05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

129. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að fram komi aftur það sem ég sagði áðan að þetta væri óumdeilanlegt öryggisatriði í yfirgnæfandi tilfella. Ég legg áherslu á það. Það fær mig hins vegar ekkert til þess að hætta að hugleiða þau tilfelli sem ég hygg að ég geti tíundað með þokkalegri samvisku um það að þessi alhæfing eigi ekki alltaf við. Ég tel það miklu frekar skyldu mína, einmitt þegar ég lýsi yfir fortakslausum stuðningi við þessa notkun og viðurlög við því að beltin séu ekki notuð, að minna þó á þessi atriði. Sérfræðileg sönnun utan úr löndum hamlar mér ekki í því að segja það sem samviskan býður mér um það að alhæfing þessi eigi ekki fullkomlega við. Ég lýsi því aðeins yfir.

Ég dreg nefnilega ekkert úr gildi bílbeltanna í langflestum tilfellum. Ég segi þetta einmitt hér vegna þess að ég hafði miklu meiri efasemdir uppi um þetta á þeim tíma sem þessi lögleiðing fór hér fram og var með ýmis dæmi þá sem fróðir aðilar höfðu þá fengið mér í hendur um hið gagnstæða.

Ég vil hins vegar aðeins segja það almennt að varðandi umferðarmál okkar í heild þá hljóta bílbeltin að vera bara einn þáttur, að vísu veigamikill þáttur. Vankantarnir eru nefnilega það margir að það verður aldrei of mikið gert til úrbóta með markvissri fræðslu, með ákveðnum áróðri, með betri löggjöf, sem þá yrði reynt að tryggja að yrði haldin betur en núverandi umferðarlöggjöf. Okkur vantar ekki fyrst og fremst nýja umferðarlöggjöf og fyllri, heldur að sú umferðarlöggjöf sem í gildi er sé haldin og menn fari nokkurn veginn eftir henni. Það er því miður ekki svo eins og menn vita í allt of mörgum tilfellum.

Ég skal ekki tíunda nein frekari dæmi hér, en ég áskil mér allan rétt til að tíunda þau hvenær sem ég þykist viss um að þau séu sönn. En það breytir engu um það að undantekningar í þessum tilfellum geta sannað þá meginreglu að bílbelti skuli nota.