30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5770 í B-deild Alþingistíðinda. (5090)

419. mál, brunarannsóknir

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Í hvaða tilvikum hafa rannsóknir tæknimanna leitt til gruns um að íkveikja hafi valdið bruna í atvinnuhúsnæði á undanförnum fimm árum?

2. Í hvaða tilvikum hefur með lögreglurannsókn verið úrskurðað að um íkveikju hafi verið að ræða?

3. Í hvaða tilvikum hafa ákærur verið gefnar út?

Svar:

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarlögreglu ríkisins og sýslumönnum og bæjarfógetum utan starfssvæðis Rannsóknarlögreglunnar, þ. e. utan Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðakaupstaðar, Seltjarnarness og Mosfellssveitar, voru 135 brunar í atvinnuhúsnæði á landinu frá ársbyrjun 1980 þar til í apríl 1985.

Það skal tekið fram að Rannsóknarlögregla ríkisins skilgreindi bruna í atvinnuhúsnæði sem bruna í fyrirtækjum þar sem atvinnustarfsemi fer fram, svo sem tilbúningur, vinnsla eða annars konar framleiðsla, en taldi ekki með bruna í verslunar-, þjónustu- og skrifstofuhúsnæði. Samkvæmt þessari skilgreiningu voru 39 brunar í atvinnuhúsnæði á starfssvæði Rannsóknarlögreglunnar á áðurgreindu tímabili. Aðrir notuðu mun rýmri skilgreiningu og í framangreindri tölu er t. d. í nokkrum tilfellum um hlöðubruna að ræða.

Í 112 tilfellum er talið að eldsupptök séu kunn. Í 11 tilfellum er talið sannað að um íkveikju hafi verið að ræða og þar af áttu í 7 tilfellum börn eða vangefið fólk hlut að máli. Þessar niðurstöður byggjast á lögreglurannsóknum, en í sumum tilfetlum voru einnig kvaddir til sérfróðir menn vegna rannsóknar málanna.

Í einu tilfelli til viðbótar var það niðurstaða tæknimanna að um íkveikju væri að ræða og var eigandi fyrirtækis ákærður. Dómstóll taldi sannað að orsök brunans væri íkveikja en sýknaði eigandann þar sem ekki var talið nægilega sannað að hann hefði kveikt í.

Í 8 tilfellum, þar sem eldsupptök eru ekki sönnuð, er um grun um íkveikju að ræða. Í 3 tilfellum byggist sú niðurstaða m. a. á rannsókn sérfróðra manna.

Í 4 tilfellum, þar sem um íkveikju var að ræða samkvæmt framansögðu, hafa verið gefnar út ákærur á hendur þeim sem taldir eru eiga sök á brununum.