23.05.1985
Neðri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5636 í B-deild Alþingistíðinda. (4908)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. félmn. Nd. á þskj. 913, en fjallað er þar um frv. til l. um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífi. N. klofnaði um afstöðu til frv. og meiri hl. hefur skilað sérstöku nál. sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið, fengið umsagnir nokkurra aðila og haldið fundi með Ingvari Ásmundssyni, skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík, Halldóri Guðjónssyni, kennslustjóra Háskóla Íslands, Ingjaldi Hannibalssyni, forstjóra Iðntæknistofnunar Íslands, Hirti Hjartar, hagfræðingi Félags ísl. iðnrekenda, og Láru Júlíusdóttur, lögfræðingi Alþýðusambands Íslands.

Upplýst er að á vegum ríkisstj. hefur verið og er unnið að þeim málum sem frv. fjallar um. Gert er ráð fyrir að skýrsla um endurmenntunarmál verði lögð fram á næsta þingi. Með skírskotun til þess og í því trausti, að haft verði samráð við þá aðila sem um er getið í 2. gr. frv. við frekari framgang málsins, leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Hér lýkur texta nál., en undir það rita auk mín hv. þm. Stefán Valgeirsson, Halldór Blöndal, Eggert Haukdal og Stefán Guðmundsson.

Þeir aðilar sem vísað er til í 2. gr. frv. eru Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Það er gert ráð fyrir því að þessir aðilar hafi aðgang að upplýsingum og fái að fylgjast með því sem er að gerast í þessum málum á vegum ráðuneytanna, einkum og sér í lagi tveggja ráðuneyta, þ. e. menntmrn. og félmrn. Formaður félmn. Nd. hefur haft samband við menntmrh. og fengið þær upplýsingar að skýrsla sem um er getið í nál. geti legið fyrir á næsta þingi.

Það er auðvitað góðra gjalda vert að flytja till. eða frv. á borð við það sem hér er til umr. og vekja þannig athygli á mjög mikilvægu máli. Hins vegar verður að taka tillit til þess að hér er um að ræða mál sem kostar gífurlega miklar fjárhæðir og það er flutt á sama tíma og vitað er að talsverðar fjárhæðir vantar í skólakerfið, í þær námsgreinar sem ríkinu er skylt að kenna til þess að hægt sé að halda uppi lögbundinni góðri kennslu í ýmsum greinum, þ. á m. í greinum sem kenndar eru í iðnskólakerfinu. Það er ljóst að afstaða meiri hl. byggist ekki á andstöðu við þetta frv., heldur telur meiri hl. nefndarinnar eðlilegt að beðið sé eftir skýrslu sem gerir grein fyrir því að hve miklu leyti hefur verið unnið að málinu og hvaða tillögur viðkomandi yfirvöld hafa að gera.

Ég ítreka það, herra forseti, að meiri hl. hv. n. leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj.