28.05.1985
Efri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5691 í B-deild Alþingistíðinda. (4965)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur tekið frv. þetta til rækilegrar meðferðar. M. a. leitaði iðnn. eftir umsögnum ýmissa aðila um frv. og bárust henni nokkrar umsagnir. Er þar fyrst að telja umsögn frá stjórn Sementsverksmiðju ríkisins, en þar eru menn ekki sammála um frv. þetta. Fjórir stjórnarmenn mæla gegn samþykki frv. en einn stjórnarmaður, formaður fyrirtækisins, mælir með samþykkt þess.

Þá barst umsögn frá Starfsmannafélagi Sementsverksmiðju ríkisins. Þar kemur fram að þetta félag fagnar því að Alþingi skuli ætla að setja löggjöf um Sementsverksmiðju ríkisins. En þar er ekki talið að nægileg rök styðji það að breyta fyrirtækinu í hlutafélag.

Frá bæjarstjóranum á Akranesi barst nefndinni bréf og umsögn. Bæjarstjórinn taldi rétt að takmarka umsögn sína við þau ákvæði frv. sem beinlínis snerta bæjarsjóð Akraness og vísaði í því sambandi sérstaklega til 5. gr. frv. þar sem kveðið er á um að fyrirtækið skuli greiða landsútsvar er nemi 1% af aðstöðugjaldsstofni. Telur bæjarstjórinn að í þessu efni sé ekki nægilega gætt hagsmuna bæjarfélagsins.

Þá barst nefndinni og umsögn Sambands byggingarmanna. Niðurstaðan af því sem stendur í bréfi Sambands byggingarmanna er sú að aðrar leiðir séu æskilegri en sala hlutafjár í félagi um sementsverksmiðju án þess að með nokkru móti sé ljóst hvort notendur sements eða varnings sem inniheldur sement hafi áhuga á að gerast hluthafar. Það getur því ekki talist að um meðmæli með samþykki frv. sé að ræða hjá Sambandi byggingarmanna.

Ég sagði í upphafi að n. hefði rækilega athugað frv. En n. komst ekki að samkomulagi um frv. Meiri hl. n. leggur fram nál. á þskj. 972 þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt. Í meiri hl. n. og að þessu nál. standa Þorv. Garðar Kristjánsson, Egill Jónsson, Björn Dagbjartsson og Stefán Benediktsson.

Ég skal ekki hér fara að ræða ítarlega efni frv., það var rækilega gert við 1. umr. af hæstv. iðnrh. Með frv. þessu er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Sementsverksmiðjunnar. Það er talið rökrétt og eðlilegt að velja hlutafélagsformið um atvinnurekstur á vegum ríkisins. Hlutafélagsformið er bæði viðurkennt og vel þekki félagaform, sem löggjafinn hefur sett ítarlegar reglur um eins og kunnugt er. Í þeirri löggjöf eru nákvæmar reglur um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Þess má og geta að í hlutafélagalögum eru ákvæði er vernda rétt minni hluta eigenda. Þar sem ríkið býður öðrum samstarf er því alveg sérstaklega viðeigandi að nota hlutafélagsformið. Það er þetta sjónarmið hæstv. ríkisstj. sem meiri hl. hv. iðnn. hefur fallist á, en hér er um stjfrv. að ræða.

Meiri hl. hefur gert eina brtt. sem er að finna á þskj. 973. Sú brtt. er við 3. gr. frv. og fjallar um það að á eftir fyrra málslið komi nýr málsliður er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki ná til starfsmanna fyrirtækisins.“

Hér er um að ræða brtt. sem gerð er skv. ábendingu iðnrn. og nánast má líta svo á að það hafi láðst við samningu frv. að hafa þetta ákvæði með í frv. eins og það var lagt fram. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum nú í framsögu fyrir nál. meiri hl. iðnn. um þetta mál.