28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5707 í B-deild Alþingistíðinda. (4987)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar fjh.- og viðskn. þessarar deildar fór að athuga frv. á þskj. 550 um breytingu á lögum um verslunaratvinnu varð það niðurstaða okkar að í rauninni væri mjög óeðlilegt að setja reglur um myndbandaleigur inn í lögin um verslunaratvinnu. Ég taldi og tel að þessi ákvæði eigi þar ekki heima vegna þess að lögin um verslunaratvinnu fjalla eingöngu um verslun en ekki um leigu lausafjármuna.

Í gildi eru í landinu lög frá 1979 um sölu notaðra lausafjármuna og í gildi eru lög um lausafjárkaup. Engin lagaákvæði eru til um leigu lausafjármuna. Þess vegna hefur það verið þannig, að fyrirtæki sem hafa starfað við að leigja út þjónustu og vörur hafa ekki verið starfrækt á grundvelli neinna laga. Í þeim efnum nefni ég bílaleigur, áhaldaleigur, bátaleigur og nú síðast myndbandaleigur.

Þegar frv. kom frá hæstv. ríkisstj. voru tekin af tvímæli um það í tillögum ríkisstj. að leiga lausafjármuna í atvinnuskyni telst einnig verslun skv. lögum þessum. Frv. frá ríkisstj. var þess vegna mjög víðtækt og náði til hvers konar leigustarfsemi. Þegar Ed. fór að skoða frv. varð það niðurstaða Ed., og ég var sammála þeirri niðurstöðu, að þetta ákvæði væri of víðtækt vegna þess að ef það væri túlkað bókstaflega næði það einnig t. d. til bókasafna, það væri verið að gera kröfu um það að til þess að geta rekið bókasöfn yrði að vera til staðar verslunarleyfi. Þess vegna breytti hv. Ed. frv. á þann veg sem fram kemur á þskj. 919 þar Sem segir: „Lög þessi taka einnig til leigu myndbanda.“

Þar með er verið að segja að lögin um verslunaratvinnu eigi einungis að taka til eins þáttar í leigustarfsemi á lausafjármunum, þ. e. til leigu myndbanda. Ég tel að óeðlilegt sé að löggjafinn standi þannig að málum, þetta sé óeðlilegt og passi ekki inn í lögin um verslunaratvinnu. Af þeim ástæðum, herra forseti, hef ég lagt til á þskj. 981 eftirfarandi:

„1. minni hl. n. telur eðlilegra að menntmrh. setji reglur um starfsemi myndbandaleiga.“

Ég tel sem sagt að þetta sé málefni sem eigi að heyra undir menntmrh. frekar en viðskrh.

„Þess vegna flytur 1. minni hl. n. nýtt frv. í stað frv. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu. Þá leggur 1. minni hl. til að þessu frv. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu verði vísað til ríkisstj. en frv. á þskj. 982 um breyt. á lögum um kvikmyndamál verði samþykkt í stað þess.

Guðrún Agnarsdóttir, sem sat fundi n., er samþykk nál. þessu.“

Af þessum ástæðum höfum við lagt fram á þskj. 982 515. mál þingsins sem er frv. til 1. um breyt. á lögum um kvikmyndamál. Flm. þess eru Svavar Gestsson og Guðrún Agnarsdóttir. Frv. er á þessa leið:

„Myndbandaleigur þurfa leyfi til starfsemi sinnar. Menntmrh. ákveður hver skráir leyfin, enda fullnægi leyfishafi a. m. k. skilyrðum laga um verslunaratvinnu nr. 41/1968. Getur ráðh. samið við viðskrh. um að skrá leyfi fyrir myndabandaleigu samhliða skráningu verslunarleyfa.

Gjald fyrir starfsleyfi myndbandaleiga skal vera hið sama og greitt er fyrir verslunarleyfi. Gjaldið rennur í Kvikmyndasjóð.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frv. þetta er sem sagt flutt í beinu framhaldi af frv. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu vegna þess að við viðurkennum að það er eðlilegt að opinberir aðilar hlutist til um skráningu á starfsemi myndbandaleiga og skapi þeim aðhald og forsendur til eftirlits. Það er þess vegna okkar niðurstaða, mín og hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, að leggja til að þessu frv. verði vísað til ríkisstj., en í staðinn verði samþykkt frv. á þskj. 982.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og jafnframt frv. til l. um breyt. á lögum um kvikmyndamál á þskj. 982 og óskað eftir að það verði litið á þessa ræðu sem framsöguræðu líka fyrir því frv. og að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.