29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5724 í B-deild Alþingistíðinda. (5011)

424. mál, erfðalög

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til laga um breytingu á erfðalögum eins og það kom frá Nd. Nefndin lýsir yfir fullum stuðningi við frv. og leggur til að það verði samþykkt í þessu formi.

Frv. í þessum búningi var flutt af allshn. Nd. í framhaldi af frumvarpsflutningi nokkurra hv. þm. með hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem 1. flm. Í upphaflega frv. stóð þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Nú verður því hjóna, sem á lífi er, ekki veitt heimild til setu í óskiptu búi af ástæðum er greinir í 1., 2. og 3. mgr. þessarar gr., og þrátt fyrir ákvæði 14. og 16. gr. laga þessara skulu skipti þó ekki taka til íbúðarhúsnæðis sem eftirlifandi maki býr í, né til húsmuna hans, nema hann óski sjálfur að búinu sé skipt að öllu leyti, enda uppfylli hann skilyrði 8. gr. og hafi ekki gengið í hjúskap að nýju, sbr. 13. gr. Eftirlifandi maki, sem þannig öðlast umráðarétt yfir íbúðarhúsnæði og húsmunum, hefur ekki eignarráð né ráðstöfunarrétt þeirra eigna eins og um setu í óskiptu búi væri að ræða.“

Þessu var síðan breytt þannig í meðferð allshn. Nd.frvgr. hljóðar nú svo, með leyfi virðulegs forseta: „Annað hjóna eða bæði geta þó ávallt mælt svo fyrir í erfðaskrá að það þeirra sem lengur lifir skuli hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða. Ber skiptaráðanda þá að gefa út leyfi til setu í óskiptu búi til eftirlifandi maka eftir umsókn hans nema ákvæði 8. gr. standi í vegi fyrir því.“

Viðstaddir nm. vilja lýsa því yfir að þeir hefðu gjarnan viljað standa að samþykkt frv. óbreytts enda fylgjandi þeirri meginhugsun sem þar kemur fram og í senn er sanngjörn og mannleg. En nefndin telur frv. í þessari mynd áfanga í þá átt að þetta réttlætismál nái fram að ganga. Undir nál. skrifa Haraldur Ólafsson, Salome Þorkelsdóttir, Eiður Guðnason og Valdimar Indriðason auk frsm., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eyjólfur Konráð Jónsson og Stefán Benediktsson. Nefndin mælir sem sagt með samþykkt frv. í því formi sem það nú er þó að hún hefði gjarnan viljað sjá það í sínu upphaflega formi hér í deildinni og getað mælt með því þannig.