24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5658 í B-deild Alþingistíðinda. (4921)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Hv. 6. landsk. þm. beindi þeirri spurningu til mín hvort ég mundi vilja aðstoða heimamenn í því að þeir fengju þá aðstoð af opinberri hálfu sem nauðsynleg væri til þess að fara með markaðsmál og vöruþróun þörungaverksmiðju. Ég vil aðeins segja um þetta að ég svara því játandi. Ég mun að sjálfsögðu gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að þessi tilraun takist. Það er auðvitað takmarkað sem einn þm. getur gert í þessu efni. En það er enginn vafi á því að mig skortir ekki vilja í þessu efni.

Hv. 5. þm. Vesturl. vék nokkuð að þeim orðum sem ég beindi til hans hér í fyrri ræðu minni og það sem hann sagði um það var allt rétt til getið. En hv. þm. upplýsti að hann væri ættaður af þessum slóðum úr Breiðafirði. Þá veit ég það að við erum báðir ættaðir af sömu slóðum. Það þýðir að það verður ekkert gert upp á milli okkar um velvilja í garð þörungaverksmiðjunnar.