05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

129. mál, umferðarlög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til umhugsunar. Ég er flm. að þessari till. og tel að þegar sé búið að flytja þau rök sem ættu að nægja til þess að sannfæra menn um gildi hennar. Bifreiðar eru í dag orðnar nánast lífsnauðsyn. Í nútímasamfélagi þarf mannskepnan á þessum aukna hreyfanleika að halda til þess að geta verið sæmilega virkur þátttakandi í þjóðlífi. Bifreiðar auka á þá áhættu sem menn taka yfirleitt með lífi sínu vegna þess að þær eru ekki allt of örugg farartæki. Bílbeltin eru ákveðin leið til þess að draga úr þessu óöryggi í umferðinni vegna þess fjölda óhappa sem verða á ári hverju í umferð.

Bílbeltin gera sitt gagn. Það fer ekkert á milli mála. Langstærstur hluti umferðaróhappa á sér þannig stað að bifreiðin sjálf skemmist ekki nema lítillega, en afleiðingar af árekstri eða annars konar óhöppum geta valdið stórskaða á fólki þegar það ekki notar bílbeltin. Aftur á móti hafa verið tínd hér til dæmi sem eru alveg rökstyðjanleg um það að miðað við þær gerðir bifreiða sem við yfirleitt notum getur það jafnvel aukið á líkurnar á því að menn slasist alvarlega eða jafnvel týni lífi að vera með bílbelti.

Þá erum við kannske komin að því sem ég ætlaði að minnast á. Við Íslendingar erum ekkert allt of gjarnir á að fara aðrar leiðir í ýmsum málum en nágrannar okkar, en við gætum hugsanlega af öryggisástæðum hugleitt það að fara hér svolítið aðra leið en nágrannar okkar gera og hreint og beint bara gera það að skyldu við innflutning og sölu á bifreiðum hérlendis að þær séu með öryggisgrindum eða styrktum burðargrindum. Við þær sérstöku aðstæður sem við búum við hérna með þessa dreifðu byggð út um allt land og mjög misjafna fjallvegi þar sem hættur á bílveltum og útafkeyrslum eru meiri en þekkist meðal nágranna okkar, skapar slíkur búnaður einfaldlega það öryggi að bifreiðarnar haldist í því formi við slík slys að líftrygging bílbeltanna komi að gagni. En aðalvandinn er sá að maður með bílbelti inni í bifreið sem leggst gersamlega saman við veltu eða mjög harðan árekstur, á erfitt með að koma sér undan slíkri hættu. Ég hef í raun og veru ekki hugleitt þessa hluti út í æsar, en þó segja mér menn, sem hér hafa stundað svokallaðan rallý-akstur, að framleiðsla og ísetning grinda af þessu tagi sé ekki það mikið fyrirtæki að það þyrfti að auka verð bifreiða ýkja mikið. Ríkisvaldið gæti þá hugsanlega komið á móti mönnum í því að létta aðeins á sínum tollum til að lækka verð bifreiðanna með öryggissjónarmið í huga.