28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5674 í B-deild Alþingistíðinda. (4948)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að koma hingað upp eins og hv. síðasti ræðumaður og endurtaka það sem ég er þegar búinn að segja eins og hann gerði með því að endurtaka það sem hann sagði í frumræðu sinni.

Dagblöðunum er ekki gert skylt að innheimta söluskatt, þannig að þar er enginn söluskattur til að skila. Ríkisútvarpinu er gert skylt að innheimta söluskatt fyrir ríkissjóð. Þar af leiðandi ber að skila þeim söluskattstekjum. Dagblöðunum er einfaldlega ekki gert að innheimta söluskatt. Það er ekki verið að mismuna þarna á neinn annan hátt.

Ef það er meining hv. þm. að Ríkisútvarpið sitji við sama borð meinar hann að fella eigi niður þá kvöð, sem er á Ríkisútvarpinu, að innheimta söluskatt. Ég hef skilið hans hugsun þannig að það eigi að ætla Ríkisútvarpinu þær söluskattstekjur sem Ríkisútvarpið innheimtir sem viðbótarframlag frá Alþingi til að standa undir frekari rekstri Ríkisútvarpsins. Ég vona að ég hafi ekki misskilið það.

Aftur á móti verð ég að segja sem einn af notendum Ríkisútvarpsins að ég óska ekki eftir því að fá meiri auglýsingar í Ríkisútvarpið. Eftir að Ríkisútvarpið jók starfsemi sína með Rás 2, þar sem eru auglýsingar, sé ég ekki annað en að þær hafi tvöfaldast a. m. k. Það eru auglýsingar á báðum rásum. Þær hafa ekkert minnkað á Rás 1 þó að Rás 2 hafi komið. Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins eru því verulegar. En ef menn vilja minnka ríkissjóðstekjurnar á þennan hátt þannig að auglýsingar verði ódýrari, þá get ég ekki séð að það sé þjóðinni í hag að þær verði meiri en þær eru í dag á þeirri dagskrá sem Ríkisútvarpið nú kynnir.