29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5726 í B-deild Alþingistíðinda. (5016)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það er nokkuð langt um liðið síðan umr. var síðast um þetta mál. 1. umr. stendur raunar enn yfir.

Það sem olli því fyrst og fremst að ég fór hér í ræðustól var það að hv. 4. þm. Vesturl. héldi því fram, hafi ég heyrt rétt hér við umr., að fulltrúar Seðlabankans hefðu riðið á vaðið varðandi bílastyrki ráðh., þ. e. greiðslu bílastyrkja í formi launaauka. Hv. þm. er mér að því leyti kunnur að ég veit að hann vill hafa ekki síður en Ari fróði það sem sannara reynist. En í því efni má jafnframt taka fram að fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans er sá sem ber ásamt Seðlabankaaðilum höfuðábyrgð á því að þessum ívilnunum bankastjóra var breytt í beinar greiðslur.

Nú geri ég ráð fyrir því að fleiri en færri ætlist til þess að um þessi mál sé rætt fremur í himinhrópandi vandlætingu. Ég held þó að ég sé ekki í stakk búinn eða stígvélaður til að bæta um betur frá því sem gert hefur verið í þeim efnum, svo stór orð hafa verið viðhöfð í þessum málum. Það hefur margoft komið fram, en sakar ekki að geta um það einu sinni enn. að það hefur verið álitið og túlkað sem svo á grundvelli laga um ríkisbankana að það væri verksvið bankaráðanna að ákveða öll launakjör bankastjóra, ekki einvörðungu laun þeirra heldur öll launakjör.

Frá Magnúsi Jónssyni fjármálaráðherra barst bréf 26. febrúar 1970 þar sem var mælst til þess að bankaráð ríkisbankanna færu eftir reglugerð sem þá hafði nýlega verið sett. Þessi tilmæli þáverandi fjmrh. minna mann á að bankaráðin hafi í sjálfu sér ekki verið skyldug til að fara eftir þessari reglugerð. Því var þáverandi fjmrh. að skrifa bankaráðunum bréf þess efnis að fara að viðkomandi reglugerð? Hitt skal ég ekki dæma um á þessari stundu hvort bankaráðin hafi stigið skrefið lengra en þessi reglugerð, sem fjmrh. mæltist til að væri farið eftir, gerði ráð fyrir, stigið skrefið lengra en eðlilegt var. Ég skal ekkert fullyrða um slíkt. Í þessu efni er það rétt að bréf viðkomandi fjmrh., bréfið sjálft, gefur það ekki beinlínis til kynna. Ekki er minnst á það í bréfinu að fara skuli eftir þeim paragröfum í reglugerðinni þar sem vikið er að kjörum ráðherra í þessu efni. En þeir sem kunnugastir eru kerfinu fullyrða að slík tilmæli hafi með einhverjum hætti verið send og borist til bankaráðanna.

Í sambandi við reglugerðina um bifreiðamál ríkisins hef ég spurningar fram að færa um afstöðu ríkisstj. og þykir mér illt að enginn af hæstv. ráðh. skuli vera hér í salnum. Ég hefði löngun til þess að fá svör við a. m. k. einni eða tveimur spurningum í þessu efni og þá ekki síst frá hæstv. fjmrh. (Forseti: Það er verið að athuga með að fá hæstv. fjmrh. í salinn.) Til þess að spilla ekki tíma hv. deildar er rétt að það komi fram hér í umr.hæstv. viðskrh. hefur eftir því sem ég veit til sett til starfa Baldur Möller í því skyni að gera athugun á og meta þau starfskjör og það fyrirkomulag sem gilt hefur gagnvart bankastjórum í ríkisbönkunum. En á sama eða líkum tíma er gefin út reglugerð um bifreiðamál ríkisins, reglugerð frá 30. apríl 1985 nr. 190. Nú þætti mér vænt um að heyra um það frá hæstv. fjmrh., sem skrifar að sjálfsögðu undir þessa reglugerð sem hæstv. ráðh., hvort um þessa reglugerð hafi ríkt einhugur innan ríkisstj.

Eins og ég sagði áðan er aðili að störfum fyrir hæstv. viðskrh. að athuga starfskjör og það fyrirkomulag sem gilt hefur gagnvart bankastjórum ríkisbanka. Það má vel vera að þetta sé sönnun þess að það sé einlægur vilji ríkisstj. að bankaráðin hafi áfram óskorað vald til að ákveða öll kjör bankastjóra, þar með bílakjörin. Nú er mér raunar ekki kunnugt um það hvort til þess er ætlast að þessum viðkomandi starfsmanni hæstv. viðskrh., Baldri Möller, sé ætlað að setja fram till. í þessu efni. Þegar ríkisstj. lætur það frá sér fara að öll þessi mál séu til heildarendurskoðunar og ekki síst bílakjaramál bankastjóra ríkisbankanna, þá er dálítið einkennilegt að á sama tíma er gefin út reglugerð þar sem m. a. er vikið að bílakjaramálum ráðherra. Í 10. gr. reglugerðarinnar er gert ráð fyrir 20% fyrningarreglu varðandi kjör ráðh. í þessu sambandi.

Ég hélt satt að segja að það hefði verið fyrirhugað af hálfu stjórnvalda að samræma þessi mál í eitt skipti fyrir öll. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég líti svo á að bankaráðin séu óhæf til þess að ákveða þessi mál. síður en svo.

Það frv. sem hér er til umr., frv. til l. um launakjör bankastjóra og ráðh., ætla ég að vera fáorður um. Ég get þó sagt frá því að minn þingflokkur, þingflokkur framsóknarmanna, samþykkti á sínum tíma að laun bankastjóra yrðu ákveðin af Kjaradómi. Í þeirri umfjöllun, sem átti sér stað innan flokksins á þeim tíma, var raunar ekki tekin afstaða til þess hvort bankastjórar ættu að hafa einhver bílafríðindi. Sú ályktun tók að mínum dómi enga afstöðu til þess. Þetta frv. gerir hins vegar ráð fyrir því að slík fríðindi verði ekki framvegis.

Þetta er frv. af því tagi sem lagt er fram í hita leiksins þegar hálfur þingheimur talar í himinhrópandi vandlætingu um gjörðir sem þingheimur ber að nokkru leyti fulla ábyrgð á. Ég vil gjalda varhug við málum sem koma fram undir slíku hugarfari og undir slíkum þrýstingi.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð en ég hefði löngun til þess að fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh. hver er stefna ríkisstj. í málinu.