05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

129. mál, umferðarlög

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér öðru sinni frv. um breytingu á lögum nr. 55/ 1981, um breytingu á umferðarlögum nr. 40/1968. Frv. er mjög einfalt í sniðum og fjallar um það að viðurlög komi til noti menn ekki bílbelti við akstur bifreiða. á síðasta þingi flutti ég framsögu fyrir þessu máli og byggðist sú framsaga að mestu leyti á þeirri grg. sem fylgir frv. nú. Var frv. mjög vel tekið hér í hv. Ed. og var samþykkt samhljóða. Síðan var málið tekið fyrir í Nd. þar sem það strandaði og varð því ekki útrætt. Okkur flm. er það óskiljanlegt hvers vegna þetta mál strandaði þar. Kannske að hæstv. dómsmrh. viti hvers vegna svo var.

Í þessari deild vita menn hversu mikil nauðsyn það er að tekið sé hart á því að menn noti bílbelti við akstur bifreiða. Menn hafa horft upp á það hvernig dauðaslys hafa átt sér stað, hvernig menn hafa orðið örkumla alla ævi vegna þess að þeir notuðu ekki bílbelti. Þrátt fyrir það að áróður hafi verið hafður uppi um það að nota þessi öryggistæki, þá hefur sá áróður ekki skilað nægilega miklum árangri. Árangurinn hefur verið nokkur en hvergi nærri nógur.

Í nágrannalöndum okkar, reyndar hvarvetna í Evrópu hefur það verið upp tekið að beita viðurlögum við því ef menn nota ekki bílbelti. Og reynslan af því hefur verið öll á sama veg. Notkun þessara öryggistækja hefur aukist mjög verulega og afstýrt fjölmörgum dauðaslysum og forðað fólki frá því að verða örkumla alla sína ævi.

Einhvern tíma var því borið við að ekki mætti samþykkja breytingu líka þessu vegna þess að umferðarlög væru í allsherjar endurskoðun. Þessi endurskoðun hefur tekið alllangan tíma, ótrúlega langan tíma og skil ég ekki hvers vegna ekki er hægt að samþykkja þessa breytingu þess vegna. Ég skil það ekki þegar ljóst er að meðan menn bíða eftir þessu deyja fjölmargir menn þess vegna, verða fjölmargir menn örkumla alla sína ævi þess vegna. Ég segi aðeins að mikil er ábyrgð þeirra manna sem koma í veg fyrir að þessi breyting verði gerð.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni. Ég bið hv. dm. að kynna sér grg. sem hefur ýmsar upplýsingar að geyma. Að endingu vil ég spyrja hæstv. dómsrh. hvernig standi á því að endurskoðun umferðarlaga skuli hafa dregist frá því í sept. 1980 og hvort hann kunni skýringar á því að frv. þetta var ekki samþykkt í Nd. í fyrra. En ég ítreka að mikil er ábyrgð þeirra sem standa í vegi fyrir því að þessi breyting verði gerð.