23.05.1985
Efri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5627 í B-deild Alþingistíðinda. (4882)

289. mál, Landmælingar Íslands

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið til umfjöllunar í hv. Nd. Samgn. Nd. sendi frv. til umsagnar og eftir því sem segir í nál. samgn. Nd. var málið sent til umsagnar þeirra aðila sem málið varðar. Þeir aðilar, sem fengu málið til umsagnar frá Nd., munu hafa verið Rannsóknaráð ríkisins, verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands og einnig kom umsögn frá mælingaverkfræðingum.

Samgn. Nd. gerði á frv. nokkrar breytingar sem öll n. stóð að, en n. náði þó ekki fullnaðarsamkomulagi um frv. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að breyta þyrfti frv. og setja í það ákvæði um stjórn Landmælinga Íslands og flutti brtt. þar að lútandi. Brtt. hlutu ekki samþykki í hv. Nd.

Samgn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum og á fundi n. hafa komið þeir Birgir Guðjónsson, settur forseti Landmælinga Íslands, og Gylfi Már Guðbergsson forstöðumaður jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans. Flestir sem fengu frv. til umsagnar frá samgn. Nd. lögðu áherslu á nauðsyn samráðs og samvinnu þeirra sem vinna að landmælingum og kortagerð. Sama skoðun kom fram hjá við mælendum okkar í samgn. hv. Ed.

Hér er reyndar um þann þátt að ræða sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að mundi verða í góðu lagi ef landmælingunum yrði sett stjórn. Með samþykkt brtt. sem samgn. flytur á þskj. 971 teljum við að sjálfsögð og eðlileg samvinna og samráð sé tryggt milli þeirra sem að landmælingum og kortagerð vinna og þar með hafi verið farið að ráðum þeirra sem sendu samgn. Nd. umsagnir og viðmælenda okkar. Rétt er að fara nokkrum orðum um hvers vegna þessa samráðs er þörf.

Allmargar verkfræðistofur og opinberar stofnanir, t. d. Landmælingar Íslands og Orkustofnun, Vegagerð, Landsvirkjun, borgarverkfræðingur og ýmsar verkfræðistofur stunda grundvallarmælingar og enn fleiri stofnanir og fyrirtæki fást við kortagerð. Talsvert hefur skort á samræmi í vinnubrögðum, en á þessu sviði er stöðlun og samræming nauðsynleg. Þá nýtist miklu betur vinnuafl, tæki og fé og kraftar þeirra sem að þessu vinna dreifast ekki eins mikið. Það er óheppilegt og dýrt að fleiri en einn aðili vinni að sams konar eða svipaðri kortagerð af sömu stöðum, eins og dæmi eru um af því að stofnunum hefur verið ókunnugt um áform hverrar annarrar. Kort eru gerð í mismunandi kortvörpunum, kortablaðskipting er breytileg, mælikvarðar mismunandi, kort sem sýna líkt efni, t. d. jarðfræðikort, eru ólík að útliti vegna mismunandi lita, leturs og tákna. Þá er líka nauðsynlegt að stofnanir og fyrirtæki sem gera kort hafi samráð af því að þessi starfsemi hlýtur að verða fjölbreyttari í framtíðinni en verið hefur vegna tæknilegra breytinga, t. d. tilkomu mynda frá gervihnöttum og ýmissa nýrra tækja sem notuð eru til að afla þekkingar og upplýsinga um jörðina, land og sjó og við kortagerð.

Sjálfsagt er að Landmælingar Íslands safni og varðveiti ýmis landfræðileg og stærðfræðileg gögn og mælingagögn, eins og frv. gerir ráð fyrir, og miðli af þeim brunni öllum sem á þurfa að halda vegna kortagerðar og ýmissa rannsókna- og fræðistarfa. Um þetta er óhjákvæmilegt að hafa samráð við þá sem stunda landmælingar, kortagerð og skyld störf. T. d. má nefna örnefni sem sett eru á kort, en stafsetning og staðsetning þeirra er ekki alltaf rétt eða eins á kortum núna.

Dæmi: Fjórðungsblöð Landmælinga Íslands, svokölluð herforingjaráðskort, eru í mælikvarða 1:50000 og í keiluvörpun. Kort sem Bandaríkjaher hefur gert í sama mælikvarða er í annarri vörpun og kortablaðskipting er önnur. Gróðurkort af hálendi landsins eru í mælikvarða 1:40000. Orkustofnun hefur gert mikið af kortum í mælikvarða 1:20000 sem sýna fyrst og fremst landslag, ár og vötn.

Brtt. okkar gerir ráð fyrir að í reglugerð um skipulag og starfsháttu Landmælinga Íslands sé kveðið á um að samstarf og samráð í vinnubrögðum og skipulagi verði þannig að tæki, fé og kraftur þeirra, sem að kortagerð og landmælingum vinna, dreifist ekki eins mikið og brögð hafa verið að hingað til. Brtt. hv. samgn. er við 4. gr. frv. eins og það kom frá hv. Nd. Ef ég fer yfir 4. gr. eins og hún var þegar hún kom frá Nd. hljóðar hún þannig:

„Um skipulag og starfsháttu Landmælinga Íslands skal nánar ákveðið í reglugerðum, þ. á m. skulu vera ákvæði um að þeir aðilar, sem landmælingar stunda, hafi samráð sín á milli.“

Við leggjum til að inn í þessa grein komi á eftir orðunum „sem stunda landmælingar“: og kortagerð, og á eftir orðunum „hafi samráð sín á milli“ komi: um samræmi í vinnubrögðum og skipulagi mælinga og kortagerðar.

Settur forstjóri Landmælinga Íslands, Birgir Guðjónsson, samdi grg. að ósk okkar í samgn. Ed. Ég tel rétt að lesa hana hér, með leyfi virðulegs forseta. Grg. er svohljóðandi:

„Landmælingar Íslands. Stutt greinargerð samin skv. beiðni samgn. Ed. Alþingis.

Stórvirki Dana í mælingum og kortagerð á fyrri hluta þessarar aldar ásamt mikilvægu framlagi allt fram á sjöunda áratuginn er sá þekkingargrunnur sem landfræðilegar athuganir landsmanna sem og margar vísindagreinar og flestar verklegar framkvæmdir byggjast á. Þessum stórmerka arfi var skilað í hendur Landmælinga Íslands og hefur það verið verkefni þeirra að varðveita hann, endurskoða og þróa í takt við örar breytingar á landi, landnýtingu sem og tækniframfarir.

Landmælingar Íslands eru ung stofnun sem varð til í ársbyrjun 1956 er landmælingadeild Vegagerðar ríkisins var frá henni skilin og yfir hana settur sérstakur forstjóri og fjárhagur gerður sjálfstæður. Geir Zoëga vegamálastjóri varð fyrsti forstöðumaður hennar, en hann hafði um langan tíma verið trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar í samskiptum við dönsku landmælingastofnunina. Stofnunin hefur síðan þá þróast og bætt við starfsliði eftir því sem gögn og kort fengust frá Dönum, verkefni aukist og nýjar þarfir komið til.

Óskýr stefnumörkun um landmælingastarfsemi þjóðarinnar og uppbyggingu stofnunarinnar hefur lengi verið starfseminni allri fjötur um fót, en nú er von til að úr rætist með samþykkt frv. um Landmælingar Íslands.

Einn helsti ávinningur lagasetningar er að þannig fæst færi á að fastmóta alla aðferðarfræði landmælinganna og með skipulegum hætti sameina alla þekkingu og tækjakost að einu marki, þ. e. nothæfum kortagrunni öllum landsmönnum til hagsbóta.

Ítrekað skal að ekki er stefnt að uppbyggingu fjölmenns ríkisbákns sem leggi kalda einokunarkrumlu á starfsemi fjölmargra hæfra einstaklinga og fyrirtækja á þessu sviði, heldur er kúrsinn tekinn á samvinnu og samstarf þar sem Landmælingar Íslands verki sem hvati í hraðri og markvissri landmælingastarfsemi.

Ekki skal hér farið nánar út í hvernig ná mætti þessu marki, einungis vitnað til ummæla er féllu á fundi með nm. í dag.

Grg. þessari verður ekki lokið án þess að bent sé á að afgreiðsla frv. er þrátt fyrir mikilvægi sitt aðeins hluti af uppbyggingarstarfinu sem þm. gætu fylgt eftir af þrótti.

Landmælingar Íslands eru nú í leiguhúsnæði að Laugavegi 178 og er það um margt illa fallið til slíkrar sérhæfðrar starfsemi sem kortateiknun, framköllun og geymsla viðkvæmra gagna er. Hefur einnig flestum endurbótum verið slegið á frest þar sem lengi hefur verið leitað í kerfinu eftir varanlegri lausn mála. Helsti ágalli húsnæðisins, fyrir utan erfiða uppsetningu hraðvirkra framleiðslulína, er að þar vantar alla hita- og rakastillingu, auk þess sem ryk smýgur um allt og gerir meðferð viðkvæmra mælitækja erfiða. Flest þau gögn sem til verða við starfsemina, svo ekki sé talað um ómetanleg frumgögn frá fyrri tíma, eru þeirrar gerðar að þau tortímast sé rétts hita- og rakastigs ekki gætt. Þá er það líka stórhættulegt að allt þetta safn skuli geymt á einum og sama stað sé litið til eld- og sprengihættu.

Af þeim sökum er bráðnauðsynlegt að sem allra fyrst verði gert myndarlegt átak til endurbóta í allri starfsaðstöðu stofnunarinnar framleiðslunni til framdráttar, en þó einkum hvað varðar geymslu þess þjóðarauðs sem eru hin margvíslegustu landmælingagögn í vörslu hennar.

Hér lýkur grg. Birgis Guðjónssonar. Ég taldi rétt að þessi skýrsla Birgis kæmi hér fram og þar eru ákveðin áhersluatriði sem er eðlilegt að sé tekið tillit til. Það er ánægjulegt að frv. til l. um Landmælingar Íslands skuli nú komið til umfjöllunar á Alþingi og komið til 2. umr. í síðari deild. Allir hv. alþm. eru sammála um að nauðsynlegt er að fá lögfestingu á hlutverki og starfssviði Landmælinga Íslands. Samgn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu er ég hef skýrt frá og er á þskj. 971. Fjarverandi afgreiðslu málsins í n. voru Karl Steinar Guðnason og Jón Kristjánsson.