05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Kristófer Már Kristinsson):

Herra forseti. Á þskj. 8 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni að leggja fram frv. til l. um breytingu á lögum nr. 80 frá 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í I. kafla þeirra laga sem ber yfirskriftina Um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda, segir svo með leyfi forseta:

„1. gr. Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.

2. gr. Stéttarfélög skulu opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Félagssvæði má aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.“

Herra forseti. Það frv. til l. er ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir því að á eftir þessari grein komi grein sem hljóði svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna geta launþegar (vinnuseljendur), sem taka laun hjá sama atvinnurekanda, stofnað félag á vinnustað sem hafi með samninga að gera og taki í einu og öllu við réttindum og skyldum stéttarfélaga. Þetta getur gerst að undangenginni skriflegri og leynilegri atkvgr. þar sem 2/3 hlutar þátttakenda hafa lýst sig samþykka þessu fyrirkomulagi, enda starfi fleiri en 25 launþegar á vinnustaðnum. Félmrn. skal setja reglugerð um framkvæmd atkvgr.“

Síðan er í frv. mælt fyrir um nauðsynlegar breytingar, verði þessi grein samþykkt. Það skal strax tekið fram að þær töluviðmiðanir sem koma fram í frv. eru flm. ekki fastar í hendi, mjög kemur til greina að endurskoða þær, a.m.k. hvað snertir fjölda launþega í fyrirtækjum.

Í grg. með frv. segir m.a., með leyfi forseta:

„Frv. gerir aðeins ráð fyrir einni meginbreytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, að launþegar á sama vinnustað — og þá er vinnustaður skilgreindur þannig að til hans teljast allir þeir sem taka laun sín hjá einum og sama vinnuveitandanum — geti ákveðið, þ.e. 2/3 hlutar þeirra, að stofna eigið félag sem fari með samninga um kaup og kjör og önnur réttindi og aðrar skyldur sem stéttarfélög þeirra fóru með áður og þá skiptir ekki máli hvers konar störf viðkomandi launþegi leysir af hendi.“

Jafnframt segir:

„Leggja verður áherslu á að hér er verið að auka við réttindi launafólks sem það getur nýtt sér, ef það vill, en þarf þó ekki að gera. Eins er verið að opna fyrir þann möguleika að betri samvinna og meiri skilningur verði milli þeirra sem við fyrirtæki starfa og hinna sem það reka.“

Herra forseti. Þetta frv. til l. er nú lagt hér fram á hv. Alþingi í fimmta sinn. Það hefur frá því að það kom fyrst fram orðið tilefni allnokkurrar umr. um skipulagsmál launþegasamtakanna, vakti þá umræðu af Þyrnirósarsvefni, eins og einhver orðaði það. Hins vegar verður ekki séð að nokkur hafi hirt um að skrifa niðurlag á ævintýrinu. Rétt er að leggja á það áherslu að það verður ekki gert hér á hinu háa Alþingi. Launþegasamtökin hljóta að verða að sinna því sjálf. Alþingi ber þó að mínu mati skylda til að blása lifi í prinsinn, jafnvel þó að ekki dugi til annars en að hann verði kontóristi hjá ASÍ. Hér er átt við að það er ekki hlutverk Alþingis að hlutast til um innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar frekar en annarra félaga yfirleitt. Ég held hins vegar að því verði ekki á móti mælt að lög þau sem hér um ræðir, þ.e. lög um stéttarfélög og vinnudeilur, hljóti að vera sá rammi sem allt skipulag launþegasamtakanna miðast við. Það er skoðun flm. að full ástæða sé til að rýmka þennan ramma og skapa þannig forsendur til valddreifingar, aukinnar félagslegrar þátttöku og ábyrgðar einstaklinga. Það verður ekki fram hjá því gengið að vinnulöggjöf varðar grundvallarmannréttindi og Alþingi hefur tvímælalausar skyldur við þjóðina í þeim efnum.

Herra forseti. Ákjósanlegast væri að nema lög um stéttarfélög og vinnudeilur úr gildi og tryggja rétt þeirra sem selja vinnu sínu í stjórnarskránni en að öðru leyti réðu hefðir og samkomulag á milli hinna svokölluðu aðila vinnumarkaðarins. Þannig yrði verkalýðshreyfingin frjáls að svo miklu leyti sem það er, allra hluta vegna, mögulegt. Þetta væri hið ákjósanlega. Einnig mætti hugsa sér að sérhver launþegi semdi fyrir sig án afskipta annarra um réttmæt laun fyrir vinnu sínu. Það er sennilega hið óframkvæmanlega.

Herra forseti. Verkalýðsforustan og Vinnuveitendasambandið felldu frv. sem var samhljóða þessu í Ed. þann 28. mars. s.l. Af umræðum verður ekki séð að andstaða hv. þm. hafi verið jafn eindregin og niðurstöður atkvgr. gáfu til kynna, heldur reið álit umsagnaraðila baggamuninn. Frv. var fellt vegna þess að stjórn Alþýðusambands Íslands vildi það. Frv. var fellt vegna þess að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja vildi það. Frv. var fellt vegna þess að stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur vildi það. Frv. var fellt vegna þess að stjórn Verkalýðsfélagsins Einingar á Akureyri vildi það. Frv. var fellt vegna þess að stjórn Vinnuveitendasambands Íslands vildi það.

Hv. þm. deildarinnar höfðu allir uppi það álit að heildarendurskoðun á lögunum væri nauðsynleg. En það virðist helst hafa þá merkingu hér í þessari virðulegu stofnun að hv. þm. geti ekki, vilji ekki og nenni ekki að taka af skarið gagnvart umdeildum og viðkvæmum málum.

Herra forseti. Þess varð ekki vart að leitað hefði verið umsagnar og álits þolenda þeirra laga þess skipulags sem hér um ræðir, þ.e. launþega á vinnustöðum og starfsmannafélaga sem víða eru til, fólks sem ekki hefur beinna persónulegra hagsmuna að gæta innan valdastofnana stéttarfélaganna, heldur var leitað til þeirra sem af skammsýni eru vísir til að telja sér best borgið við óbreyttar aðstæður, óbreytt ástand, þ.e. fulltrúa í alls kyns valdastofnunum. Sú gagnrýni sem þetta frv. hefur orðið fyrir hefur ekki verið ýkja margvísleg en hún hefur verið áköf og nánast heiftúðug á stundum. Því er haldið fram og þykir vont að verið sé að dreifa valdi innan launþegasamtakanna, brjóta niður samtakamáttinn, sundra heildarsamtökunum, spilla samstöðunni og ganga erinda Vinnuveitendasambandsins og hlýtur afstaða Vinnuveitendasambands Íslands til þessa máls að teljast næsta einkennileg í því ljósi.

Ef vikið er að samstöðunni sem verið er að sundra má spyrja: Samstöðu um hvað? Eitt markmið, t.d. hag hinna lægst launuðu, einn leiðtoga, eina skoðun, einn sameiginlegan óvin í samræmi við það nítjándu aldar ævintýri sem sumir sækja stéttarvitund sína í, eitt dýrt húsnæði, eitt símanúmer?

Herra forseti. Um hvað sameinast launþegar undir núverandi skipulagi samtaka sinna? Stjórnarmenn, orlofsbúðir, samþjappað vald hjá kontóristum sem ástunda vinnustaðasamninga sín á milli vegna þess að kjarasamningar sem þeir gera eru ónothæfir, a.m.k. fyrir þá. E.t.v. er samstaðan um framtíðarsýn Vinnuveitendasambandsins. Þ.e. heils árs kjaftavaðalssamkundu um meðaltalsafkomuútreikninga og þá næringargildi þeirrar naglasúpu sem samkomulag yrði um að bera við og við fyrir launþegana til þess að samsuðuselskapurinn sannaði tilverurétt sinn.

Þetta frv. hefur verið kallað stéttarsamvinnufrv. og er helst að skilja að það sé marxískt skammaryrði. Mér þykir hins vegar stéttarsamvinna hljóma vel og tel hana vera af hinu góða, enda var Stalín dauður þegar ég fermdist. Ég vara menn við því að vera að lesa eitthvað út úr þessu hugtaki, stéttarsamvinna, sem ekki er þar og ekki er ætlað að vera þar. Það er ekki verið að tala um misnotkun, stéttarkúgun eða arðrán undir rós heldur samvinnu jafnvígra aðila um það sem hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál þeirra.

Ég fæ ekki séð að dreift vald sé í eðli sínu minna eða lítilvægara en samþjappað vald. Ég er þeirrar skoðunar að með samningsrétti smárra eininga hljóti samstaða vinnuveitenda að rofna og mér sýnist þeir vera á sömu skoðun. Það kemur bæði fram í afstöðu þeirra til þessa frv. og einnig í þeirri staðreynd að vinnuveitendur fóru fram á heildarkjarasamning í sumar á meðan ASÍ hafði uppi efasemdir um gildi stóra samflotsins. Vinnuveitendasambandinu er tvímælalaus akkur í heildarkjarasamningum þar sem allt er í einum pakka vegna þess að í þeim er hægt að beita meðaltalsfátæktarsvipunni til að berja niður kröfur launþega. Í þeim er hægt að draga verkalýðsforustuna á asnaeyrunum mánuðum saman og halda henni uppi á snakki um ekki neitt undir kaffiþambi og ropvatnsdrykkju. Og ekki síst er í þeim hægt að nota tékkhefti fjmrn. og jólapakka frá ríkisstj. allri. Það verður ekki fallist á að samningar um kaup og kjör eigi að fara þannig fram.

Hér er verið að gefa kost á nýjum leiðum í kjarabaráttu, opna möguleika á einu baráttutæki enn fyrir launþega og verið, að gera vinnustaðina að minnstu einingum í kjarabaráttunni. Það er ljóst að þessu verður ekki náð með einfaldri skipulagsbreytingu innan launþegasamtakanna vegna þess að lög heimila ekki fólki að vinna að samningum um kaup og kjör öðruvísi en í gegnum lögformlega skipuð verkalýðsfélög. Til þess að opna þennan möguleika verður að koma til lagabreyting og slíkt verður ekki gert, a.m.k. enn þá, nema hér á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Það er á það bent að sú breyting sem hér er lögð til muni orsaka launamun á milli fyrirtækja innan sömu framleiðslugreinar. Þetta er sennilega rétt og er maklegt. Það verður ekki séð að ástæða sé til þess að banna vel stæðu fyrirtæki, sem á þá velgengni sína m.a. góðu starfsfólki að þakka, að láta þetta starfsfólk njóta ávaxta erfiðis síns. Jafnframt yrði þetta launþegum hvatning að leita vinnu hjá fyrirtækjum sem forsmá ekki þau verðmæti sem hendur þeirra skapa. Þetta kallast að kasta launa- og kjarajöfnunarstefnunni fyrir borð, það kann að vera rétt enda verður ekki séð að henni hafi verið ætlað annað hlutverk en að halda launum þeirra sérstöðulausu niðri, eða sú er a.m.k. niðurstaða hennar. Hinir fá yfirborganir, eru í launaskriðinu sem auðvitað er ekkert annað en vinnustaðasamningar þeirra sem hafa sérstöðu og hafa vit á því að notfæra sér hana. Með þessu frv. er gerð tilraun til þess að skapa möguleika á að jafna þennan aðstöðumun.

Það er einnig á það bent að hér sé verið að skapa stundargróða eða sókn starfsmanna í stundargróða. Það er þá a.m.k. meira en hægt er að segja um þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið undanfarin ár. Þeim hefur fyrst og fremst verið ætlað að ná aftur hluta þess sem þegar var búið að hirða úr launaumslögunum. Hér er gefinn kostur á vopni sem getur snúið vörn í sókn. Sú gagnrýni hefur komið fram að á engan hátt sé gerð fyrir því grein hvernig flm. þessa frv. hugsa sér að það gangi upp, hvaða skipulagsbreytingar eru nauðsynlegar og hvernig tengsl vinnustaðafélaga við núgildandi félagskerfi verði.

Í fyrsta lagi er ekki verið að leggja lagalega skyldu til breytinga af neinu tagi á fólk. Gert er ráð fyrir því að ákvörðunin sé því í sjálfsvald sett, kjósi það svo. Í öðru lagi er það andstætt skoðunum flm. að Alþingi fjalli um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Við erum hins vegar að sjálfsögðu reiðubúnir að leggja verkalýðshreyfingunni lið, fari svo vel að þetta frv. verði að lögum, fólk kjósi að nýta sér þá möguleika sem það skapar og verkalýðsforustan kæri sig um liðsinni okkar.

Herra forseti. Andstaða þeirra, sem hafa verið verkalýðsrekendur langt líf og halda sig ekki kunna annað, við þetta frv. er á ýmsan hátt skiljanleg. Þeir óttast að verið sé að leggja þá niður með lagasetningu. Ég hef enga trú á því að til þess þurfi lög frá Alþingi, er enda á móti því. Það er hins vegar ljóst að ef til vinnustaðasamninga kemur mun reyna enn frekar á styrk og samtakamátt launþegasamtakanna en fram til þessa. Erindrekstur hlýtur að eflast, tæknileg aðstoð við samningagerð, mat á samningum og stöðu fyrirtækja og þannig mætti lengi telja. Það er einnig ljóst að þessa þjónustu er einnig hægt að kaupa hjá nánast hvaða viðskiptafræðingi, hagfræðingi eða endurskoðanda sem er og það verður gert ef forusta launþega verður sofandi.

Herra forseti. Að lokum vil ég leggja áherslu á nokkur atriði. Áhugi fólks á því að hafa aukin áhrif á kjör sín og aðbúnað hefur vaxið. Samfara betri menntun, greiðari upplýsingamiðlun og bættum efnahag finnur fólk sig hæfara til sjálfsbjargar í þessum efnum. Hér er mælt með því að Alþingi leggi sitt af mörkum til þess að svo megi verða. Vinnustaðasamningar um kaup og kjör eru víða staðreynd, bæði innan stóriðjunnar og eins á hinum almenna vinnumarkaði í formi yfirborgana. Með áframhaldandi afskiptaleysi stuðla hv. alþm. að því að festa það misrétti, sem felst í ríkjandi viðhorfum, í sessi.

Kjarasamningar eru frumskógi líkastir og túlkun þeirra ekki nema á færi sérfræðinga, fyrst og fremst vegna þess að í heildarsamningum forðast menn raunverulegar kauphækkanir sem síðan verður til þess að sérkjarasamningar yfirfyllast af alls konar kjaftæði um fríðindi og sporslur, reikningskúnstir þar sem sjálfsagðir hlutir og mannréttindi eru reiknaðir til launahækkunar. Fyrst er gerður aðalkjarasamningur, þá sérkjarasamningur, síðan samkomulag í tvíriti sem geymt er undir borði, þar næst bókanir um hitt og þetta og loks þegjandi samkomulag. Allt leiðir þetta til óskiljanlegrar þvælu fyrir venjulegt fólk, alls kyns sértúlkanir byggjast jafnvel á einhverju sem hvergi er á blað sett, launþeginn er nánast varnarlaus. Benda má t.d. á að opinberir starfsmenn eru ofurseldir túlkun einhvers undirkontórista í launadeild fjmrn. um textaskýringar og mat á kjarasamningum sínum og eiga vart annarra kosta völ en að sækja rétt sinn til dómstóla sem tekur mörg ár. Samstarfsnefnd launþega og launagreiðenda, sem starfar, fæst helst ekki við mál einstaklinga, hefur sjálfsagt ærið annað að starfa.

Þannig er á ýmsan hátt í kjarasamningum dregið úr áhuga og möguleikum fólks til vinnu í dagvinnutímanum vegna þess að hinn launaði vinnutími hefst ekki fyrr en með eftirvinnutímunum. Það er líklegt að fólk sem gerði sjálft sína kjarasamninga, legði áherslu á að hafa þar inni raunverulegar kjarabætur, þannig að stuðlað yrði að löngu tímabærri hreinsun og einföldun á kjarasamningum. Það er heldur ekki lítilvægt atriði að við þetta fyrirkomulag er loku fyrir það skotið að fámennar stéttir með lykilaðstöðu geti stöðvað fyrirtæki og heilar atvinnugreinar. Verkfallsrétturinn verður hjá launþegum innan fyrirtækis og verður beitt í samræmi við vilja meiri hluta starfsmanna hvert svo sem starf þeirra er.

Hér er ekki verið að leggja niður stéttarfélög, þau munu starfa áfram sínu fólki til halds og trausts. Það er heldur ekkert sem bannar fyrirtækjum að greiða hærri laun en kveðið er á um í kjarasamningum ef þau svo kjósa. Í kjarasamningum er samið um lágmarkslaun. Það er hins vegar alveg ljóst að launagreiðslur mega aldrei verða geðþóttaákvörðun atvinnurekenda en í það stefnir hraðbyri vegna þess hve vondir heildarkjarasamningarnir eru og langt frá raunverulegum þörfum fólksins.

Herra forseti. Að síðustu legg ég áherslu á eftirfarandi sem fram kemur í grg. með frv.:

Við teljum eðlilegt að hlutdeild starfsfólks sé aukin með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir og þannig beinlínis tengd afkomu fyrirtækisins. Ef fyrirtækið eykur framleiðslu sína vegna tækniframfara og tækninýjungar er eðlilegt að starfsfólk við þetta fyrirtæki geri auknar kaupkröfur. Það er einnig eðlilegt að starfsfólk taki þátt í rekstri með þeim hætti t.d. að það hægi á kaupkröfum sínum til þess að gera fyrirtæki kleift að fjárfesta í nýrri og betri vélum sem þannig skili sér í auknum kaupmætti þegar fram líða stundir.

Það kerfi, að sérhvert fyrirtæki sé með þessum hætti samningseining út af fyrir sig, býður upp á miklum mun meiri sveigjanleika en núverandi kerfi heildarsamninga gerir. Hins vegar geta starfsgreinafélög myndað sambönd sín á milli sem þá gera samninga fyrir alla félagsmenn.

Vitaskuld er með þessu frv. til l. lögð fram mjög róttæk grundvallarbreyting á fyrirkomulagi samninga um kaup og kjör. Flm. telja þó, eftir að hafa gefið sér þá forsendu að þessi breyting sé nauðsynleg, að í þessu frv. sé eins hægt farið í sakirnar og frekast er kostur og að öðru leyti sé aðilum vinnumarkaðarins látið eftir hvernig þessum skipulagsmálum verður háttað. Það er einnig mat flm. að það sé staðreynd að í samningum á undanförnum árum hafi þeir sem lægst hafa launin ekki fengið þá uppbót sem þeim beri. En með því fyrirkomulagi, sem hér er verið að leggja til, er stefnt að auknum launajöfnuði. Það er einnig röksemd, sem styður þá breytingu sem hér er verið að leggja til, að í svokölluðum heildarsamningum, eins og þeir hafa verið byggðir upp, eru sáralítil tengsl á milli annars vegar afkomu fyrirtækis og framleiðslugreinar og hins vegar samninga um kaup og kjör.

Það er gjörsamlega útilokað að fáeinir samningamenn, sem fyrir þessu samfloti standa, geti haft tilfinningu fyrir afkomu einstakra fyrirtækja eða framleiðslugreina. Leiða má rök að því að stundum leiði þetta til þess að samningar verði óraunhæfir þannig að ekki séu til verðmæti fyrir þeim samningum sem gerðir eru, og ríkisvaldið skakki síðan leikinn með tilfærslum eins og t.d. gengisfellingum. En það má einnig leiða rök að því að þessi skortur á tilfinningu verði til þess í öðrum tilvikum að launþegar njóti ekki ávaxta af aukinni framleiðslu fyrirtækis eða framleiðslugreinar.

Það sem hér er verið að leggja til á einfaldlega að stuðla að því að launþegar fái laun í réttu hlutfalli við verðmæti þeirrar framleiðslu á vöru eða þjónustu sem þeir vinna við. Þá má benda á að þetta nýja fyrirkomulag gerir í raun ráð fyrir vaxandi þátttöku vinnuseljenda í rekstri fyrirtækja. Að þessu sinni er ekki verið að leggja til löggjöf um atvinnulýðræði, þ.e. að tiltekinn hluti starfsfólks skuli hafa rétt til setu í stjórnum, en slíkt gæti vel verið löggjafaratriði síðar. En gera má ráð fyrir að þegar um beina samninga er að ræða milli fyrirtækis og starfsfólks, þá sjái fyrirtækið sér hag í því að fulltrúar starfsfólks sitji í stjórn, fylgist sem best með rekstri og afkomu fyrirtækis til þess að auðvelda og liðka fyrir skynsamlegum kjarasamningum án þess að gengið sé á hag fyrirtækja.

Flm. telja raunar að mjög aukin þátttaka starfsfólks í rekstri sé af hinu góða og æskileg framtíðarþróun. Herra forseti. Allnokkur umr. hefur átt sér stað um félagslega deyfð ekki eingöngu innan launþegasamtakanna heldur vítt um þjóðfélagið. Ég er þeirrar skoðunar að þessi félagslega deyfð sé mest áberandi og tilfinnanlegust í félögum og samtökum sem byggja á svokölluðu fulltrúalýðræði, þar sem fulltrúakosningar fara jafnvel fram á tveimur til þremur þrepum áður en kemur að þeirri samkomu sem hefur umboð og vit til að taka ákvarðanir sem skipta máli. Ég held að launþegasamtökin og kaupfélögin séu gott dæmi um almenningshreyfingar sem eru félagslega og skipulega á villigötum. Það er líkt með kaupfélagsdeildum og verkalýðsfélögum að nánast eina fundartilefnið er kosning fulltrúa á einhverjar samkomur þrepi ofar. Ég trúi því að fólk sé fúst til þátttöku í lifandi félagsstarfi þar sem það hefur völd, tekur ákvarðanir sem varða það sjálft og axlar ábyrgð. Vinnustaðafélög með þeim réttindum og skyldum sem frv. þetta gerir ráð fyrir uppfylla þessi skilyrði að mínu mati.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að þessu frv. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.