22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5588 í B-deild Alþingistíðinda. (4834)

86. mál, áfengislög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er m. a. undir yfirskini frelsis sem bjórvinir flytja þetta frv. Auðvitað er frelsið okkur öllum mikilvægt, en sannleikurinn er sá að við höfum á mörgum sviðum takmarkað frelsið þegar um er að tefla hluti sem eru skaðlegir þjóðinni. Við heyrðum í útvarpi í gær eða fyrradag útreikning á hvað áfengisdrykkjan sem nú er kosti þjóðina og er enginn vafi á að hann er nærri lagi. Mig minnir að það hafi verið nefnt að áfengisdrykkjan kosti þjóðfélagið einhvers staðar á milli 3500 millj. upp í 5500 millj. kr. Það er gífurlegt fé.

Ef þetta frv. verður nú að lögum er ekkert vissara en það að áfengisneysla vex. Spurningin er hversu mikið. Menn hafa verið að reikna það út að hver Íslendingur 15 ára og eldri komi til með að drekka 40 lítra af áfengu öli á ári. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að Íslendingum tekst að læra þetta mjög fljótt, að drekka öl, ekki síður en öðrum þjóðum og þeir verði ekki eftirbátar annarra í þeim efnum ef hægt er að nota það orð. Ég er alveg sannfærður um að áfengisdrykkjan verður ekki aðeins 40 lítrar á hvern haus, heldur 80 í það minnsta og þá vantar mikið á að við náum þeim duglegustu í þessum efnum í Evrópu. Danir t. d. drekka talsvert á annað hundrað lítra á mann á ári. Svo er einnig um Þjóðverja. Og Íslendingar hafa verið ákaflega fljótir að tileinka sér nýjungar á öllum sviðum. Það má nefna sem dæmi nýja tækni og nýja neyslu t. d. í alls konar tækjum, svokölluðum græjum eins og það heitir, hljómflutningstækjum, vídeótækjum og öðru þess konar. Um leið og það er komið til okkar sláum við um leið öll heimsmet. Engir hafa meira af þessum tækjum í veröldinni en við Íslendingar. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstfl. gaukaði að mér þeirri spurningu hvort það væri ófínt. Ég skal út af fyrir sig ekki leggja neinn dóm á það. Hins vegar sýnir þessi staðreynd að Íslendingar eru ekki eftirbátar í þeirri neyslu frekar en annarri.

Íslendingar hafa nýverið tekið upp svokölluð kreditkort. Það var nú talið að í þessu þjóðfélagi, þar sem allir taka allar ávísanir af hverjum manni í landinu, væri ekki þörf á því að koma slíkum nýjum greiðslumáta í gagnið. En hvað skeður? Eftir örskamma stund er næstum hver maður kominn með eitt eða jafnvel fleiri greiðslukort upp á vasann. Og Íslendingar nota meira af þeim nú en flestar ef ekki allar aðrar þjóðir. Svona er þetta á mörgum sviðum. Íslendingar eru næmir á allt slíkt og fljótir að tileinka sér hlutina. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, svo að ég endurtaki, að Íslendingar muni drekka miklu meira en áætlað er. Mér er nær að halda að heildaráfengisneyslan muni tvöfaldast við tilkomu bjórsins.

Menn hafa talað um að áfengisneyslualdurinn muni færast niður. Ég er ekkert viss um það. Íslendingar hafa líka verið ákaflega námfúsir í sambandi við brennivínsdrykkju og gengið ágætlega að tileinka sér hana, jafnvel þó að um sterka drykki sé að ræða. Og það er ekki þess vegna að ég sé að hugsa um ungdóminn. Hann drekkur sitt brennivín hvort sem það er veikt eða sterkt. En reynsla annarra þjóða sýnir að bjórneyslan bætist við.

Það er talað um það af fróðum mönnum í útlöndum, sem hafa kannað þessi mál lengi, að ef vínneysla tvöfaldast fjórfaldist vandamálin og ef vínneyslan þrefaldast nífaldist vandamálin. Ég trúi því ekki að hv. alþm. hafi ekki orðið varir við vandamálin sem skapast af áfengisneyslu þjóðarinnar. Ég er ekki viss um að það sé nokkurs staðar annars staðar í heiminum eins mikið af sjúkrarúmum sem eru lögð undir áfengissjúklinga og hér.

Áfengi er mikið drukkið á Íslandi. Hér eru mjög margir áfengissjúklingar. Það vandamál kostar, eins og ég sagði fyrr, gífurlega fjármuni. Og ef það verður þannig að við tvöföldum okkar áfengisneyslu og fáum fjórföld vandamál, þá er ekki lengur um 3.5 milljarða tjón að ræða heldur 14 milljarða kr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta frv. En ég vil hins vegar leyfa mér að benda hv. alþm. á að ef þetta skref verður stigið, að kalla yfir okkur það mikla flóð áfengs öls, þá verður það ekki stigið til baka. Að mínum dómi er hér um að tefla mál sem er miklu alvarlegra en kannske öll önnur mál sem við höfum staðið frammi fyrir að taka afstöðu til í hinu háa Alþingi.

Þjóðin hefur oft kveinkað sér undan því þegar misvitrir stjórnmálamenn og kjarklitlir hafa verið að setja harkalegar efnahagsráðstafanir á þjóðina og margt af því tagi. Það eru yfirleitt tímabundin vandamál sem menn geta krafsað sig út úr með því að ganga aðra leið. En ef við tökum bjórinn inn höfum við hann áfram og ég er viss um að drykkjan fer vaxandi með árunum og mun skapa gífurleg vandamál.

Íslendingar hafa haft þann háttinn á lengst af, þeir sem drekka áfengi á annað borð, að skella í sig brennivíni við hátíðleg tækifæri og skemmta sér, drekka kannske mikið. Svo hætta þeir því bara og gera það ekki fyrr en næst. Og á milli eru Íslendingar edrú. En ef menn fá bjórinn yfir sig breytist þetta frá því að vera svona stök fyllerí yfir í það að vera sífellt með áfengi við höndina. Bjórdrykkjan er þannig að hún er — ég þori kannske ekki að segja dagleg drykkja, en ég er ansi hræddur um að það verði ekki mjög margir ísskápar í landinu sem ekki innihalda bjór á virkum dögum ekki síður en á helgum. Með því að taka bjórinn, þá verða tugir þúsunda Íslendinga, ég vil leyfa mér að segja hátt á annað hundrað þúsund Íslendinga, meira og minna með bjór í skrokknum og þar með áfengi. Það verður auðvitað margfalt, margfalt óhollara en hin gamla aðferð þótt hún hafi ekki verið góð.

Ég held að ég hafi, herra forseti, byrjað þessi fáu orð á því að segja: Þetta er gert undir yfirskim frelsisins á öllum sviðum sem hefur lukkast misjafnlega. Ég tel að þó marga langi í þennan bjór, þá er hægt að gera það þjóðfélagsins vegna að neita sér um þennan vökva því að þó talað sé um nú að bjórinn sé þegar kominn í svokallaðar ölkrár og þar muni nokkrar þúsundir manna drekka það sull þá er það auðvitað ekki bjór. Það kemur eitthvað til landsins af sterku öli frá útlöndum með fragtskipum. Eitthvað er það. Kannske milljón flöskur svo að við reiknum ríflega. Það er nú 2–4 daga skammtur hjá bjórdrykkjuþjóð á mann. Þegar allt kemur saman gætum við kannske sagt að með smygli, með löglegum innflutningi og með bjórkaupum á Keflavíkurflugvelli, sem er greinilega ólöglegt eins og ölkrárnar, drekki 10 þús. manns í landinu einhvern bjór, en ekki eins og gerist í nágrannalöndum samt, ekkert nálægt því. En þegar við fáum bjórinn verða það ekki 5–10 þús. manns sem drekka þetta, heldur a. m. k. 160 þús. manns. Þarna er mikill munur á.

Herra forseti. Ég læt vera að flytja lengri fyrirlestur, en vonast til þess að geta fengið að segja örfá orð í viðbót ef tækifæri gefst til. — [Fundarhlé.]