28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5719 í B-deild Alþingistíðinda. (5000)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég stend að þessu nál. ásamt öðrum nm. í hv. allshn. og þannig tek ég eindregið undir meginefni frv., en ég hef flutt brtt. eina sem ég tel að mundi bæta þessi lög, ef samþykki verða, hnykkja kannske betur á um framkvæmd þeirra.

Upplýsingar hafa alltaf verið til og mikið af þeim upplýsingum sem nú er verið að mynda skjaldborg um til þess að ekki verði einstaklingum til tjóns eru ekki nýjar upplýsingar. Það hafa alltaf verið til upplýsingar um einkahagi manna. Þær hafa verið til í plöggum og alls kyns skrám. En þær verða hvorki til gagns né ógagns fyrr en þeim hefur verið raðað saman í eina mynd, eina heild. Við getum tekið dæmi. Í vísindatímaritum út um allt eru brot af upplýsingum um allt milli himins og jarðar. Sá sem tæki sér fyrir hendur að safna saman upplýsingum sem eru til um t. d. kjarnorkunotkun gæti búið til kjarnorkusprengju. Hann gæti búið til alls konar víg- og varnarkerfi gegn njósnum, gegn því að upplýsingar berist út. Upplýsingarnar eru sem sagt til. Málið er það að tengja þarf þær saman til þess að það verði til gagns eða ógagns. Kúnstin er að safna þeim. Kúnstin er að tengja þær saman og láta staðreyndir og þekkingu þannig vinna saman og frjóvgast. Um það snýst upplýsingabyltingin margumtalaða.

Eins og ég sagði í byrjun hafa ávallt verið til upplýsingar um einkahagi einstaklingsins. Þær hafa í mörgum tilfellum verið illa varðar. Það eru upplýsingar um t. d. skólagöngu, það eru upplýsingar um menn hjá vinnuveitendum þeirra, það eru upplýsingar um menn hjá skattyfirvöldum, það eru upplýsingar um menn í bankastofnunum, það eru upplýsingar hjá lögreglu, upplýsingar á sjúkrahúsum. Í mörgum tilfellum eru þessi gögn ekki vel varin gegn hnýsni utanaðkomandi manna, en vörnin hefur fram að þessu verið fólgin í því að þessi gögn hafa verið á gamla forminu, þ. e. þau hafa verið skrifuð með penna á blað. Það hefur verið vörnin gegn misnotkun upplýsinga gegn einstaklingum. Nú líður að því að allar þessar upplýsingar komist, og eru í mörgum tilfellum komnar, á tölvur, tölvutæk form. Þá gerist það að ef þessar upplýsingar hjá öllum þessum aðilum sem ég nefndi áðan eru merktar sama númerinu, t. d. nafnnúmeri eða fæðingarnúmeri þessa sama einstaklings, alls staðar er merki með þessu sama númeri, þá er lítill vandi að safna þessum upplýsingum saman í vondum tilgangi. Tölvukerfi eru alls ekki þjófheld frekar en ýmis önnur kerfi, svo sem eins og bankar. Við lesum á hverjum degi um að menn eru að brjótast inn í tölvukerfi, eins og kallað er, oft í vondum tilgangi, en stundum í gríni eins og ég las í fréttum um helgina. Tveir skólastrákar í Noregi „brutust inn í“ tölvukerfi dagblaðs og settu inn í blaðið á þann hátt tilkynningu um að kennari þeirra hefði gifst. Málið var að kennarinn var hamingjusamlega giftur einhvers staðar annars staðar og giftur löngu áður. Þetta gerist einfaldlega þannig að í gegnum síma og með tiltekinni vitneskju er hægt að fara svona að.

Þó að hin íslensku tölvukerfi séu kannske ekki stór eru þau undir sömu hættu seld. Þegar upplýsingar um okkur verða tölvutækar í skólum, hjá vinnuveitendum, hjá skattstofnunum, hjá bankastofnunum, hjá lögreglu. hjá sjúkrahúsum og fleiri stofnunum, sem leggja það í vana sinni að safna upplýsingum, jafnvel þó þær þurfi ekkert á þeim að halda, þá bjóðum við alltaf betur og betur heim hættunni á því að einhver notfæri sér í vondum tilgangi vitneskju sína og tækni til þess að „brjótast þarna inn“ og safna upplýsingum um okkur á einn stað. Það er það sem við köllum upplýsingabyltingu. Mikil vörn gegn þessu er að sérhver skráningaraðili sem safnar svona upplýsingum merki þær á sérstakan hátt, þ. e. að menn noti ekki fæðingarnúmer, nafnnúmer, nafn eða eitthvert annað auðkenni sem augljóslega er persónubundið, heldur búi hver skráningaraðili sér til sérstakan lykil sem er trúnaðarmál og merki upplýsingar sínar um fólk og fyrirtæki með þessum sérstaka leyndarlykli. Á þann hátt er mikið unnið til þess að koma í veg fyrir þá skaðlegu samkeyrslu upplýsinga sem ég talaði áðan um að væri möguleg. Þannig lagað yrði þetta fyrirkomulag gífurleg hindrun. Auðvitað er það alls ekki algerlega helt frekar en önnur mannaverk, en það er mikil hindrun gegn misnotkun þessara upplýsingabanka.

Í tilefni af þessu hef ég flutt brtt. við þetta frv. sem ég held að mundi bæta frv. sem að öðru leyti er ágætt eins og lýst var hérna í framsögu áðan. Brtt. er svohljóðandi:

„Sérhver skráningaraðili hefur eigin greiningarlykil fyrir lögpersónur til merkingar annarra upplýsinga en þeirra sem teknar eru úr þjóðskrá. Lykillinn er trúnaðarmál og skal ekki tengjast nafni, nafnnúmeri, fæðingardegi né öðrum slíkum auðkennum.“

Á þennan hátt tel ég að við mundum búa okkur undir framtíðina vegna þess að alveg eins og þessi lög voru sett á sínum tíma til þess að búa Íslendinga undir framtíðina í tölvumálum held ég að ákvæði sem þetta mundi búa okkur betur undir framtíð sem rennur upp hér eins og annars staðar, sem sé það að menn fara að nota þetta í vondum tilgangi.