31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5773 í B-deild Alþingistíðinda. (5094)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga eins og það liggur fyrir á þskj. 1065.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er vikið að nauðsyn átaks í húsnæðismálum og segir þar m. a. að áhersla verði lögð á fjölbreyttari sparnaðarform fyrir almenning er tengd séu kaupum eða byggingu íbúða. Aukinn sparnaður er þjóðarnauðsyn, en sérstök ástæða er til þess að hvetja þá, sem eignast vilja íbúðarhúsnæði, til forsjálni í fjármálum sínum og til að miða að því að eiga sparifé áður en ákvarðanir eru teknar um byggingu eða kaup á húsnæði.

Í byrjun þessa árs var sérstök nefnd skipuð til að fjalla um hvernig taka mætti upp samningsbundin innlán við banka og sparisjóði til að fjármagna lán til íbúðarhúsnæðis. Jafnframt skyldi nefndin athuga með hvaða hætti löggjafinn gæti veitt skattaívilnanir þeim aðilum er tækju upp slíkan samningsbundinn sparnað. Nefnd þessa skipuðu þeir Halldór Blöndal alþm., er var formaður nefndarinnar, Árni Kolbeinsson, er var þá skrifstofustjóri í fjmrn., Eiríkur Guðnason, forstöðumaður hagdeildar Seðlabanka Íslands, Haraldur Ólafsson alþm. og Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Jón Ögmundur Þormóðsson, deildarstjóri í viðskrn., aðstoðaði nefndina í störfum hennar.

Nefndin aflaði ýmissa gagna um lög og reglur varðandi skipan húsnæðismála og fjármögnun þeirra í nágrannalöndum okkar. Sérstakur viðauki fylgir aths. við frv. þetta og er þar að finna yfirlit um þá tilhögun sem við er höfð í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Austurríki, Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Kanada og Þýskalandi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndinni og starfsmanni hennar vel unnin störf.

Meginefni frv. þessa er að verði það að lögum gefst færi á að njóta mikils skattaafsláttar með því að spara. Hér er ekki aðeins um að ræða sparnað vegna kaupa eða viðhalds á húsnæði, heldur einnig um almennan sparnað. Munur er þó þarna á sem greint verður frá.

Meginreglur frv. eru þær að reglubundinn sparnaður manna á húsnæðissparnaðarreikningum í bönkum og sparisjóðum skapar rétt til skattaafsláttar er nemi fjórðungi árlegs innleggs. Árlegur sparnaður skal vera minnst 12 þús. kr., en mest 120 þús. kr. og breytast upphæðir í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Sparnaður skal vera reglulegur og varða vanskil ströngum viðurlögum, þ. e. missi skattaafsláttar og hugsanlega missi annarra fríðinda skv. ákvörðun viðkomandi banka eða sparisjóðs. Sparifé má taka út eftir þriggja ára binditíma ef menn afla sér íbúðarhúsnæðis til eigin nota eða ráðast í meiri háttar endurbætur, en ella er féð bundið í tíu ár, þó aðeins í fimm ár þegar um ellilífeyrisþega og 75% öryrkja er að ræða. Auk hins mikilvæga skattaafsláttar nýtur spariféð bestu ávöxtunarkjara í viðkomandi banka eða sparisjóði og kann að skapa rétt að láni við úttekt sparnaðarins eftir því sem viðkomandi stofnun getur boðið. Þeir sem náð hafa 16 ára aldri geta stofnað til húsnæðissparnaðarreikninga.

Samhliða frv. þessu er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt og geymir það frv. nánari ákvæði varðandi skattaafsláttinn.

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er flutt markar tímamót. I því felst hvatning til að efla fornar dyggðir, hvatning til ungs fólks til að leggja eitthvað til hliðar sem það getur síðar lagt fram til þess að eignast þak yfir höfuðið og dregur þar með úr lántöku sem ævinlega þýðir fjárstreymi í annarra vasa.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hæstv. fjh.- og viðskn.