24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5658 í B-deild Alþingistíðinda. (4923)

488. mál, orkulög

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar og leggur til að það verði samþykkt. Einn nm., Stefán Benediktsson, var fjarstaddur afgreiðslu málsins þar sem hann var erlendis þegar málið var afgreitt úr nefndinni.

Þetta frv. fjallar um tvennt. Það er annars vegar að gert er ráð fyrir að lögfest verði ákvæði um stjórn Orkustofnunar. Á liðnum árum hafa verið skipaðir fyrir stofnunina menn í sérstaka stjórn til tveggja ára í senn og það er talið hafa gefið góða raun. Um þetta hefur ekki verið ákvæði í lögum en nú er gert ráð fyrir að lögfesta þessa skipan.

Hitt atriðið, sem frv. þetta fjallar um, er að ráðh. verði veitt heimild til að stofna hlutafélag er lúti stjórn Orkustofnunar og hafi það hlutverk að markaðsfæra erlendis þá þekkingu sem Orkustofnun ræður yfir á sviði jarðhitamála, vatnsorkurannsókna og áætlanagerðar í orkumálum.

Hér er um nýjung að ræða. Það er talið að einmitt þetta geti haft verulega þýðingu fyrir okkur til þess að gera að markaðsvöru þá sérþekkingu sem við höfum á orkumálum og hér þarf ekki að fjölyrða um. Við 1. umr. málsins var gerð ítarleg grein fyrir þessum þætti málsins og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar var sagt og hæstv. iðnrh. gerði sérstaklega grein fyrir.

Ég ítreka að hv. iðnn. leggur til að frv. verði samþykkt.