29.05.1985
Neðri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5733 í B-deild Alþingistíðinda. (5043)

243. mál, Veðurstofa Íslands

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. Samgn. Nd. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og kallaði til sín veðurstofustjóra, Hlyn Sigtryggsson, og ráðuneytisstjórann í samgrn., Ólaf Steinar Valdimarsson.

Á þskj. 1005 eru nokkrar brtt. við þetta frv.

Það er í fyrsta lagi við 1. gr. að í stað orðsins „greina“ komi: fræðigreina.

Í 2. gr. er gerð brtt. um að 1. mgr. orðist svo: „Veðurstofustjóri, sem ráðherra skipar til fimm ára í senn, hefur á hendi stjórn stofnunarinnar.“ Þetta er ekki nein efnisbreyting, heldur breytt orðalag.

Við 3. gr. Í staðinn fyrir „takmörkun“ í 7. tölul. komi: tilhögun.

8. tölul. 3. gr. orðist svo: „að fylgjast með framförum og þróun í veðurfræði og öðrum fræðigreinum á starfssviði sínu og vinna að rannsóknum á þeim er hafi það að höfuðmarkmiði að auka þekkingu á veðurfari landsins, bæta veðurþjónustuna og auka hæfni stofnunarinnar til að láta í té upplýsingar í þágu atvinnulífs, öryggismála og annarra þarfa landsmanna.“ Þetta er ekki heldur efnisbreyting, heldur skýrara orðalag.

Nefndin er sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.