29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5725 í B-deild Alþingistíðinda. (5015)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það er kannske dálítið erfitt að ná upp þeim snúning sem var kominn á þessa umr. þegar henni var frestað. En ég tel mér þó skylt alla vega að koma hér upp og gagnrýna þetta frv. út frá þeim atriðum sem ég þegar hafði þó nefnt en verið mótmælt eilítið í ræðum annarra manna.

Það er fyrst og fremst spurningin til hvers raunverulega þetta frv. er fram komið, hvort það er fram komið til að bjarga bankaráðum og þar með stjórnmálaflokkum frá ábyrgð á því óviðfelldna fyrirbæri að ákveða laun manna sem hafa há laun. Það er hlutverk bankaráðanna skv. lögum og eiginlega eitt aðalhlutverk þeirra að standa að þessum málum. Þegar það hlutverk er tekið af bankaráðunum stendur því ekkert ýkjamikið eftir.

Eða er tilgangurinn með framkomu þessa frv. að bankastjórar fái eitthvað sem kallast mundi réttlát laun? Þá verður það náttúrlega matsatriði þess aðila sem á að ákveða þau laun hvort það eigi að hækka þau eða lækka. Það er mat margra manna sem um þetta mál hafa fjallað að það að skjóta þessu máli til Kjaradóms sé ekki endilega nein trygging þess að laun bankastjóra lækki frekar en hækki.

Kjaradómur yrði að taka mjög marga hluti inn í mat sitt á kjörum bankastjóra. T. d. mundi Kjaradómur verða að horfa á það mál að aðstaða bankastjóra er mjög misjöfn milli banka. Það er spurning hvort þeir mundu meta þá aðstöðu í heild og jafna henni út yfir alla bankastjórana eða hvort maður stæði frammi fyrir því að bankastjórar einstakra banka yrðu misjafnlega hátt launaðir innbyrðis. Það er t. d. staðreynd að bankastjórar Landsbanka Íslands hafa að mörgu leyti miklu betri og meiri aðstöðu — og það má hiklaust reikna þá aðstöðu til kjara — en bankastjórar annarra banka.

Hér varð þó nokkuð mikill hávaði út af bílafríðindum bankastjóra fyrir nokkru síðan en það var t. d. ekkert dregin inn í þá umr. sú staðreynd að bankastjórar Landsbankans hafa auk bílafríðinda aðgang að bílaflota til eigin afnota daglega, þ. e. á starfstíma og utan. Að auki hafa þeir aðgang að bílaflota á sumrin til þess að sinna þeim ferðum sem þeir þurfa þá að fara í, aðallega til laxveiða út um land. Þetta eru aðstæður og kjör sem hiklaust yrði að meta ef öll laun, öll kjör yrðu metin til fjár.

Þetta er sem sé mín fyrri athugasemd við þetta frv. Ég tel að menn, sem hafa boðið sig fram til þess að bera pólitíska ábyrgð á hlutum eins og kjörum bankastjóra — þá á ég við þá menn sem taka þátt í kosningu til bankaráða — eigi að vera menn til þess að réttlæta gerðir sínar og standa við þær, að það sé engin ástæða til þess að vera að koma þeim undan þeirri ábyrgð.

Hin gagnrýnin er þessi: Af hverju er það réttlætanlegra að setja hálaunamenn undir Kjaradóm frekar en láglaunamenn? Hvers vegna eru til menn sem eru taldir of góðir til að semja sjálfir um sín kaup og kjör? Og hvers vegna eru til menn sem eru taldir nógu góðir til þess að semja fyrir sjálfa sig um kaup og kjör? Hvers vegna er skilningur manna þannig að menn telja háttsetta opinbera starfsmenn of góða til að semja um laun sín en verkamenn nógu góða til þess?