24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5655 í B-deild Alþingistíðinda. (4917)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem skrifa undir nál. iðnn. Reyndar geri ég það með fyrirvara. Sá fyrirvari er til kominn vegna þess að ég er ekki alveg viss um að þetta sé rétt leið þó að ég vilji ekki standa í vegi fyrir því að heimamönnum verði seld verksmiðjan eða gefin verksmiðjan ef þeir vilja endilega fá hana. Reyndar kom það fram í umr. í iðnn. að heimamenn áttu ekki annars úrkosti, sú stefnumörkun var gerð af iðnrh. að hætta þessum rekstri eða gefa heimamönnum kost á að kaupa hana. Þeir völdu þann kost og hafa óskað eftir því að fá hana. Mér sýnist á þeim upplýsingum sem við fáum í frv. og reyndar komu fram á nefndarfundi að frekar sé um gjöf en sölu að ræða.

Reyndar er verksmiðjan lítils virði. Hún hefur verið rekin með miklu tapi og hefur miklar skuldir, en ríkið tekur að sér að greiða þessar skuldir. Hvað reksturinn varðar er allt í óvissu og því hlýtur maður að spyrja sjálfan sig að því hvort hér sé um hefndargjöf að ræða, hvort heimamönnum sé gerður nokkur greiði með því að gera þetta og þess vegna eru mínar efasemdir til komnar.

Það kom líka fram á nefndarfundi, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, að sá er mest hafði með þessi mál að gera áður taldi að mjög væru markaðsmálin í óvissu. Það væri hægt að framleiða ansi mikið en vöruþróun og markaðsmál væru í óvissu. Það verður til þess að menn spyrja: Hvert verður framhaldið ef þeim málum verður ekki sinnt? Ég legg á það afar þunga áherslu að heimamönnum verði leiðbeint af rn. um markaðsmál, þeir njóti aðstoðar rn. hvað varðar þau mál alveg eins og til stendur að gert verði gagnvart verktökum í þeim breytingum sem boðaðar eru á lögum um Orkustofnun. Ef þessir aðilar fá ekki slíka aðstoð óttast ég að hér sé um hefndargjöf að ræða.

Ekki efast ég um framtak heimamanna, ekki efast ég um dugnað þeirra, ekki efast ég um vilja þeirra. En það er alþekki staðreynd hér á Íslandi að menn hugsa meira um það að framleiða en selja, menn hugsa meira um puðið en markaðinn. Því verður að breyta og ég vona að það takist að gera það nú í framhaldi af samþykkt þessara laga gagnvart þessari verksmiðju. Fleira ætla ég ekki að segja um þetta en eftir stendur efasemd hjá mér um það hvort hér sé um hefndargjöf að ræða sem á endanum verði til þess að koma heimamönnum í mikla erfiðleika. Ég vona hins vegar að svo sé ekki og vil ekki standa í vegi fyrir því að þeir fái þetta keypt og að þeir geti af bjartsýni og dugnaði reynt að koma þessum málum til betri vegar.