28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5718 í B-deild Alþingistíðinda. (4999)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til breyt. á lögum um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni. Frv. þetta var lagt fyrir hv. Ed. og er þaðan komið með þeirri breytingu einni að þar var sett inn svokallað sólarlagsákvæði, þ. e. að allshn. Ed. leit svo á að þessum lögum skyldi marka ákveðið lífshlaup eins og gert var í þeim lögum sem þau eiga að koma í staðinn fyrir. Ég veit ekki hvort það er til beinnar fyrirmyndar að setja slíkt ákvæði inn í löggjöf almennt, en það ætti þó ekki að saka í þessu tilviki.

Það hefur verið fjallað um þetta mál í allshn. Nd. og virtust allir vera á einu máli um að samþykkja eða leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá hv. Ed., enda rita allir undir nál. án fyrirvara. En hér áðan sá ég að hv. 4. landsk. þm. hefur flutt brtt. við þetta mál sem gefur að líta á þskj. 1020. Það er brtt. sem varðar eitt atriði málsins sem ég tel nú ekki skipta miklu máli satt að segja. Eigi að síður stóð ég í þeirri meiningu að allir nm. væru á einu máli í þessu efni.

Við höfðum sama hátt á og Ed. að við kölluðum á okkar fund eða n. kallaði á sinn fund formann og ritara hinnar svonefndu tölvunefndar, þ. e. Benedikt Sigurjónsson fyrrv. hæstaréttardómara og Hjalta Zóphaníasson deildarstjóra í dóms- og kirkjumrn. Gáfu þeir okkur ýmsar góðar og mikilvægar upplýsingar.

Eins og kunnugt er var tölvunefndin sett á stofn samkv. lögum nr. 63 frá 5. júní 1981. En lög þessi varð, eins og ég sagði, að endurskoða nú til þess að löggjöfin félli ekki niður um næstu áramót. Þeir formaður og ritari nefndarinnar greindu frá því að nefndin hefði að þessu sinni aðeins gert þær breytingar sem tölvunefnd öll varð sammála um og koma heim við þá reynslu sem hún hefur öðlast við starf sitt s. l. þrjú ár. Sá háttur hefur verið á hafður að formaður tölvunefndar hefur jafnan látið kalla á nefndarfundi bæði aðalmenn og varamenn svo að þessir sexmenningar, eru um málin hafa fjallað, eru orðnir þeim mjög kunnugir. Þeir lögðu til þær breytingar sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Um þessi mál má svo segja eitt og annað almennt. Það er enginn maður einn í heiminum. Enginn maður nú á tímum fær lifað svo að ekkert sé um hann vitað. Margs konar upplýsingar eru skráðar um hvern einstakling sem fylgja honum eins og skugginn allt frá vöggu til grafar. Á hinni miklu tækni- og tölvuöld þegar hægt er að safna öllum hugsanlegum upplýsingum af slíku tagi saman um hvern einstakling og geyma þær von úr viti og framvísa þeim, leggja þær á borðið við ýmis tækifæri, hefur þótt nauðsynlegt í flestum lýðfrjálsum löndum að setja einhverjar reglur um þessi efni, þ. e. að leitast við að vernda einstaklinginn, að hann þurfi ekki að ætla því að standa uppi berskjaldaður og varnarlaus hvar og hvernig sem á stendur gegn upplýsingum sem hampað er og hafðar eru á lofti um hann sjálfan. Í þessu efni má minna á skyld ákvæði, t. d. 237. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir svo:

„Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum þótt hann segi satt.“ Margt fleira mætti segja um þetta mál almennt. Að mínum dómi hefur tölvunefndin starfað vel og samviskusamlega að þessum málum. Það varð að ráði, þegar þessi löggjöf var sett, að hafa hana einfalda, mun einfaldari en víða í sumum nágrannalöndum okkar. Það er satt að segja hægt að hafa hana miklu ítarlegri og viðameiri en hún er hér á landi, en þá verður framkvæmdin í samræmi við það. Ber að forðast að hlaða upp óþarfa skjalabunkum í kringum þessi efni. Að mínum dómi er alveg bráðnauðsynlegt að hafa þetta einföld og skýr ákvæði. Framkvæmdin verður þá í samræmi við það.

Þessu hefur tölvunefnd fylgt að minni hyggju. Ég er hérna með í höndunum ársskýrslu tölvunefndar frá 1984 og ég ætla að leyfa mér að lesa upp nokkrar setningar úr formála hennar, með leyfi forseta. Þar segir svo:

„Nefndin sendir nú frá sér þriðju ársskýrslu sína. Nálgast nú lok gildistíma laga nr. 63/1981 og starfsferils þeirra manna sem skipað hafa þessa tölvunefnd frá upphafi. Hér hefur verið um frumraun að ræða og án efa hefur nefndinni misheppnast margt. Þegar það er metið verður að gæta hinnar öru þróunar. sem orðið hefur á þessu sviði, á þessum skamma tíma. Það skal þó endurtekið að samvinna við tölvuþjónustufyrirtæki og skráningaraðila hefur gengið vel og klögumál hins almenna þegns eru mjög fá. Má nefndin una þessu vel.“

Undir þessi orð tölvunefndar get ég tekið í einu og öllu. Með hliðsjón af því sem ég hef nú sagt verð ég að lýsa því yfir að ég get ekki stutt brtt. hv. 4. landsk. þm. á þskj. 1020, en legg á hinn bóginn til fyrir hönd nm. að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kinn frá hv. Ed.