05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

129. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég get því miður ekki svarað spurningu hv. 6. landsk. þm., af hverju þetta frv. strandaði í hv. Nd. í fyrra. Ég varð fyrir því eins og fleiri, kannske flestir þm., að það strönduðu í nefndum frv. sem ég flutti í fyrra og lágu sjálfsagt ýmsar ástæður þar að baki. En ég lagði síður en svo stein í götu þessa frv. Ég greiddi því atkv. í fyrra í þessari hv. deild.

Spurningunni um endurskoðun umferðarlaganna skal ég hins vegar svara. Allt frá því að ég tók að mér embætti dómsmrh. hef ég reynt að ýta fram þessari endurskoðun, sem ég hélt satt að segja að væri miklu lengra á veg komin en hún var. Hún hefur þó þokast það áfram að ég hygg að ef ekki hefði komið til verkfalls opinberra starfsmanna í síðasta mánuði væri henni lokið nú. Ég var síðast í morgun að ræða þetta og reyna að fá því framgengt að lokið yrði við verkið í þessari viku. Ég skal ekki segja hvort það tekst. En þetta er sem sagt nú alveg á lokastigi. Það hefur tekið miklu lengri tíma en ég vonaði að það gerði, en farið hefur verið mjög ítarlega yfir lögin og ég vænti þess að þetta verk sé því mjög vandlega unnið eins og Alþingi væntanlega gefst kostur á að sjá innan skamms.