24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5656 í B-deild Alþingistíðinda. (4918)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Hv. 6. landsk. þm. varpaði fram þeirri spurningu hvort hér væri um hefndargjöf að ræða af hendi ríkisins til heimamanna. Við skulum vona að það sé ekki. Ég fullyrði að þetta frv. er ekki fram borið og þessi málsmeðferð er ekki hugsuð í þeim anda. En hitt má vera að það sannist hér, sem stundum er rétt, að sælla er að gefa en þiggja.

Það er ekki rétt að taka svo til orða að heimamenn vilji þetta endilega. Heimamenn hefðu frekast kosið að geta haldið áfram rekstrinum á ábyrgð sama aðila og áður. En heimamenn standa frammi fyrir því að velja um hvort þeir vilja taka til hendi í þessu máli eða að reksturinn falli niður. Málið er svo einfalt og það liggur þannig fyrir. Hvernig heimamönnum tekst þetta er ekki hægt að fullyrða. En ég treysti engum heimamönnum hvar sem er á landinu betur en þessum mönnum til að gera sitt besta í því efni.

Hv. 5. þm. Vesturl. fannst mér hafa einhverja vantrú á heimamönnum. En hann verður að gá að því að þessir heimamenn eru norðan Breiðafjarðar í einu kjördæmi en ekki sunnan Breiðafjarðar ef hv. þm. tekur mið af því sem hann heldur að kunni að ske þar. Það er algjörlega ástæðulaust að vera með hrakspár í þessu efni. En það eru miklir erfiðleikar þarna. Og það getur enginn fullyrt um, hvorki ég né hv. 5. þm. Vesturl., hvernig þessi tilraun tekst. En við leggjum báðir til að frv. þetta verði samþykki og við vonum og viljum treysta því að þetta fari bærilega úr hendi.

Það er alveg rétt sem hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 6. landsk. þm. viku að að markaðsöflunin er mikið vandamál í þessu efni. En það vandamál er hvorki meira né minna hvort sem heimamenn stjórna þessum málum eða ekki. Hverjir þeir sem stjórna þessu verða að leita bestu aðferða í markaðsöflun og væntanlega njóta aðstoðar og þjónustu þeirra aðila sem best er treystandi og hafa sérfræðiþekkingu og reynslu í markaðsmálum.

Ég vil ekki að þessi orð mín séu skilin þannig að vandalaust sé að taka við þessu verki, það er síður en svo. Ég tek undir það sem hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 6. landsk. þm. sögðu um þennan vanda sem þarna er á ferðum. En við verðum að óreyndu — svo ég taki svo til orða — að vænta þess að fengist verði við þetta mál af þeim myndarskap sem nauðsynlegt er.

Hv. 4. þm. Vesturl. lét þess getið að honum hefði ekki borist í hendur skýrsla stjórnar þörungaverksmiðjunnar sem flutt var á síðasta aðalfundi. Mér hefur ekki heldur borist þessi skýrsla í hendur og ég hygg að engir af nm. í hv. iðnn. hafi fengið þessa skýrslu. Ég er ekki viss um að þessi skýrsla ráði miklu um það hvaða afstöðu menn endanlega taka í þessu máli. Hins vegar er það ekki óeðlilegt, fyrst okkur hefur verið lofað þessari skýrslu, að við fáum hana í hendur og getum athugað hana áður en málið er endanlega afgreitt úr þessari hv. þingdeild. Ég geri ekki ráð fyrir að hér ljúki í dag nema 2. umr. og við getum skoðað þessa skýrslu milli 2. og 3. umr.