24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5657 í B-deild Alþingistíðinda. (4919)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég heyrði á ræðu hv. 4. þm. Vestf. að oft er það svo að kristilegu kærleiksblómin spretta í kringum hitt og þetta. En ég ræddi aðeins um markaðsmálin hér áðan og það vill svo til að hann sannaði það hér í ræðustóli að Reykhólar eru í hans kjördæmi. Þá langar mig til að spyrja hann að því hvort hann muni beita sér fyrir því að þeir sem nú eignast eða taka við Þörungavinnslunni muni fá aðstoð sem þarf til að sinna markaðsmálum fyrirtækisins, fái að njóta þeirrar þekkingar sem nú er einkum til í Háskólanum og hjá öðrum stofnunum sem eru undir ríkinu eða fái aðgang að því fólki sem áður starfaði í þessu og ríkið greiði því þá eða láni þeim það þangað til árangur hefur náðst.

Ég tók það fram hér áðan — svo að það verði enginn misskilningur — að ég skrifaði undir þetta nál. og er þess vegna samþykkur því að þetta verði gert, enda eiga heimamenn ekki annars úrkosti eins og kom fram hér áðan líka. En ég óttast það og skrifa því undir með fyrirvara að þetta verði hefndargjöf ef markaðsmálunum og vöruþróun verður ekki sinnt.

Ég hlustaði á fyrrum forustumann Þörungavinnslunnar greina frá áhyggjum sínum í þessum efnum og þess vegna eru þessar áhyggjur tilkomnar hjá okkur að mér finnst ábyrgðarhluti að afgreiða þetta frv. án þess að ljóst sé að þeir aðilar, sem hér eru dæmdir til að fá þessa verksmiðju, fái einhverja tilsögn.