28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5670 í B-deild Alþingistíðinda. (4943)

383. mál, upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingarmál

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem er 383. mál þingsins og er á þskj. 612. Flm. auk mín eru þeir hv. þm. Eiður Guðnason, Davíð Aðalsteinsson, Sigríður Þorvaldsdóttir, Geir Gunnarsson og Birgir Ísl. Gunnarsson. Þessi þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd til að skipuleggja og hrinda í framkvæmd því verkefni að efla upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingarmál til almennings og aðila í byggingariðnaði með eftirtöldum hætti:

1. útgáfu handbóka,

2. námskeiðahaldi,

3. söfnun tölvutækra gagna,

4. öðrum aðferðum við söfnun og miðlun upplýsinga sem hentugar þykja.“

Síðan eru gerðar tillögur um hvaðan nm. skuli koma. Þessi till. er endurflutt frá síðasta þingi. Þá hlaut hún ekki fullnaðarafgreiðslu, en umsagnir bárust hins vegar um hana. Það barst um hana þá umsögn frá Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem mælt var með samþykkt hennar. Það kom umsögn frá Rannsóknaráði ríkisins þar sem sömuleiðis var mælt með samþykkt. Það kom umsögn frá Landssambandi iðnaðannanna sem einnig mælti með samþykkt, en benti á að brýnt væri að verkefnið væri skilgreint betur en gert er í till. Það kom umsögn frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem byrjar svo, með leyfi forseta:

„Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins styður efnislega hugmynd flm. um nefnd til eflingar upplýsingamiðlunar í húsnæðis- og byggingarmálum. enda verði nefndin fjármögnuð og störf hennar skipulögð þannig að þau trufli ekki framvindu í stofnunum byggingarstarfseminnar.“

Síðan er í þeirri umsögn fjallað nánar um hvaða starfsemi Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafi þegar með höndum sem sé kannske að sumu leyti skyld, en efnislega alls ekki lagst gegn þessari till.

Ég ætla ekki að hafa langt mál við framsöguna núna, ég ræddi þetta mál í fyrra. Ég tel að það sé mjög brýnt að menn hugi að einu atriði, sem ekki hefur mjög verið umrætt í húsnæðismálum landans að undanförnu, og það er húsnæðiskostnaður. Menn hafa einblínt — og kannske eðlilega — á það að útvega meira fé til húsnæðislána til að fjármagna þær byggingar sem fólk hefur þegar hafið eða hyggst hefja á næstunni, en mér finnst gjarnan gleymast sá liðurinn sem er húsnæðiskostnaðurinn eða byggingarkostnaðurinn sjálfur. Ýmis efnisleg rök hníga að því að byggingarkostnaður sé óhóflega hár á Íslandi og það er mjög mikilvægt að á sama tíma og menn huga að því að afla fjár til þess að gera húsnæðislánamarkaðinn manneskjulegan, sinni menn líka því verkefninu að lækka byggingarkostnaðinn til að minnka þörfina á lánsfé til þessara hluta.

Á undanförnum árum hafa orðið gífurlegar framfarir í byggingaraðferðum, bæði hérlendis og erlendis. Samt sýnist manni allt of víða verið að beita a. m. k. áratuga gömlum aðferðum við byggingar, aðferðum sem við vitum að eru mjög dýrar og í mörgum tilfellum úreltar. Þess vegna er gerð tillaga um það hér að gera að því gangskör að safna saman þeim upplýsingum sem til eru um húsnæðis- og byggingarmál, meta þær til nytsemi og dreifa þeim síðan á virkan hátt til fólks Það er að mati flm. nauðsynlegt á þessum tímum þegar húsnæðisþröngin er orðin svo mikil sem raun ber vitni.

Hérna er ekki einungis um það að ræða að nýjar hugmyndir hafi komið upp í sambandi við byggingaraðferðir, heldur líka nýjar hugmyndir um gerð húsa sem ráða stórkostlega miklu um reksturskostnað þeirra. Þar er kannske hita- og upphitunarkostnaður mikilvægastur. Hér hafa verið á reiki í nokkur ár hugmyndir um breyttar byggingaraðferðir sem munu spara stórkostlega í reksturskostnaði við upphitun húsa. Þetta eru aðferðir sem ekki hafa verið nægilega kynntar og þeim hefur ekki verið nægilega hampað að mínu mati a. m. k. Ég held að það sé full ástæða til þess að gera gangskör að því að taka á þessum kostnaðarþáttum við byggingu og rekstur húsnæðis.

Við lestur grg. kemur í ljós að lögð er mikil áhersla á að þegar þessum gögnum hefur verið safnað verði þau véltæk eða verði þannig að hægt sé að nálgast upplýsingarnar með tölvum. Það er einmitt einkenni upplýsingabyltingarinnar margumtöluðu. Einkenni upplýsingabyltingarinnar er sem sé ekki aðallega að upplýsingar hafi safnast saman svo mjög á undanförnum árum, heldur eru þær aðgengilegri og það er auðveldara að dreifa þeim en nokkru sinni fyrr. Um það snýst málið að okkar mati.

Að loknum fyrri hl. þessarar umr. mæli ég með að till. verði vísað til atvmn. Sþ.