24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5657 í B-deild Alþingistíðinda. (4920)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég geri fremur ráð fyrir því að hv. 4. þm. Vestf. hafi mælt í gamansemi þegar hann vék orðum sínum að þeim sem hér stendur og hélt því jafnvel fram að ég hefði ekki næga tiltrú til íbúa Austur-Barðastrandarsýslu. Það er nú síður er svo, ég hef mikla tiltrú á því ágæta fólki og ekki einkennilegt, enda er sá sem hér stendur ættaður að hluta til úr þessum byggðum, byggðum Breiðafjarðar.

En út af því sem hér hefur komið fram og hv. 6. landsk. þm. vék að að hér væri hugsanlega um hefndaraðgerðir að ræða vil ég sérstaklega taka fram þann skilning minn varðandi þessi ummæli að þetta frv. er að sjálfsögðu alls ekki lagt fram, a. m. k. að mínum dómi, í einhverjum hefndarhug, það er fjarri því. Svo illt hygg ég ekki um hæstv. iðnrh.

En að síðustu, virðulegi forseti, vil ég ekki leggja að jöfnu raunsæi og hrakspár. Ég tel nauðsynlegt að í svona málum reyni menn að velta sem flestum hliðum þeirra upp og sýni af sér lágmarks raunsæi.