23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5622 í B-deild Alþingistíðinda. (4870)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka utanrmn. fyrir meðferð þessa máls. En till. sú til þál. sem hér liggur fyrir til umræðu frá utanrmn. er árangur af starfi nefndarinnar við afgreiðslu á þeim tillögum sem hér hafa verið fluttar á þingi nú í vetur varðandi þessi efni. Ég þakka líka formanni utanrmn. fyrir ágæta framsögu og greinargóða sem dró saman í stuttu máli helstu atriði þessara mála. Ég ætti þess vegna að geta verið tiltölulega stuttorður en vil þó leyfa mér með nokkrum orðum að fjalla um þessa þáltill. og þau málefni er hún fjallar um.

Það verður auðvitað að hafa í huga þegar þessi þáltill. er skoðuð að hún er í raun og veru afgreiðsla á fimm tillögum um þessi efni.

Í fyrsta lagi till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna. Í öðru lagi, ef ég tek það sem sérstaka tillögu, brtt. við þá till. í tveim töluliðum og einum sjö bókstafsliðum frá fulltrúum Alþb. Í þriðja lagi till. um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar frá þm. Sjálfstfl. Í fjórða lagi till. til þál. um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum. Og í fimmta lagi till. til þál. um bann við geymslu og notkun kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði. Mér finnst nefndinni hafa tekist mjög vel að taka það saman úr þessum till. sem máli skipti og menn geta sameinast um. Ég fagna þessari framkomnu till., ekki síst vegna þess að það er mat mitt á henni að hún feli í sér þau meginsjónarmið sem eftir hefur verið farið í meðferð Íslendinga á alþjóðavettvangi varðandi þessi mál.

Ég leyfi mér að telja þessa till. fela í sér sex meginefnisþætti.

Grundvallarforsenda till. er í 1. málsgrein þar sem undirstrikuð er þýðing þess að um gagnkvæma alhliða afvopnun sé að ræða og hún framkvæmd og tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Hér er um lykilforsendu þess að ræða að afvopnunartilraunir beri árangur, gagnkvæmni og tryggt eftirlit. Það hefur verið meginsjónarmið þegar Íslendingar hafa tekið afstöðu til till. á opinberum vettvangi í afvopnunarmálum að þessum skilyrðum væri fullnægt.

Þá er í öðru lagi skv. þessari till. tekin afstaða til frystingar kjarnavopna svokallaðra, þ. e. banns við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna. Slíkt bann er tengt samhliða niðurskurði kjarnavopna, en hvoru tveggja, banninu og gagnkvæmum niðurskurði kjarnavopna, skal framfylgt þannig að málsaðilar uni því og treysti enda verði það gert í samráði við alþjóðlega eftirlitsstofnun. Hér er einnig um að ræða þá viðmiðun sem við höfum haft í afstöðu okkar til slíkra tillagna á alþjóðavettvangi.

Í þriðja lagi er hér um að ræða afstöðu til kjarnavopnalausra svæða. Raunar er ekki svo langt gengið heldur er hér um að ræða samþykki um að könnuð sé annars vegar samstaða og grundvöllur um kjarnavopnalaus svæði í Norður-Evrópu og hins vegar sé könnuð hugsanleg þátttaka Íslands í frekari umræðu um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum. En þetta tvennt er í till. einnig tengt saman og er það mjög í samræmi við þau ummæli sem ég hef látið falla hér og á fundum okkar utanrrh. Norðurlanda þegar kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum hefur borið á góma.

Ég hef ávallt undirstrikað að við Íslendingar ættum að vera með í þessari umræðu þegar talað er um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum. Um leið hef ég lagt áherslu á að sú umræða tengdist kjarnavopnalausu svæði í stærra samhengi og sem þátt í alhliða afvopnun og samningum milli kjarnavopnaveldanna. Öðruvísi verður ekki gagn að slíku kjarnavopnalausu svæði.

Raunar má draga í efa hvert gildi kjarnavopnalaust svæði hefur ef til kjarnavopnaátaka kæmi. Ég hef áður nefnt það úr þessum ræðustól að hér fyrir nokkru höfðu ýmsir menn í Vesturheimi tröllatrú á því að unnt væri að heyja takmarkað kjarnavopnastríð. Ég hygg að þær hugmyndir og hugleiðingar hafi fljótlega verið taldar fjarstæðukenndar. Slíkt væri óframkvæmanlegt og mundi einungis leiða til allsherjar kjarnavopnastríðs. En ég varpa fram þeirri spurningu hvort hér er ekki um tvær hliðar á sömu myntinni að ræða. Það er í raun svo að eins og takmarkað kjarnavopnastríð er óraunhæft þá eru kjarnavopnalaus svæði þýðingarlítil ef við lendum í þeim darraðardansi sem kjarnavopnaátök yrðu.

Engu að síður tel ég sjálfsagt að kanna möguleika á kjarnavopnalausum svæðum ef slíkir samningar milli kjarnavopnaveldanna gætu orðið til þess að um slökun yrði að ræða og afvopnun á gagnkvæmnisgrundvelli undir tryggu eftirliti eins og forsenda þessarar till. er.

Í fjórða lagi hefur hér verið rætt um þá yfirlýsingu sem í till. greinir, þ. e.: „Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn“, og er nokkur blæmunur á túlkun manna á þessari yfirlýsingu. Ég hlýt að undirstrika skilning hv. frsm. þar sem hann sagði að við afsölum okkur ekki fullveldi okkar og sömuleiðis það sem forsrh. sagði að við afsölum ekki sjálfsákvörðunarrétti okkar. Það hlýtur að vera á valdi Íslendinga á hverjum tíma, íslenskra stjórnvalda, að segja til um það hvort hér eru kjarnavopn eða ekki.

Það er ákveðin stefna íslenskra stjórnvalda frá því að kjarnavopn komu til sögunnar að hér yrðu ekki staðsett kjarnavopn. Það hafa ekki komið fram nein tilmæli um það að leyfa staðsetningu kjarnavopna á Íslandi og við höfum því síður borið fram tilmæli um að fá kjarnavopn. Ég á ekki von á því í fyrirsjáanlegri framtíð að nokkur breyting verði á þessari stefnu íslenskra stjórnvalda og Íslendinga almennt. Ég vonast til þess að til þess komi aldrei en ég hygg að það væri fásinna af okkur Íslendingum að lýsa því yfir um aldur og ævi á hverju sem gengur að við munum afsala okkur að þessu leyti sjálfsákvörðunarrétti eða fullveldi. Þess vegna er hér ekki um þá yfirlýsingu að ræða að hvorki í fríði né ófriði verði hér staðsett kjarnavopn. Það hlýtur að vera á valdi íslenskra stjórnvalda hvort svo skuli vera.

Það er óskynsamlegt að gefa einhliða yfirlýsingu er gildi á hverju sem gengur, þó ekki væri nema vegna þess að slík yfirlýsing, ef hún á að koma að gagni, á að eiga sér stað í samráði og í samhengi við aðrar þjóðir í þeim tilgangi að um kjarnavopnalaus svæði og fækkun kjarnavopna verði að ræða meðal annarra þjóða á mun stærra svæði.

Ástæðan til þess að við erum að tala um þýðingu kjarnavopnalausra svæða er einmitt að draga úr líkum á því hvort heldur að slys gæti orðið eða um væri að ræða beitingu kjarnavopna í átökum. Því hljótum við að gera kröfu til annarra þjóða í austri og vestri að þær gefi samsvarandi yfirlýsingu um leið og við gerum það.

Ég vil taka það fram að ég tel það með ólíkindum og ég vona að til þess komi aldrei að við gæfum leyfi til staðsetningu kjarnavopna hér á landi. Engu að síður skulum við ekki loka augunum fyrir því að við getum ekki gert okkur grein fyrir því á þessu stigi málsins hvað kynni að verða ef út í darraðardans er farið. Það sem máli skiptir er að allt sem við gerum sé liður í afvopnun, þátttaka í tilraunum mannkynsins til að draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu. Ég held að gagnkvæmni skipti þar mestu máli og við Íslendingar getum best stuðlað að slíkri gagnkvæmni einmitt með því að halda við þá stefnu sem við höfum haft í þessum efnum.

Ég vil svo í fimmta lagi lýsa ánægju minni yfir þeim efnisþætti sem í till. felst að öryggismálanefnd í samráði við utanrrh. er falið að taka saman skýrslu um þær hugmyndir sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, einkum þær sem máli skipta fyrir Ísland með hliðsjón af legu landsins og aðild þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi.

Ég geri mér vonir um að frekari upplýsingaöflun geti stuðlað að enn raunhæfari samstöðu íslenskra stjórnmálaflokka um stefnu í öryggismálum okkar lands og í afvopnunarmálum almennt.

Í sjötta lagi er sá efnisþáttur í þál. að mikilvægt sé að því gífurlega fjármagni, sem nú rennur til herbúnaðar, verði varið til hjálpar fátækum ríkjum heims. Þessi efnisþáttur er vissulega góðra gjalda verður þótt erfitt kunni að vera að hafa áhrif í þá átt að það fjármagn, sem kynni að sparast, fari um þann farveg sem svo nauðsynlegt er að eigi sér stað ef friðvænlegt á að vera í heiminum. Það sem gæti ógnað friði í heiminum er ekki eingöngu barátta austurs og vesturs heldur og það misræmi sem þjóðir norðurs og suðurs búa við í efnahag og í lífskjörum.

Ég þakka utanrmn. enn á ný fyrir starf hennar og ég hygg að þetta sé áfangi á þeirri leið að samræma sjónarmið okkar Íslendinga í öryggis- og afvopnunarmálum. Þótt við kunnum að hafa túlkað hér nokkur ákvæði þessarar till. með mismunandi hætti skulum við ekki láta það aftra okkur frá að gera frekari tilraunir til þess að samræma sjónarmiðin á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um ástand mála og vígbúnaðar í heiminum. Við verðum auðvitað sem sjálfstæð þjóð að hafa augun opin fyrir því raunverulega ástandi heimsmálanna sem við búum við á hverjum tíma. Eingöngu með þeim hætti getum við verndað sjálfstæði okkar og lagt lóð okkar á vogarskál afvopnunar og friðar.