28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5686 í B-deild Alþingistíðinda. (4962)

477. mál, jarðhiti í heilsubótarskyni

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir efni þessarar till. og þakka flm. fyrir að ýta við þessu máli. Ég hef einmitt lengi haft mikinn áhuga á því, eins og m. a. kemur fram í grg. með till. um eflingu ferðaþjónustu sem birt er á þskj. 810, en þar segir m. a. að eitt af því sem hafa beri í huga við uppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi sé nýting náttúrlegra aðstæðna til þess að reisa heilsustöðvar og að stefna beri að því að bjóða útlendingum þjónustu á sviði heilsuræktar og lækninga. Þetta ræddi ég reyndar ögn ítarlegar í umr. um þessa till. mína og fimm annarra þm. fyrir nokkrum dögum. Því miður voru afar fáir þm. viðstaddir þá umr.. heldur færri m. a. s. en núna, enda fór hún fram á kvöldfundi. en þeir sem til staðar voru sýndu henni mikinn áhuga. Sex þm. tóku til máls eða mikill meiri hluti þeirra sem viðstaddir voru, þrír stjórnarþm. og þrír stjórnarandstöðu, svo að þar hallaðist nú ekki á. Þeirra viðbrögð voru jákvæð. Mér er kunnugt um að ferðamálafrömuðum er það mikill léttir að rofin hafi verið löng þögn Alþingis um þessa atvinnugrein sem virðist sérlega vænleg og gróskumikil um þessar mundir. Í grg. með þeirri till. sem hér er á dagskrá um nýtingu jarðhita og í máli hv. 1. flm. hér áðan er mjög tekið í sama streng. Ég sé ekki ástæðu til að eyða dýrmætum tíma þingsins í að ræða þetta frekar. Ég kom aðeins hingað upp til að lýsa stuðningi við þessa till. og taka undir meginefni hennar.