29.05.1985
Neðri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5747 í B-deild Alþingistíðinda. (5054)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að fá að leggja nokkur orð í belg vegna þessa frv. sem fjallar um mikilvægt málefni. Í því eru hugmyndir um að veita menntun og sérstaklega endurmenntun vegna nýrrar tækni í atvinnulífinu í alveg sérstakan farveg og að því látið liggja að verði ekki á þetta frv. fallist sé engin ákvörðun í málinu tekin og ekkert að gert. Þetta þykir mér ástæða til að leiðrétta því að eitt af því sem einmitt er lögð höfuðáhersla á núna í menntmrn. er einmitt þetta, bæði í skólastarfinu sjálfu á öllum skólastigum og verkefnum sem skólarnir mundu taka að sér fyrir atvinnulífið í endurmenntunarskyni.

Að því er varðar sérstaklega einstök atriði sem þessu máli tengjast, þá er fyrst til að taka að nýlega er hafin heildarendurskoðun á iðnfræðslulöggjöfinni, ekki síst með það í huga að gagnger breyting hefur orðið á ýmislegri tækni sem tengist iðnstörfum og auk þess er þjóðfélagið á ýmsan veg allt annað nú en var 1966 þegar lögin um iðnfræðslu voru sett.

Í annan stað hefur verið gert sérstakt átak og unnið að framkvæmd í áföngum vegna fræðslu í tölvumálum og tölvuvæðingar skólanna. Það atriði er þess eðlis, eins og svo margt annað sem tengist menntun í tækniefnum, að það verður að gerast í skynsamlegum áföngum til þess að árangur náist. Engin ástæða er til að fylla alla skóla af tækjabúnaði sem menn kunna ekki á. Nauðsynlegt er að byrja á því að sjá til þess að nægilegum mannafla sé á að skipa sem kann að nota tækin og kenna á þau. Þess vegna er það að nú hefur verið sett álaggirnar lektorsembætti í tölvufræðum við Kennaraháskólann. Sérstök áhersla er lögð á endurmenntun í tölvufræðum fyrir kennara og unnið er að undirbúningi þess að víðtæk kennsla verði í tölvufræðum á framhaldsskólastiginu. Gert er ráð fyrir að hún hefjist í stærri stíl á næsta hausti en verið hefur. Auk þess er farið að huga að tölvufræðum og nokkurri kynningu á tölvum í grunnskólanum, en því nefni ég það, þó að það sé ekki endurmenntun, að það atriði tel ég skipta mjög miklu máli vegna menntunar kvenna og atvinnu kvenna á þeim sviðum sem verða tæknivædd í framtíðinni. Það er mikilvægt að bæði drengir og stúlkur komist í kynni við hina nýju tækni sem allra fyrst í skólanum þannig að fræðslan gangi síðan með eðlilegri hætti og bæði drengir og stúlkur telji það jafnsjálfsagt að afla sér fræðslu í tölvumálum og öðru er að nýrri tækni lýtur.

En það er reyndar fleira en tækniþekkingin sjálf sem kemur til greina og þarf sérstaklega að hyggja að vegna nýrrar tækni í atvinnulífi. Það er líka aukin þekking í grunngreinum sem er nauðsynleg af þessum ástæðum. M. a. hefur skólastjóri Iðnskólans þráfaldlega bent á hve nauðsynlegt er að auka þekkingu t. d. þeirra, sem að iðnum starfa, á a. m. k. einu eða tveimur erlendum málum vegna þess að svo örar breytingar eru í tækni- og vélvæðingu að það getur beinlínis verið nauðsynlegt öryggisatriði að kunna glögg skil á erlendri tungu til að átta sig á leiðbeiningum og notkun nýrra tækja sem ört breytast.

Vegna þessa vil ég víkja að auknum og nýjum möguleikum til að veita þjálfun þeim sem ekki hafa átt kost á námi í þessum greinum þegar þeir voru ungir eða á venjulegum skólaaldri. Það sem ég hef í huga er að unnið er að því að gera skólum kleift að nýta aðstöðu sína og mannafla, að hafa námskeið fyrir annaðhvort fyrirtæki eða launþegafélög, verkalýðsfélög t. d., í húsnæði skólans á þeim tíma sem annað skólastarf fer þar ekki fram. Ég held að í þessu geti falist mjög áhugaverðir möguleikar fyrir báða aðila, bæði þá sem slík námskeið mundu sækja og skólana sem nýttu aðstöðu og mannafla til að láta fræðsluna í té. Ég held að með nokkrum hætti sé jafnvel hægt að skapa sveigjanleika í kjörum þeirra kennara, gefa aukinn möguleika til kjarabóta í gegnum slíkt og að skólar sem slíkt létu í té hefðu nýja möguleika til aukatekna með svona starfi. Ég er þeirrar skoðunar og þykist raunar hafa orðið þess vör að það sé vaxandi skilningur og áhugi á starfsemi sem yrði rekin í þá veru sem ég er að nefna. Ég held að slíkur skilningur og áhugi sé bæði fyrir hendi hjá samtökum launþega og samtökum vinnuveitenda. Ég held að ég skilji betur að það sé fyrirtækjum og vinnuveitendum nauðsynlegt að gefa kost á slíku námi, endurmenntun ýmiss konar, til að gera vinnu starfsmanna fjölbreyttari, áhugaverðari og árangursríkari. Þá er verið að auka beggja hag á allan veg. Þessi atriði vildi ég sérstaklega láta koma fram.

Það má vel nefna eitt atriði enn sem ég tel að eigi eftir að komast í framkvæmd þótt það hafi ekki tekist enn, en ég tel að það hljóti að því að reka. Við höfum í landinu allmarga vel búna verkmenntaskóla. Þessir skólar standa auðir og ónotaðir mánuðum saman að sumrinu til. Í þeim er búnaður sem e. t. v. úreldist á skemmri tíma en búnaður bóknámsskólanna gerði. Ég hygg að það geti þjónað mjög jákvæðum tilgangi, bæði vegna endurmenntunar og svo vegna menntunar ungmenna, og það geti leyst á margan veg atvinnuvanda í sumum byggðarlögum að gera starfstíma skólanna miklu sveigjanlegri, að nýta búnað slíkra skóla allt árið. Þetta er atriði sem hefur nokkuð verið fjallað um og undirbúið. Það kallar hins vegar á nokkuð flókin dæmi sem tengjast kjaramálum kennara, en ég hygg að annað eins og flóknara mál hafi verið leyst í þjóðfélagi okkar á ýmsum tímum. Það er mín skoðun að að þessu hljóti að verða horfið. Þótt það yrði ekki gert alls staðar í einu, væri þetta gagnleg tilraun.

Herra forseti. Ég vildi aðeins drepa á nokkur sundurlaus atriði til að sýna fram á að það er verið að vinna markvisst að þeim málum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hér verið að tala um, sem sé endurmenntun og menntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Það er eitt meginatriðið sem við erum við að fást núna og höfum verið að fást við á undanförnum mánuðum. Að því verður markvisst unnið áfram og unnið að því að fá til þess nauðsynlegar fjárveitingar. Ég hygg að það væri ekki skynsamleg ráðstöfun að skilja slíka menntun frá fyrir tiltekna hópa í þjóðfélaginu. Ég held að það sé einmitt skynsamlegt að nýta sem allra best búnað og mannafla skólanna. ekki einungis fyrir þá sem eru á venjulegum skólaaldri, heldur líka til þess að halda endurmenntunarnámskeið fyrir þá sem hafa þegar haslað sér völl úti í atvinnulífinu, hafa unnið við ýmis störf í þjóðfélaginu en fá svo áhuga síðar á menntun vegna tæknivæðingarinnar. Ég tel að það sé mjög jákvætt og nauðsynlegt, en það eigi ekki að verða öðruvísi en eðlilegur hluti menntunarinnar í landinu.