31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5771 í B-deild Alþingistíðinda. (5092)

492. mál, Iðnþróunarsjóður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka forsetanum fyrir það tillit sem hann tekur til beiðni minnar um að fá að mæla fyrir þessu í upphafi fundar, en ég hef sem mest að vinna í neðra við að mæla fyrir frv. þar einnig. En á þskj. 916 á ég frv. til l. um breyt. á lögum nr. 9 frá 13. febr. 1970, um Iðnþróunarsjóð.

Með samningi ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, dags. 12. des. 1969, var stofnaður norrænn iðnþróunarsjóður fyrir Ísland. Stofnun hans skapaði á sínum tíma ný viðhorf varðandi möguleika íslenskra iðnfyrirtækja til að fjármagna uppbyggingu og endurnýjun.

Sjóðurinn hefur tekið virkan þátt í margvíslegum verkefnum til eflingar íslenskum iðnaði. Meginviðfangsefnið skv. stofnsamningi var að efla útflutningsiðnað og að auðvelda aðlögun að breyttum markaðsaðstæðum á innlendum markaði vegna tollalækkana við aðild Íslands að EFTA.

Ráðstöfunarfé sjóðsins var í upphafi og til ársins 1980 einungis stofnfé hans, sem nam jafnvirði 14 millj. Bandaríkjadala, auk árlegra vaxta og afborgana af veittum lánum.

Hinn 29. apríl 1980 var undirritaður viðbótarsamningur við samninginn um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland. Með þeim viðbótarsamningi voru gerðar tvær breytingar á samningnum. Í fyrsta lagi var sjóðnum veitt heimild til að taka lán til að fjármagna almenna lánastarfsemi og til að endurlána til sérstakra meiri háttar framkvæmda í iðnaði. Var þetta gert með breytingum á 5. mgr. 2. liðs og 2. mgr. 4. liðs.

Í öðru lagi voru auknar heimildir skv. 4. lið samningsins til að veita styrki og hagstæð lán til rannsókna á nýjum iðnaði, vöruþróunar, markaðsathugana o. fl. er nam 10% af eigin fé sjóðsins í upphafi árs 1980 og við þá upphæð hafa bæst árlega 10% af rekstrarafgangi hvers árs, í fyrsta skipti af rekstrarafgangi 1980. Var það gert með því að bæta nýjum málslið við 3. málsgr. 4. liðs eins og þar segir.

Með frv. þessu, sem ég flyt nú, er lagt til að ríkisstj. verði veitt heimild til að staðfesta af Íslands hálfu nýjan viðbótarsamning við samninginn frá 12. des. 1969, sem felur í sér eftirfarandi þrjár meginbreytingar:

1. Að verksvið sjóðsins verði víkkað. Skv. gildandi samningi er tilgangur sjóðsins að stuðla að tækni- og iðnþróun Íslands við aðild að EFTA og auðvelda aðlögun iðnaðarins í því sambandi. Þar sem aðlögunartímabili vegna EFTA-aðildar er lokið þykir tímabært að skilgreina hlutverk sjóðsins víðtækar en nú er gert. Megináhersla er þó áfram lögð á tækni- og iðnþróun og samvinnu á sviði iðnaðar og viðskipta milli Íslands og annarra norrænna landa. Með breytingum á skilgreiningu tilgangs sjóðsins er fyrst og fremst haft í huga að ekki leiki vafi á að sjóðurinn geti tekið þátt í fjármögnun arðvænlegra framkvæmda sem horfa til nýjunga í atvinnustarfsemi þótt umrædd starfsemi falli ekki undir hefðbundna skilgreiningu iðnaðar. Sama gildir um margvíslega starfsemi er tækniframfarir á tölvuöld munu leiða af sér.

2. Að möguleikar í lánskjörum verði sveigjanlegri. Skv. gildandi samningi eru almenn lán sjóðsins að fullu gengistryggð miðað við Bandaríkjadollar. Með þeirri breytingu, sem lagt er til að gerð verði, mun sjóðurinn hafa möguleika á að taka lán í öðrum gjaldmiðli en Bandaríkjadölum og endurlána í sama gjaldmiðli. Einnig verður unnt að lána fé sjóðsins út í íslenskum krónum með þeim kjörum er stjórn sjóðsins ákveður. Gert er þó ráð fyrir að stofnfé sjóðsins — en það skal endurgreiðast í Bandaríkjadölum — verði lánað út í sama gjaldmiðli.

Í þriðja lagi er höfuðbreytingin sú að auknir verði möguleikar sjóðsins til þátttöku í áhættufjármögnun og það er mikilvægast að mínum dómi. Skv. gildandi samningi starfar sjóðurinn að verkefni sínu með því að veita lán og ábyrgðir. Með breytingu þeirri, sem lagt er til að gerð verði, hefur sjóðurinn möguleika á að kaupa og selja hlutabréf í starfandi hlutafélögum og taka þátt í stofnun nýrra. Ætlunin er að slík hlutafjárkaup komi því aðeins til að ekki hafi reynst unnt að afla nauðsynlegs áhættufjármagns eftir öðrum leiðum og sýnt þyki að álitlegu verkefni verði ekki hrundið í framkvæmd nema þátttaka sjóðsins komi til. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn eigi hlutafé mjög tímabundið og hlutabréf séu seld strax og aðstæður leyfa og hagkvæmt þykir.

Ofangreindar tillögur hafa verið gerðar af nefnd sem skipuð var af mér með bréfi dags. 20. febr. s. l. til að yfirfara lög og samning um Iðnþróunarsjóð. Nefndina skipuðu eftirtaldir menn: Dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, formaður, Bragi Hannesson bankastjóri, Guðmundur Malmquist hdl. og Þorvarður Alfonsson framkvæmdastjóri. Tillögurnar voru kynntar og ræddar ítarlega á fundi stjórnar Iðnþróunarsjóðs 14. mars s. l. og kom fram jákvæð afstaða fulltrúa þeirra landa er fundinn sóttu.

Þar sem breytingarnar fela ekki í sér nýjar fárhagslegar skuldbindingar fyrir hin löndin virðast þær geta komist í kring með erindaskiptum á milli utanríkisráðuneyta landanna. Ríkisstjórnir allra Norðurlanda þurfa að samþykkja tillögurnar og staðfesta viðbótarsamning við samninginn þar að lútandi. Utanrrn. vinnur nú að því að afla samþykkis ríkisstjórna hinna Norðurlandanna við breytingum þessum. Þykir því rétt að afla nú þegar heimildar Alþingis til þessara breytinga og að veita þeim lagagildi hér á landi. En til þess þarf að sjálfsögðu að breyta lögum nr. 9 frá 1970, um Iðnþróunarsjóð, með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 43 frá 1980, en með þeim lögum var stofnsamningnum og viðbótarsamningnum jafnframt veitt lagagildi á landi hér.

Samningurinn öðlast gildi fimm dögum eftir þann dag er öll aðildarríki hafa tilkynnt að uppfylltar hafi verið kröfur sem gerðar eru til gildistöku í hverju landi fyrir sig.

Virðulegi forseti. Að þessari umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn., en ég vek athygli á að ég hygg að ég mæli ekki um of þegar ég segi að um þetta mál sé ríkjandi samkomulag milli allra flokka á hinu háa Alþingi.