24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5652 í B-deild Alþingistíðinda. (4911)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í efnahagsaðgerðum ríkisstj. í maí 1983 var ákvæði sem bannaði verðbætur á laun í tvö ár og hvers konar vísitölutengingu launa. Þetta bann rennur út 31. maí n. k. Jafnframt er þess getið í stjórnarsáttmála að samráð muni verða haft við aðila vinnumarkaðarins áður en ákvörðun verður tekin um framlengingu þessa banns eða aðra skipan þessara mála. Fundir hafa verið með VSÍ og ASÍ og einnig rætt við formenn BSRB. Niðurstaða af þeim viðræðum varð sú að samkomulag varð um að láta við það sitja að fella úr lögum VIII. kafla laga um efnahagsmál frá 1979, þ. e. greinar 48–52 sem fjalla um verðbætur á laun. Þetta frv. er flutt til þess að standa við það samkomulag. Með því móti er aðilum vinnumarkaðarins frjálst að semja um verðbætur eða verðtengingu launa. Ég vil þó láta það koma fram að stjórnarflokkarnir og ríkisstj. telja að verðtenging launa í því formi sem áður var sé vægast sagt mjög vafasöm og við teljum að við Íslendingar höfum þá reynslu af slíku að ekki sé rétt að slík verðtenging verði tekin upp að nýju.

Hins vegar eru ýmsar aðrar leiðir til, rauð strik o. fl., sem um gegnir allt öðru máli. Ég vil ekki síst með hliðsjón af því samningstilboði, sem nú er komið fram, leggja áherslu á að þetta ákvæði um verðbætur á laun, sem nú er í lögum, verði fellt úr gildi. Samningsaðilar geta þá rætt um einhvers konar lausari viðmiðun ef þeir óska.

Um þetta mál varð samkomulag í hv. Nd. og málið afgreitt þar fljótt. Það er von mín að svo geti einnig orðið hér í hv. Ed. Ég sé svo, virðulegi forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.