23.05.1985
Neðri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5635 í B-deild Alþingistíðinda. (4906)

469. mál, almannatryggingar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Samkv. gildandi lögum um almannatryggingar er einungis greiddur ferðakostnaður við för til læknis eða til hjúkrunar eða meðferðar, þegar vegalengdin í ferðinni er meiri en 15 km. Það er hins vegar augljóst að sjúklingur getur orðið fyrir mjög miklum útgjöldum og mjög tilfinnanlegum þótt hver ferð sem hann fer sé skemmri en 15 km ef hann fer mjög margar ferðir.

Nú er það svo að í framþróun læknavísindanna hafa menn tekið til við margs konar meðferðir sem gera það að verkum að menn verða að sækja oft í meðferðina eða til læknisins. Ég kann dæmi af því, reyndar úr heimabyggðarlagi mínu, Hafnarfirði, að sjúklingur fór 2000 km, um 100 ferðir, í meðferð, en gat ekki fengið neinn hluta ferðakostnaðarins greiddan af því að hver einstök ferð var skemmri en nefndir 15 km. Þessi sjúklingur hefði, ef hann hefði notað strætisvagna eingöngu, varið til þess um 10 þús. kr. Það var leitað eftir því ítrekað til Tryggingastofnunar að hún tæki einhvern þátt í þessum ferðakostnaði þar sem hér væri um veruleg útgjöld að ræða og ítrekaðar ferðir, en því var synjað, ekki einu sinni heldur tvisvar, með tilvísun í lög og reglugerðir stofnunarinnar.

Ég tel að þetta sé óhæfa, hér sé um að ræða úrelt ákvæði í lögunum um almannatryggingar og nauðsyn beri til þess að það ríki bærilegt jafnræði í þessum efnum, þannig að þeir aðilar sem verða fyrir því að þurfa að fara svo oft og mjög til meðferðar fái notið þess að hluti ferðakostnaðar sé greiddur þótt hver ferð kunni að vera skemmri en sú 15 km regla, sem menn hafa fundið upp einu sinni í tíðinni, segir til um.

Það dæmi sem ég þekki til varðar hönd sem skarst af í sælgætisgerðarvél. Aðgerðin var fólgin í mörgum skurðaðgerðum og mikilli þjálfun milli skurðaðgerðanna. Sannleikurinn var sá, að ef ekki var farið í þjálfun milli skurðaðgerða var málið ónýtt og næsta skurðaðgerð ekki til neins. Hér var því um það að tefla, ef aðgerðin í heild átti að heppnast, að í þjálfun væri farið reglulega. Það kostaði yfir 100 ferðir, yfir 10 þús. kr. Ég held að hver sanngjarn maður hljóti að sjá að það sé eðlilegt að almannatryggingar taki þátt í þessum tilkostnaði.

Það lagafrumvarp sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu Halldórsdóttur, Geir Gunnarssyni, Guðrúnu Helgadóttur og Pétri Sigurðssyni fjallar einmitt um þetta mál. Þar er gert ráð fyrir því að ef farnar séu fleiri ferðir en 30 á 12 mánaða tímabili sé ferðakostnaður með áætlunarbíl greiddur að fullu, eða eftir kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eru ekki fyrir hendi, þegar svo stendur á að sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar, t. d. í endurhæfingu. Þetta er efni frv. og þetta eitt og ég tel mikið réttlætismál að þetta nái fram að ganga.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að þessu máli verði vísað til heilbr.- og trn.