31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5777 í B-deild Alþingistíðinda. (5097)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim tveim ræðumönnum sem tekið hafa til máls, þeim hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 5. landsk. þm., fyrir þær jákvæðu undirtektir sem þetta frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga hefur hlotið af þeirra hálfu.

Í tilefni síðustu orða hv. 5. landsk. þm. hvað varðar skattalög þeirra ungmenna sem geyma skyldusparnað sinn hjá því opinbera vil ég lýsa því yfir að ég er fyllilega reiðubúinn til þess ásamt honum að vinna að því að þetta mál verði kannað og mun með ánægju standa að þeim breytingum sem við gætum báðir sætt okkur við á þeim skattalögum áður en næstu fjárlög verða frágengin að fullu ef engir aðrir formlegir gallar á þeirri vinnu koma í ljós.