29.05.1985
Efri deild: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5731 í B-deild Alþingistíðinda. (5031)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er fylgifrv. með frv. sem þegar hefur verið afgreitt út úr þessari hv. deild og samþykkt, þ. e. gjald af tóbaksvörum. Það er talið eðlilegt að fá fyrst úr því skorið efnislega hvort deildin væri sammála þeirri breytingu á verslun ríkisins með áfengi og tóbak að tóbaksverslun yrði gefin frjáls. En af því leiðir að þá þarf að breyta lögum um verslun ríkisins með tóbak og áfengi sem verður þá „verslun ríkisins með áfengi“, enda heitir frv. það sem hér er til umr., frv. til laga um verslun ríkisins með áfengi.

Efnisleg umr. hefur farið fram um þetta mál en eftir er að afgreiða formlega annað frv. Hv. fjh.- og viðskn. klofnaði um bæði málin, enda fylgdust þau að. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt en minni hl. hefur skilað séráliti.