þessi breyting hafi stuðning manna almennt þegar menn átta sig á því hvað hér er á ferðinni. Ég hef ekki heyrt í umr. að það væri í rauninni ætlan manna að fara að opna fyrir heimild til dómsmrh. að aðrir en Áfengisverslunin gætu búið til aðra áfenga drykki en áfengt öl. Ég bendi á að þó að deila megi um orðalag hér er vissara að hafa þetta alveg á hreinu. Menn minnast þess þegar heimild var veitt af þáv. fjmrh. Sighvati Björgvinssyni síðla árs 1979 um að opna fyrir innflutning á áfengu öli eða farþegar til landsins, ferðamenn til landsins gætu tekið ákveðið magn af áfengu öll í gegnum toll í Keflavík. Þá var það mjög umdeilt hvort það stangaðist ekki á við áfengislögin og komu tvær túlkanir fram. Það er víti til að varast í þessum efnum að hafa eitthvað óskýrt í þessu máli.

Kem ég þá að brtt. undir tölulið 2. Hún tengist 6. gr. eins og hún liggur hér fyrir, en sú grein kveður á um að árlega skuli verja sem svarar 1% af skatttekjum ríkissjóðs vegna framleiðslu og sölu áfengs öls til fræðslu um skaðsemi áfengis. Það er ekkert kveðið á um hin 99%. En hér er gerð till. um það að þessi 99% af fyrrgreindum skatttekjum ríkissjóðs skuli renna í Framkvæmdasjóð aldraðra til viðbótar framlögum skv. gildandi lögum um málefni aldraðra nr. 91/1982.

Ég tel eðlilegt að Alþingi móti við meðferð þessa máls stefnu um það í hvað söluhagnaði ríkissjóðs af sölu áfengs öls verði ráðstafað. Ég tel að þeim hagnaði sé vel varið til þess að efla Framkvæmdasjóð aldraðra og tryggja þar með að stórt átak sé hægt að gera í þeim málum sem Framkvæmdasjóði aldraðra er ætlað að styrkja, sem eru bygging íbúða og dvalarstofnana fyrir aldraða eins og nánar er tilgreint í 17. gr. laga um málefni aldraðra. Þar er, eins og menn vita, um að ræða ýmsa þætti. Það eru íbúðir sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra, þjónustuíbúðir og verndaðar þjónustuíbúðir sem svo eru kallaðar. Þar er í öðru lagi um að ræða dvalarheimili ætluð öldruðu fólki sem ekki er fært um að annast eigið heimilishald með aðstoð. Þar er í þriðja lagi um að ræða hjúkrunarheimili eða hjúkrunardeildir ætlaðar öldruðum einstaklingum. Þar er í fjórða lagi um að ræða sjúkradeildir hannaðar á sama hátt og spítaladeildir, ætlaðar langlegusjúklingum. Og þar er í fimmta lagi um að ræða stuðning við dagvist fyrir aldraða sem getur verið sjálfstæð eða hluti stofnunar.

Eins og menn vita er mjög langt í land að öldruðum hér á landi hafi verið búin sú aðstaða sem eðlilegt væri og sjálfsagt er að gert verði til þess að þeir geti notið ævikvöldsins við góðar aðstæður. Hvaða augum sem menn líta heimild um sölu á áfengu öli hérlendis ætti menn ekki að þurfa að greina á um það að þeim hagnaði, sem ríkissjóður hefði af sölu áfengs öls, væri vel varið til þess að koma megi þessum málum í gott horf á ekki mjög löngum tíma. Það er síðan að sjálfsögðu hægt fyrir löggjafann að endurskoða þessi efni í sambandi við ráðstöfun þessa hagnaðar eftir að menn telja að málefni aldraðra séu komin í viðunandi horf. En eins og ég gat um sjáum við ekki enn þá tíð upp renna.

Út um allt land er gífurlega mikil þörf fyrir byggingar í þágu aldraðra. Einstök sveitarfélög hafa þegar gert myndarlegt átak á sína vísu til þess að þoka þessum málum til betra horfs, önnur hafa enn ekki hreyft sig en eru kannske með málin á undirbúningsstigi. Vissulega hefur Framkvæmdasjóður aldraðra nú þegar létt undir og sannað gildi sitt og ekki til þess ætlast að hróflað verði við þeim tekjustofnum sem hann hefur að gildandi lögum. En fjárhagur sveitarfélaganna er víða mjög takmarkandi í þessum efnum. Geta til að gera átak í þessum efnum hefur farið minnkandi hjá mjög mörgum sveitarfélögum. Á það ekki síst við um sveitarfélög í sjávarplássum víða um land. Allir vita um aðstæður hér í Reykjavík og grennd í þessum efnum t. d. varðandi B-álmu Borgarspítalans þar sem aðeins hefur verið unnt að veita brot af því fjármagni sem æskilegt hefði verið til þess að þoka þeirri framkvæmd áfram.

Ég tel mig ekki þurfa að fara fleiri orðum um þörfina í þessum efnum. Auðvitað gætu menn nefnt ýmsa fleiri þætti, ýmis önnur svið þar sem fjárskortur stendur í vegi fyrir æskilegum framkvæmdum. En ég tel að þegar yfir málið er litið séu það málefni aldraðra sem ættu að njóta forgangs varðandi þessar tekjur. Þá ætti að vera unnt að sinna öðrum þáttum eins og t. d. málefnum fatlaðra og þroskaheftra með öðrum hætti, en það er málasvið sem eðlilega kemur upp í hugann þegar um er að ræða nýja tekjustofna, eins og hér er gert ráð fyrir, verði frv. þetta að lögum. Ég ætla ekki, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég hef tjáð mig um þessi efni við f. og 2. umr. málsins og vildi hér aðeins gera grein fyrir þessum brtt.